Einkarekstur og opinber rekstur.

Fréttir þurfa að vera fjölbreyttar. Þó menn hafi bent á ákveðinn kjarna í einhverju máli gleymist hann fljótt því fjölmiðlar lifa ekki á því að endurtaka hluti heldur finna nýja, vera síbreytilegir. Þar sem málin eru ekki mörg þá þarf að finna nýja fleti á því máli sem er til umræðu, aðal málinu, máli málanna. Fréttirnar eru valdar eftir tilfinningu en ekki upplýsingagildi. Öfundin er sterkur þáttur í mannlegu eðli. Kaupréttarsamningur er þannig miklu betri frétt en það að opinberar eignir hafi verið afhentar einkaaðilum án þess að menn og fyrirtæki stæðu jafnfætis við þá úthlutun.

Já ég er að tala um Rei vitleysuna. endaleysuna síbyljuna, æðið sem gripið hefur þjóðina og kaffihúsin er full af um þessar mundir. Ég er að nefna kjarnann sem skiptir öllu máli. Í því tugmilljarða dæmi skipta kaupréttir um upp á skitinn milljarð litlu.  

Menn skiptast í fylkingar í pólitík eftir því hversu mikið þeir telja að ríkið eiga gera og hversu mikið eigi að vera í höndum einkaaðila. Það eru þó ákveðin prinsip sem eru hafin yfir þessa umræðu og eru gild hvar sem menn eru í pólitík.

 Eignir hins opinbera eru eign okkar allra. Ráðstöfun þeirra verður að vera málefnaleg, til hagsmuna fyrir heildina. Þannig er óheimilt að hygla einstaklingum eða fyrirtækjum einstaklinga á kostnað heildarinnar þannig að allir sitji ekki við sama borð.

 Þegar miklar eignir eru látnar af hendi, hvort sem það er gert gegn gjaldi í peningum, vörum eða hlutum í fyrirtækjum (sameining) þá er skylt að ganga þannig frá því að allir sem hugsanlega vilja og geta hafi jafnan rétt til þeirra eigna.

Þessi regla er ekki eingöngu íslensk lög og stjórnarskrá heldur einnig hluti af samningi sem við höfum gert við flest öll Evrópulönd og staðið að sérstakri eftirlitsstofnun til að fylgjast með að farið sé eftir henni.

Það er ekki einu sinni að eignir hafi verið látnar út úr opinberu fyrirtæki í eitt skipti heldur hefur það skuldbundið sig til að mismuna aðilum í 20 ár. Til að tryggja að starfsmenn færu nú ekki að malda í móinn og reyna að fara eftir lögum hefur þeim verið boðið að kaupa hlut í þessu fyrirtæki og þannig eru þeir gerðir líklegir til þess að mismuna fyrirtækjum sem kynnu að fá sér dæmdan rétt til sömu upplýsinga.

Svandís Svafarsdóttir hefur verið skelegg í þessu máli. Þeir sem hafa einbeittan brotavilja láta slíkt ekki aftra sér. Þeir vita sem er að Svandís er í stjórnmálum eins og aðrir til að hafa áhrif. Þeir bjóða henni stöðu í nýrri stjórn og gelda hana þannig sem baráttukonu. Nú eru allir flokkar búnir að brenna fingurna á þessu lögbroti. Stjórnmálamenn eru hafnir yfir lög. Þegar þeir sammælast um að brjóta á okkur þegnunum þá er enginn sem getur dregið þá fyrir dómstóla. Ákæruvaldið er í höndum stjórnmálamanna sjálfra í þessu máli og okkur býðst nú enginn flokkur til að kjósa aðrir en þeir sem eru sekir.

Svell kaldur maður kærði máli til eftirlitsstofnunar EFTA. Hetja dagsins sem veit hvað er aðalatriði í þessu máli. Ef til vill eigum við almenningur von?

 


Lúðvík Gissurarson Hermannson

Ég óska Lúðvík Gissurarsyni Hermannsyni til hamingju með staðfestingu þess að hann sé sonur föður síns. Þegar saman eru lögð þau líkindi sem DNA rannsókn gefur og frásögn móður hans á faðerninu hlýtur að vera hafið yfir allan vafa að hann er bróðir Steingríms Hermannssonar.

Í fréttum stöðvar 2 var haft eftir dóttur Hermanns og hálfsystur Lúðvíks að faðernismálið hafi verið glæpur. Það hafi svert minningu föður þeirra. Þannig fagnar hún þessum bróður sínum inn í ættina. Mér er alveg ómögulegt að skilja það hvernig sannleikurinn getur svert minningu Hermanns heitins. Það sem gat svert minningu hans voru gróusögur sem studdust ekki við neitt. Besti greiði við minningu hans var sannleikurinn. Það að halda því fram að raunveruleiki Hermanns heitins hafi verið svo ómerkilegur að það verði að halda við skáldsögu í staðinn er raunveruleg mannorðsskemmd.

Baráttu hjónabandsbarna gegn því að Lúðvík fái úr því skorið hver er faðir hans er óskiljanleg og lýsir frekar lúalegum einstaklingum sem hafa lítinn skilning á tilfinningalegu mikilvægi einstaklings að þekkja rætur sínar og fá þær viðurkenndar. Dómstólar hafa metið hagsmunina og niðurstaðan liggur fyrir. Ég fagna henni.


Báðir rétt fyrir sér 2.

 

Ríkisendurskoðun er löggæslustofnun Alþingis. Hún fylgist með því að stjórnvöld fari eftir þeim lögum sem Alþingi setur þeim þ.e fjárlögum.

Það er jafnframt ljóst að stjórnvöld hafa tilhneigingu að orða heimildir sínar mjög óljóst og breyta frá þeim með svona smá hliðrun á milli liða. Ríkisendurskoðun er ekki ríki í ríkinu. Henni ber að hafa eftirlit með stjórnvöldum en stjórnvöld hafa töglin hjá þeim armi ríkisvaldsins sem stýrir ríkisendurskoðun.

Það er ákveðin tilhneiging að hunsa Alþingi. Oft eru mjög víðtækar heimildir í lögum um reglugerðasetningu og jafnvel fara stjórnvöld oft út fyrir þessar víðtæku heimildir. Þegar ríkisstjórnir ráða hvort sem er Alþingi finnst þeim ekki taka því að vera að flækja málið.

Þetta er mjög mikil óheillaþróun. Lög eiga að vera um öll efnisatriði og reglugerð aðeins um nánari útfærslu laganna.

Alþingi hefur m.a. sett í lög heimild til þess að færa á milli fjárlagaliða. Það er í sjálfu sér ekkert að því að smá svigrúm sé til slíkra hluta. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að mínu mati að settir séu svo miklir peningar í verkefni sem hefur jafn veika heimild eins og var fyrir smíði Grímseyjarferjunnar.  Þó nú sé verið að jagast um þetta eina mál er þetta hluti af miklu stærra máli þ.e. þörf á að reglum sé fylgt og Alþingi setji lögin en framkvæmdaveldið framkvæmi þau. Ríkisendurskoðun á heiður skilið fyrir baráttu sína hver sem niðurstaða þessa einstaka máls verður.


mbl.is Segir fjármögnun Grímseyjarferju innan fjárreiðuheimilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar báðir deiluaðila hafa rétt fyrir sér.

Það eru nokkrar athyglisverðar fréttir í fjölmiðlum upp á síðkastið. Atli Gíslason hefur kært til Mannréttindadómstólsins ákvarðanir ákæruvaldsins í nauðgunarmáli. Lögreglan rannsakaði málið ekki nægjanlega vel, Atli bætti úr en það dugði ekki til. Konan varanlega sködduð eftir verknaðinn en ekkert gert.

Ég veit ekki málavexti að öðru leyti en það sem haft er eftir Atla sem er mætur maður. Hann segir að Mannréttindadómstóllinn ætli að taka málið fyrir. Það gerir sá virðulegi dómstóll ekki að nauðsynjalausu.  Hræðilegt mál en þó. Það getur leitt af sér betri meðferð í slíkum málum í framtíðinni.

Þá er það konan sem tekin var nauðug og tekið úr henni þvagsýni að viðstöddum karlmönnum. Var þetta opinber nauðgun í nafni refsivörslunnar??

Vinur minn og skólabróðir, sýslumaðurinn á Selfossi spurði hvor sleppa eiga þeim út á götuna aftur sem ekið hefðu drukknir, þar til þeir yrðu einhverjum að voða. Hann spurði: "Vilja læknarnir það?" Læknar segjast ekki vinna læknisverk undir slíkri nauðung.

Báðir hafa rétt fyrir sér og báðir rangt. Læknar hafa tekið blóðsýni úr drukknum ökumönnum meðan lögreglumenn hafa haldið þeim. Það að koma upp þvaglegg hjá konu meðan  karlmenn halda henni er miklu viðkvæmari aðgerð og grófari árás inn sálarlíf hennar og persónuréttindi. Ef rétt er sem lýst er að karlmenn hafi verið viðstaddir er það hroðaleg og óþörf niðurlæging. Á þessu stigi er viðkomandi saklaus af því sem hún er grunuð um, aðeins er verið að rannsaka hvort um brot hafi verið að ræða.

Læknar sögðu að komi það til að þeir verði skyldaðir til slíkra aðgerða þá mundu þeir gera það á mannúðlegri hátt þ.e. svæfa viðkomandi.  Það er alla vega ljóst að beita hefði mátt vægari aðferðum við töku sýnisins þ.e. aðferðum sem hefðu ekki jafn varanleg áhrif á sálarlíf viðkomandi konu.

Gallinn er ef til vill sá að lögreglulið eru fámenn á stundum og sjaldgæft að svona mál komi upp. Engar fastar starfsreglur eru fyrir hendi til að vinna eftir og því auðvelt að gera mistök.

Í stað þess að deila í fjölmiðlum um þetta mál þarf að vinna að því að sýni úr grunuðum ökumönnum verði tekin með sem minnstum skaða fyrir viðkomandi og í samræmi við þann grunntón norrænna laga um virðingu fyrir persónurétti manna, jafnvel og ekki síst þeirra sem grunaðir eru.  

Af hverju hafa læknar þessa afstöðu. Það er ef til vill ekki bara vegna þess að þeir hafa helgað sig líknandi störfum en ekki refsivörslunni. Það er örugglega að mjög miklu leyti af því að menn verða að treysta læknum fyrir lífi sínu. Ef að þeir taka þátt í aðgerðum sem eru mjög niðurlægjandi fyrir einstakling og er ekki stofnað til vegna heilsu sjúklingsins sjálfs og er þvingað upp á viðkomandi þá eiga þeir á hættu að missa þetta traust. Ef læknirinn kemur inn til þess að vernda einstaklinginn vegna nauðsynlegrar aðgerðar lögreglu þ.e. annars vegar kosturinn að læknir framkvæmi aðgerðina á móti því að lögreglan geri það þá getur læknirinn komist í gegnum þetta án þess að tapa virðingu sinni.


Af hverju sýna Rússarnir klærnar

Rússland hefur löngum verið mikið veldi. Sovétveldið er það sem við þekkjum sem fæddir eru um miðja seinustu öld. Þeir sem eru nú á unglingsaldri og ef til vill eilítið eldri þekkja ekkert til þeirra tíma heldur niðurlægingartíma eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Fyrir sovétið voru það keisarar. Þegar landið lét af kommúnisma var allt efnahagskerfið ónýtt. Verksmiðjur úreltar, landbúnaður framleiddi aðeins brot af því sem bandarískur landbúnaður framleiddi, og þjóðfélagsskipulagið í rúst. Við tók óöld. Hagfræðingar sem fengnir voru til ráðgjafar komust að þeirri niðurstöðu að undirstað þess kerfis sem þeir boðuðu var ríkisvald sem héldi uppi lögum og reglum. Það var nýtt fyrir þeim. Þeir höfðu aldrei séð svona lögleysu.

Nú eru smátt og smátt margir þættir efnahagslífsins byrjaðir að virka. Sérstaklega er það olían sem byrjuð er að mala gull. Já og mikið er af henni og eftirspurnin óþrjótandi.

Eftir langa niðurlægingu þá er ekkert skrítið að Rússlandi vilji láta til sín taka og öðlast fyrri virðingu. Það er líka nauðsynlegt til þess að halda ríkisheildinni saman. Hluti Rússlands eru landsvæði múhameðstrúarmanna - Mjög ríkt er í þeim heimi hatur á Bandaríkjamönnum og virðast þeir hafa tekið við öllum gömlum syndum vesturlanda gagnvar Arabaheiminum. Ef Rússar virðast leikbrúður Bandaríkjamanna þá missa þeir virðingu Araba og eiga á hættu að innanlandsófriður magnist syðst í landinu.

Íslendingar leggja hart að sér til þess að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi eins og framboð til öryggisráðsins er merki um. Það þarf engan að undra að Rússar vilji það líka en þeir eru örlítið fleiri en við.

Bush forseti Bandaríkjanna er ef til vill að berjast við vindmillur í Írak. Þar voru engin gereyðingarvopna eins og áttu að vera, fræðimenn hafa sýnt fram á að hryðjuverkasamtök áttu þar ekki upp á pallborðið. þetta brambolt þeirra kostar efnahag þeirra mikið og þeir vekja rússneska björninn.

Það vita allir sem vilja að Írakstríðið fjallar um olíu. Ætli það hafi nú ekki verið hagkvæmara fyrir Bandaríkin að tryggja með friðsamlegum aðferðum stöðugt streymi olíu frá Rússlandi en þetta hernaðarbrölt sem engum árangri hefur skilað en drepið tugir þúsunda Bandaríkjamanna.

Mun fleiri Írakar hafa fallið eftir að Sadam fór frá völdum en fyrir og ekki sér fyrir endann á þeim hildarleik. 

Ákvarðanir forseta Bandríkjanna og Rússlands og bráðum Kína líka ráða örlögum okkar og næstu kynslóðar. Það er margt ágreiningsefnið sem getur valdið styrjöld á borð við Heimstyrjaldirnar. Við skulum vona að næsti forseti Bandaríkjanna verði ekki svona sjálfhverfur eins og Bush og vonandi hefur hann aðeins meira á milli eyrnanna.   

 


Af hverju er að koma kreppa?

Þeir sem ekki nenna að lesa um efnahagsmál er bent á næstu grein á undan.

Við höfum heyrt af því að áhættusöm húsnæðisbréf í USA hafi valdið þeim óróa sem nú er á mörkuðum og sumir spá að haldi áfram um nokkurt skeið og geti jafnvel valdið alvarlegri kreppu.

Af hverju fór sem fór með þessi bréf. Ég er nú búinn að fá skýringu sem ekki er greint frá í fréttum. Bréfin voru veitt þeim sem ekki höfðu örugga skuldasögu þ.e. þeim sem ekki var komin reynsla á að stæðu í skilum. Þau voru þannig að fyrstu tvö árin voru vextir af þeim viðráðanlegir en síðan tvöfölduðust þeir. Skuldararnir áttu fullt í fangi með að greiða lágu vextina og gátu ekki staðið í skilum eftir að vextirnir hækkuð. Þetta átti svo sem að vera allt í lagi. Spáð var hækkandi verði á húsnæðinu sem sett var að veði og því hægurinn einn fyrir bankann að ná sínu þó lántakandi lenti á götunni og missti allt sitt.

Svo varð barasta engin hækkun á húsnæðinu. Verðið lækkaði og varð lægra en andvirði lánanna. Lántakendurnir gátu ekki staðið í skilum og þeir sem höfðu keypt þessi bréf á því verði að það átti að vera trygg ávöxtun misstu allt og fóru á hausinn. Fjármálaheimurinn er allur tengdur. Íslensk fyrirtæki áttu í fyrirtækjum sem höfðu keypt í þessum sjóðum og þau lækkuðu í verði. Fyrirtæki sem áttu í þeim fyrirtækjum sem áttu í fyrirtækjum sem fóru á hausinn lækkuðu í verði. Gífurlegir peningar fuku út í veður og vind. Það hafði verið ofgnótt af peningum á lánsmarkaði og allt í einu hvarf það að hluta. Menn hættu að taka áhættu og færðu fé sitt í minni áhættu. Sú aðgerð dregur úr vexti fyrirtækja og veldur enn meira falli. Til að sporna við þessu dæla ríkisstjórnir (seðlabankar) peningum inn í kerfið og reyna að stoppa spíralinn.

 Sumir spá því að það reynist erfitt. Við skulum vona það besta.


Menning og listir

Baggalútur var að grínast með orðin menning og listir. Stundum setjum við samasem merki við þetta tvennt en er ekki munur á? Þeir komust að þeirri niðurstöðu að list væri í raun eitthvað sem einhverjir karlar sem til þess hefðu stimpil ákvæðu.

Ég hef alltaf litið á menninguna sem miklu víðtækara hugtak. Listina tel ég alþjóðlega en menningin er hverrar þjóðar. List getur einkennst af menningu þjóðarinnar sem listamaðurinn tengist við -annað hvort er fæddur inn í eða hefur tileinkað sér síðar á ævinni.

 Ég tel t.d. að tæknin sé hluti af menningunni bæði verktækni og vísindi. Þannig er það hluti af menningu inuita þær aðferðir og tæki sem þeir notuðu til að komast af á norðlægum slóðum án aðfanga frá umheiminum. Það var ekki hægt að tala um list af því að gerð hlutanna höfðu varðveist með þjóðinni um aldir og því var ekki hægt að tala um sjálfstæða sköpun hagleiksfólksins sem þá gerðu.

 Ég skrifa þetta af tilefni menningarnætur. Ég er að velta því fyrir mér hvort drykkja og skrílslæti sem ofstast verða í enda þeirrar nætur og stundum byrja löngu fyrr séu hluti af íslenskri menningu og því nauðsynlegur þáttur í þessari merku hátíða.

 Ef svo er þá er ég þakklátur fyrir það að menningin getur tekið breytingum.


Erfiðir tímar

Eins dauði er annars brauð. Við Íslendingar höfum verið á eyðslufylliríi. Ég var á Dalvík á fiskidögum. Þar á tjaldstæðinu voru hjólhýsi og húsbílar fyrir hundruð milljóna, flest skráð á seinustu tveimur árum. Einstaka sérvitringur var enn í tjaldi en lágmarks útbúnaður taldist fellihýsi eða tjaldvagna. Fyrir áratug var öldin önnur. Þá gátu menn gert sér tjöldin að góðu. Það er ekki svo að við eigum fyrir þessum vörum. Við höfum tekið óhemju fé að láni. Fjárfestar hafa dælt inn peningum í skammtímalánum og haldið uppi sterku gengi. Nú flýr þetta fjármagn. Vextir hækka enn meir og gengið hrinur. Þeir þurfa að kaup gjaldeyri fyrir andvirði lánanna sem þeir veittu. 12,6% er lítil lækkun. Seðlabankinn segir að krónan eigi eftir að lækka um 26%. Það er gott fyrir sjávarútveginn en vont fyrir skuldugan almenning sem verður að greiða nauðsynjar hærra verði. Ballið er búið í bili.


mbl.is Krónan hefur veikst um 12,6% á tæpum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrás íslensku bankanna

 

Ég hef verið á ferðalagi seinustu vikur og því lítið bloggað. Á meðan hafa hlutabréfi verið í frjálsu falli í heiminum. Að vísu hafa hlutabréf á Íslandi ekki hrapað öll jafn mikið og mörg erlend bréf en engu að síður er úrvalsvísitalan búin að tapa miklu. Gengið er á fljúgandi siglingu upp á við, dollarinn sem hægt var að fá á innan við 60 kr. er nú að nálgast 70 kr. Einnig hafa verið fréttir af því að fjárfestingar Íslendinga kunni að dragast saman vegna lánsfjárkreppu. Peningar sem einu sinni voru til eru horfnir því þeir voru bundnir í bréfum sem féllu í verði eða voru lánaðir til fyrirtækja sem eru farinn á hausinn. 

Ég hef haldið að arðsemi fjárfestinga íslendinga stafi af því að við höfum tekið áhættu. Hinn fullkomni markaður er þannig að arðsemi er yfirleitt í réttu hlutfalli við áhættu sem tekin er. Markaðurinn er aldrei svo fullkominn. Hann er ekki gegnsær og þarf því mikla vinnu til þess að greina tækifæri. Þeir sem eru skjótir til og duglegir við greininguna geta fundið tækifæri sem fara fram hjá öðrum og því rentað peninga sína án mikillar áhættu. 

Nýjustu fréttir um það að Íslensku bankarnir hafi ekki tekið þátt í þeim áhættufjárfestingum sem nú valda óróanum auka trú mína á þeim. Nú er tækifæri þeirra (sem ekki tóku áhættu) að gerast hrææta, notfæra sér veikleika hinna sem tóku áhættuna og töpuðu.

Kaupþing sameinaðist nýlega Hollenskum banka og skildu frá kaupunum áhættufjárfestingar í bandarískum húsbréfum. Þeir halda því fram að þeir hafi unnið að þessu í mörg ár og það tengist ekkert sveiflum á markaði. Ég græt það ekkert þó Íslendingar græði svolítið á þessu þó ég fagni ekki óvissunni. Það eru alltaf tækifæri - jafnvel í kreppu.

 

 


Fjármálamarkaðir að hrinja.

 Jörðin hristist á Íslandi. Einhversstaðar kemur upp gos einhvern tíman - hvenær eða hvað vitum við ekki. Norðanverðum Vatnajökli í Upptyppingum eða kemur kvikan upp sunnar - ef til vill í Kötlu. Jarðvísindamenn eru ekki nákvæmir í spám sínum. Ég hef það eftir manni sem er i miklum viðskiptum erlendis og reyndar líka úr fréttum hér heima að einhverjir skjálftar séu í fjármálum heimsins. Eitthvað sem taka þarf verulega alvarlega.

Olíuverð er í hæstum hæðum. Það hlýtur að hafa áhrif. Við munum eftir áhrifum olíukreppunnar á áttunda áratugnum. Hún var tilbúin en engu að síður hafði hún gífurleg áhrif. Ég veit ekki af hverju þessir skjálftar eru í markaðnum en væntingar um olíuverð og hækkun þess hlýtur að hafa þar veruleg áhrif.

Við íslendingar segjum gjarnan - þetta reddast. Við höfum oft verið heppnir. Við færum okkur alltaf nær skjálftasvæðunum - bæði með búsetu og fjárfestingar. Gífurlegar fjárfestingar - skuldbindingar sem gætu haft áhrif hér.

 Það er sagt að Íslenskir útgerðarmenn eigi auðvelt með að aðlaga sig að minnkandi afla. Við Íslendingar erum sveigjanlegir. Hvernig sem fer á fjármálamörkuðum þá komum við út úr því eftir nokkur ár þegar heimurinn hefur rétt úr kútnum, spilin gefin upp á nýtt og nýir hákar farnir að taka mikla áhættu með þjóðarauðinn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband