Vegaframkvæmdir og sjávarútvegur.

Mótvægisaðgerðir kallast það að flýta nokkrum vegabótum sem fyrirhugaðar hafa verið og bæta öðrum við.

Hvaða efnahagslega þýðingu hefur það? Einhverjir fá atvinnu. Það eru ekki konurnar sem tína rækju eða orma úr fiski. Hvaðan kemur fólkið sem annast vegaframkvæmdir? Kemur það frá útlöndum eða  frá höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst hæpið að Vestfirðir hafi á að skipa fólki til slíkra sérhæfðra starfa hvað þá heldur tækjum.

Hafa aðgerðirnar góð áhrif á fiskvinnslu. Ekki held ég það. Framkvæmdir hafa haft þau áhrif að auka þenslu. Gengið helst hátt. Kostnaður fiskvinnslunnar helst hár þegar besta aðgerðin fyrir hana væri að minnka spennuna - lækka krónuna.

Aðgerðirnar eru hins vegar dúsa upp í óánægða landsbyggðarmenn sem krafist hafa þessara vegabóta árum saman.


Efnahagslegur leigumorðingi

Ég keypti af rælni bók í M og M sem heitir: Játning efnahags leigumorðingja eða Confessions of an Economic Hit Man sjá:  http://www.amazon.com/Confessions-Economic-Hit-Man-Currents/dp/1576753018

Hún segir frá manni sem lærir til leyniþjónustustarfa til að losna undan herþjónustu í Vietnam. Hann er þá með BS próf i hagfræði og er síðan ráðinn hjá fyrirtæki sem virðist leppfyrirtæki bandaríkjastjórnar og hefur það hlutverk að grafa undan efnahag ríkja með óhemju lánveitingum til uppbyggingar. Peningarnir fara aldrei út úr Bandaríkjunum en skuldirnar verða eftir og þá nægilega miklar til að gera ríkin efnahagslega háð Bandaríkjunum og gera eins og þeim er sagt m.a. að kjósa að vilja Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum.

Hann fjallar m.a. um Monro kenninguna sem gerir Bandaríkin að eins konar yfirþjóð í Ameríku og hann segir að sú kenning hafi færst yfir allan heiminn í kalda stríðinu. Öll aðstoð sem Bandaríkin veiti hefur það markmið að auka hag Bandaríkjanna. Þeir styðja til valda spillta einræðisherra og hagnaður af efnahagsuppbyggingu rennur í vasa fárra útvaldra en ekki massans sem er við hungurmörk.

Hann lýsir því sem alþekkt er hvernig keisarinn í Íran komst til valda með tilstuðlan sonarsonar Rosvelts forset. Sú aðgerð segir hann hafi verið fyrirmynd að slíkum leynilegum aðgerðum víða um heim. Til að tengja ekki stjórnvöld við ólöglegar aðgerðir voru stofnuð leppfyrirtæki eins og það sem sögumaður starfaði við.

Skítlegt eðli kemur oftast mönnum í koll. Þeir sem Bandaríkjamenn kalla hryðjuverkamenn eru ekkert með verri siðgæðisvitund en Bandaríkjamenn þó þeir hafi ekki efnahagsgetu til að beita sömu aðferðum. Bandaríkjamenn sveltu menn til dauða en hryðjuverkamennirnir svara fyrir sig og drepa með því að fórna sjálfum sér.

Bandaríkjamenn fara svo með stríði um heim allan til að "verja bandaríska hagsmuni" sem fengnir eru með þessum hætti. Þjóðarleiðtogar verða að sýnast hliðhollir þeim á yfirborðinu en ala á hatrinu undir því. Það eru ekki allir viðhlæjendur vinir.

Við Íslendingar höfum stutt þessar aðgerðir Bandaríkjanna í blindni. Það er svo auðvelt að vera á móti hryðjuverkum. Þau eru svo augljóslega röng. Þau bitna á saklausu fólki af öllum þjóðernum, trú og skoðunum. Það er ekkert sem afsakar þau. Það er heldur ekkert sem afsakar hegðun Bandaríkjamanna ef það er rétt sem Perkings segir. Gagnrýnendur segja að vísu að sumt sem hann fullyrðir sé erfitt að sanna. Þeir viðurkenna þó að efnahagsaðstoð hafi oft orðið þjóðum fjötur um fót í stað hjálpar. Það er víst að hatur á Bandaríkjamönnum víða um heim er ekki aðeins öfund eins og sumir Bandaríkjamenn vilja vera láta.  


Að loknum heimstónleikum

 

Listafólk styður oft mikilvæg málefni með tónleikahald og öðrum góðum verkum. Nýjasta er að koma fram á heimstónleikum til að berjast gegn mengun aðallega þeirri sem veldur hlýnun jarðar.

 Ég hef hlustað á raddi með og á móti þessu framtaki m.a. Zac Goldsteins ráðgjafa breska Íhaldsflokksins í þessum málum

Það leikur nokkur vafi á því að hvað miklu leyti kolefnasamböndin valda hlýnun jarðar og að hvað miklu leyti um óviðráðanlega dutlunga nátturunnar er að ræða. Það leikur þó enginn vafi á því að mengun okkar dreifist um allan heiminn og náttúran ræður ekki við að eyða þeim efnum sem við framleiðum með brennslu jarðefnaeldsneytis eins og kola og oliu.

Mengun veldur ýmsum skaða sem hafa áhrif á líf okkar og jafnvel tilvist. Það er alveg sama hversu sterk tengls eru milli hennar og hlýnunarinnar við getum ekki spilað með tilvist lífs á jörðinni.

Allir sem ég hef heyrt í  vegna þessa máls eru í raun og veru sammála þessu. Spurningin er hve hratt við förum i breytingar og hvað við gerum.

Zac sagði að öflugasta afl fyrir utan náttúrna sjálfa væri markaðurinn. Hann vildi ná samkomulagi milli ríkja um minni mengun, síðan grunnreglur sem einstök ríki setja sér sem gera það hagkvæmt að spara orku og lifa og starfa í sátt við náttúruna. Hann sagði að ríki ættu ekki að stjórna því nákvæmlega hvernig menn kæmust að markinu, aðeins að setja markið. Markaðurinn sæi um hitt. Um leið og reglurnar eru settar þá koma upp þúsundir leiða í markaðsumhverfi. Meðan fyrirtækin greiða fyrir notkun á náttúrinni þ.e. borga fyrir mengun þá finna þau leiðir til þess að komast undan greiðslum. Zac nefndi að endurvinnsla á áldósum er nær engin í Bandaríkjunum og sagði þar fari gífurleg orka til spillis.

Hann nefndi fyrirtæki sem dæmi sem hafði minnkað mengun sína um 90% og sagði að orku og efnasóun væri gengdarlaus. Betri nýtting kæmi ekki aðeins okkur vel heldur komandi kynslóðum. Mengunarskattar væru naðusynlegir og þyrftu ekki að þýða aukna skattheimtu. Þvert á móti gætu þeir komið í stað annarra skatta. Hagkvæmni þeirrar hegðunar sem kostar mikla mengun yrði minni og hagkvæmni þeirrar sem er náttúruvæn yrði meiri. Þeir sem væru í iðnaði sem mengar mikið myndu leita allra leiða til að auka hagkvæmni í rekstri með því að minnka mengunina. Þegar upp væri staðið yrði jörðin betir staður til að lifa á.

Öfugt við marga þá taldi Zac ekki réttlátt að gera miklar kröfur til þróunarríkja heldur ættu mestu kröfurnar að vera gerðar til iðnríkjanna. Hann sagði að Bretar hefðu byggt upp sinn iðnað á kostnað nýlendnanna og ekki væri sanngjarnt að svipta þau lönd sem ekki hefðu notið sömu kjara þeirra rétti til þróunar.

Ég hef þá trú að Íhaldsflokkurinn breski sé ekki sá framsæknasti í Evrópu á þessu sviði. Þó talar ráðgjafi hans þannig. Evrópa á eftir að berjast fyrir þessum málstað og að líkindum sigra að lokum. Er ekki rétt að við Íslendingar breytum áherslum okkar og miðum við heiminn eins og hann mun verða en ekki eins og hann er. Nú er hátt verð á Áli. Ef Bandaríkin fara að stunda endurnýtingu í miklum mæli, plastefni koma í staðin fyrir ál víða þá gæti verið kippt fótunum undan áliðnaðinum. Verðið sem við fáum fyrir raforku er tengt álverði. Mengunarlítil orka eins og okkar verður mun verðmeiri. Hvar sitjum við þá.

Ef við verðum framarlega í því að nota skynsemina í umhverfismálum þá gætum við grætt miklu mun meira en af nokkrum álverum.

Setjum á lítinn mengunarskatt og notum féið til að lækka gjöld á þeim þáttum sem spara orku. Nettó engin skattahækkun aðeins tilflutningur. Setjum síðan fram áætlun þar sem þessi skattur er stig hækkaður þannig að atvinnureksturinn og einstaklingar geti aðlagað sig að þessum breyttum aðstæðum. - 5-10 ár eru ef til vill hæfilegur aðlögunartími til að leggja á fullan mengunarskatt.

Við skulum segja að lagður verði skattur á bensín og díselolíu. Aðföng sem þarf að flytja langan veg verða þá dýrari. Þá er skatturinn notaður til að greiða niður vörverð í samræmi við vegalengd flutnings óháð hvaða flutningsleið er valin. Það þýðir að þau fyrirtæki sem nota umhverfisvænar flutningsleiðir fá í raun skattalækkun þegar hin þurfa að borga meira.

Zac sagði að skilaboð okkar til stjórnvalda ættu að vera einföld.

Ríkisstjórnir ættu að setja rammann en ekki skipta sér af því hvernig markaðurinn næði þeim markmiðum sem þær setja.

Margir litlir liðir geta gert gæfu muninn en við verðum að fara taka skref í rétta átt. 

 


Siðgæði í kynlífi

 

Nú hefur héraðsdómur kveðið dóm um hvað er kynferðisleg hegðun án ofbeldis. Það er sem sagt alt í lagi elta konu inn á kvennaklósett ýta henni inn á lokað salerni girða niður um hana og hafa við hana alls kyns kynmök án þess að hún hafi gefið leyfi til athafnarinnar.

Semsagt það er ekki nauðgun ef kona er lömuð af skelfingu og getur ekki sagt nei. Geturðu sett þig í spor einstaklings sem er elt af mun sterkari einstakling inn í prívat rými sem hann má ekki fara inn í verða stjakað inn í mjög lítið rými þar inn af og svipt klæðum sem hylja viðkvæmust hluta líkamans. Við karlmennirnir getum verið næsta rólegir - slíkar nauðganir eru aðeins framkvæmdar á veikburða einstaklingum, konum og börnum.  

Nauðgun þarf ekki að vera með ofbeldi. Hún er annað hvort með ofbeldi eða hótun um slíkt. Ef mönnum finnst það ekki pínulítið ógnandi hegðan sem hér hefur verið lýst lýsir það litlum hæfileika til þess að setja sig í spor annarra. Ég tel að hegðun þessi teljist ofbeldi í huga allra heiðarlegra manna.

Þau kynmök og kynferðisleg samskipti einstaklinga sem ekki eru höfð í frami með samþykki beggja eru að mínu mati nauðgun. Kynmök eru mjög alvarleg athöfn. Kynfrelsi er eitt mikilvægasta einstaklingsfrelsið og ekkert jafnrétti er án þess að það sé virt. Sá dómur sem hér hefur verið fjallað um lýsir fornri fyrirlitningu á réttindum kvenna og er draugur frá þeirri tíð þegar konur töldust annars flokks borgarar.

Kynmök án samþykkis beggja er nauðgun.  

 

 


Hvalirnir sveltir.

Ég las frétt um það einhvers staðar að hrefnur væru fullar af þorski - ekki loðnu - og væru frekar horaðir.

Lífríki sjávar er flókið fyrirbrigði. Menn hafa oft haldið því fram að of lítið sé rannsaka um áhrif tegunda hverjar á aðra. Er loðnan minni vegna aðstæðna eða ofveiði? Er þorskstofninn að éta upp seiði sín vegna skorts á annarri fæðu svo sem loðnu? Eru breytingar á einni dýrategund svo sem ígulkerum að hafa áhrif á margar aðrar? Vitum við þetta - hefur þetta verið rannsakað? Gerir friðun þorsks ekkert gagn vegna þess að hann drepst úr sulti hvort sem er?

Við erum að beita vísindum til að stjórna fiskveiðum. Vísindamenn hafa ekki meira vit á því en hver annar ef þeir fá ekki fé í fjölbreyttar rannsóknir á lífríkinu. Vísindin byggja á rannsóknum og hlutlausum rökrænum ályktunum af niðurstöðunum. Ef rannsóknirnar eru alltaf eins á svo flóknu kerfi sem lífríki sjávar er þ.e. mæling á fjöld og stærð fiska á ákveðnum stöðum þá fæst ekki sá skilningur sem almenningur heldur að fiskifræðingar hafi.

Eins og ég hef nefnt hérna áður þarf að stór efla rannsóknir á lífríki sjávar svo hægt sé að taka réttar ákvarðanir um veiðar og nýtingu auðlindanna og verndun lífríkisins af náttúrverndarsjónarmiðum.

Eflum rannsóknir, þá fyrst standa vísindin undir nafni.  


Rannsóknir á grunnslóð

 

Í fréttum 4. júlí var viðtal við kafara sem fylgst hafði með þróun gróðurs á grunnslóð hér við land svo árum skipti. Birtar voru myndir af þróuninni - myndir sem voru áratuga gamlar og svo sami staður nú nýlega. Það sem hafði verið gróðursæll blettur var orðin eyðimörk. Það eru ýmsar breytingar að eiga sér stað í umhverfi okkar sem við skiljum ekki. Við sjáum breytingarnar í plöntu og dýralífi í næsta nágrenni okkar en fylgjumst lítt með því umhverfi sem sjórinn hylur. Þetta umhverfi er uppeldisstaðir nytjafiska okkar og sjávarútvegur er enn mjög mikilvægur efnahag okkar þó fleiri stoðum hafi verið skotið undir efnahagslífið nú en áður voru.

Fréttir af rannsóknum á grunnslóð hafa svo sem áður heyrst. Það hefur áður komið fram að þessi mikilvægi hluti umhverfis okkar sé nánast ekkert rannsakaður. Það er ekki eingöngu nytjafiskar sem eru í hættu. Gætu þessar breytingar haft áhrif á viðkomu sandsíla og þannig haft áhrif á viðkomu fugla. Lífríkið er ein keðja og ógnanir við þessa keðju geta haft mjög víðtæk áhrif. Mér finnst að eytt hafi verið aurum í óskynsamlegri hluti en þá að rannsaka þennan hluta umhverfis okkar. Rannsaka viðkomu einstakra tegunda svo sem ígulkera sem kafarinn taldi að væru orsakavaldur í gróðureyðingu á grunnmiðum. Getum við gert eitthvað til að breyta óæskilegri þróun?

Er það mengun, aukinn hiti eða ofveiði á steinbít sem orsakar þessa plágu. Ég hef enga þekkingu á því. Mér finnst málið of graf alvarlegt til þess að láta það kyrrt liggja. Það gæti verið að kafarinn hefði rétt fyrir sér og það væri fleira en hvalir og fiskimenn sem ógnuðu fiskstofnum okkar.


4. júlí

Á þessum degi 1776 lýstu 13 nýlendur Breta yfir sjálfstæði sínu. Í kjölfarið skall á styrjöld sem stóð til 1783. Þá urðu Bandaríkin til.  

Það má rekja upphaf nútíma lýðræðis til þessa atburðar og byltingarinnar í Frakklandi. Þá má ekki gleyma hægfara byltingu í Bretlandi sem hófst með Magna Carta um það leyti sem við skrifuðum undir Gamla sáttmála og afsöluðum okkur sjálfstæðinu.

Hvernig sem á það er litið er sjálfstæði Bandaríkjanna og stjórnarskrá þeirra sem tryggði grundvallar mannréttindi hornsteinn lýðræðis og mannréttinda eins og við þekkjum þau.

 Barátta fyrir mannréttindum stendur enn yfir, jafnvel í landinu sem ruddi brautina. Aðeins nokkrir áratugir eru síðan þeldökkir fengu að súpa af sömu brunnum og hvítir ganga á gangstéttum í stað göturæsa o.s.fr. Fangar sem herinn tekur eru rétt að fá grunn mannréttindi og þá er ekki talað um önnur lönd sem myrða þegna síðan svo hundruðum þúsunda skipti og misþyrma öðrum.

 Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Amnesty International var sakað um að mismuna þeim sem þeir gagnrýndu.

Ekki skal ég dæma um hvort sú gagnrýni var réttlát. Hvaða samtök sem eru verða aldrei betri eða  verri en þeir sem þau skipa. Amnesty hefur þó verið hafið yfir slíka gagnrýni og er vonandi að þau verði það áfram og gegni því mikilvæga hlutverki sem þau hafa gert.


Kaffihúsalausn á heimsmálunum

 

Ég var að fylgjast með þætti í sjónvarpinu um áhrif Bandaríkjanna og sérstaklega leyniþjónustunnar CIA á heiminn á síðustu öld. Víða hefur hún komið við og hættir maður að vera hissa á því af hverju Bandaríkjamenn eru hataðir svo víða.

Nú er verið að svipta hulunni af alls kyns ógnum sem CIA hefur staðið fyrir vafalaust með vitund og vilja æðstu ráðamanna.

Það kemur svo víða fram algjört yfirlæti gagnvart öðrum. Það er eins og þeir líti niður á megin hluta þjóða. Við héldum að við nytum virðingar. Nú hefur annað komið í ljós. Við njótum aðeins stuðnings þeirra þegar það hentar þeim.

Bandaríkjamenn hafa ekki alltaf verið svona og gert stórmerka hluti eins og Marshall áætlunin er dæmi um.

Meðferð þeirra á föngum á Kúbu nú eftir árásirnar á tvíburaturnana eru dæmi um að þeir líti ekki á útlendinga sem fólk. Bandaríkin voru brautryðjendur í mennréttindum þegar þeir sömdu stjórnarskrá sína á síðari hluta 18 aldar.

Það er meðal annars viðurkennd mannréttindi að menn megi ekki hneppa í fangelsi nema að undangengnum dómi hlutlauss dómstóls. Þetta hefur verið virt að vettugi varðandi útlenda fanga í baráttu við hryðjuverk, þar til Hæstiréttur þeirra komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri óheimilt.

Í þættinum sem ég minntist á var fjallað um afskipti Bandaríkjamanna af Miðausturlöndum. Þar sem þau eru framleiðendur mikilvægs hráefnis fyrir iðnvædda veröld þmt. Bandaríkin (olíu) þóttu þeim síðarnefndu rétt að hafa afskipti af því hverjir sátu þar við völd. Það var sko ekki aldeilis neinir lýðræðisstjórnendur sem hugnuðust Ameríkönunum heldur svæsnir einræðisherrar sem drápu og pyntuðu andstæðinga sína. Eingöngu var hugsað um hagsmuni Bandaríkjanna og mannréttindi annarra látin lönd og leið.

Hatur á Bandaríkjamönnum var ekki eingöngu þeim að kenna. Í Austurlöndum nær var gömlu hatri á nýlenduherrum snúið upp á Bandaríkjamenn og sama var í Víetnam.

Ef við lítum á hina hliðina þe málið frá sjónarmiði Bandaríkjamanna þá er það ekkert einsdæmi að menn líti á eigin landa sem mikilvægara fólk en þá sem utan lands búa. Það má segja að það sé frekar regla en undantekning. Ekki vorum við Íslendingar að hugsa um hagsmuni þeirra hundruð þúsunda Breta sem byggðu afkomu sína beint eða óbeint á veiðum á Íslandsmiðum, þegar við lögðum undir okkur stóran hluta norðu Atlandshafsins með útfærslu landhelginnar í 200 mílur,.

Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri og hafa haft öflugast efnahags- og herkerfi veraldar. Þeir hafa sett sig í þann sess að geta farið um heiminn með stríði eingöngu til að gæta eigin hagsmuna. Sú hugsun líkist hugsun Breta þegar þeir lögðu undir sig heiminn á 18 og 19 öld. Það voru ekki stjórnvöld sem lögðu undir sig Indland í upphafi. Það voru viðskiptaaðilar sem náðu þar tökum og síðan þurftu stjórnvöld að "verja breska hagsmun". Hljómar þetta ekki líkt og rök Bandaríkjanna fyrir stríðsátökum þeirra um allt land.

Uppskeran er svo hryðjuverk um allan heim.

   


Þjóðvegahátíðir á hverjum degi

Ein þjóðhátíðin var kölluð þjóðvegahátíð af því að umferðarmálin voru svo illa skipulögð. Nú eru slíkar hátíðir á hverjum degi. Þegar ég var á heimleið frá helgardvöl fyrir austan fjall byrjaði biðröðin - eftir að komast inn á hringtorgin við Rauðavatn - við Þrastalund. Umferðin silaðist áfram á um 20 km hraða þaðan frá og alla leið að hringtorgunum. Umferðin hefur ekki verið að aukast svo mikið. Svona var þetta áður en tappinn var tekinn á mótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Þegar ein gatnamót eru löguð er öðrum bætt við. Heilt hverfi hefur verið reist í Norðlingaholti og bætt við hringtorgi á veg sem þegar var of mikil umferð á til að hann þoldi slíkt. Umferðarmannvirki á Íslandi virðast hönnuð miðað við umferð sem var en ekki þá sem verður. Íslenskir hönnuðir virðast ekki hafa neina burði til að hanna þau umferðarmannvirki sem þarf. Þeir sem sjá um skipulagsmál hér í borginni virðast gersneyddir getu til að sjá fram í tíman. Tökum dæmi. Nú er búið að reisa gífurlega byggingu á mótum Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar. Það er augljóst að í náinni framtíð verður að gera gatnamótin þarna mislæg. Mikið byggingarland er á Álftanesinu bæði Garðabæjarmegin og Álftanesbæjar megin. Svo er um öll önnur mislæg gatnamót síðari ára. Umferðarljós verða fleiri og leiðirnar bæði hættulegri og torfarnari eftir að hundruðum milljóna hefur verið sóað í brýr. Ástæðan: Engin fyrirhyggja skipuleggjenda.

Þá hefur gengið sú fyrra að almennileg hönnuð mannvirki með greiðum samgöngum kalli á "Ameríska bílaborg". Íslendingar eru ekkert með færri bíla á mann en Bandaríkjamenn. Eina sem sker okkur úr er að þeir kunna að hanna og skipuleggja en við ekki. Það sem á vantar til að gera  Reykjavík að bandarískri bílaborg sem Dagur B. Eggertsson notar sem skammaryrði er ekki bílafjöldinn. Eini munurinn á Reykjavík og amerískri borg er að hér hafa menn enga framtíðarsýn og umferðarmannvirkin komast ekki fyrir vegna nýlegra skipulagsmistaka. Draumur Dags er um fleiri slík mistök eins og þau að eyða hundruðum milljóna í breytingar á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem gerðu ekkert gagn og hafna mislægum gatnamótum.

Á hraðbrautum eru sjaldan slys þó þau verði mjög alvarleg þegar þau eiga sér stað. Það er vegna þess að mannvirkin eru hönnuð rétt. Þar er mjög mikill umferðarhraði og umferð oft mjög mikil. Þeir sem ekki vilja vel hönnuð umferðarmannvirki vilja fórna á altari heimskunnar lífi og peningum.

Ég er ekki verkfræðimenntaður og ég sé mörg tækifæri á einföldum breytingum sem gætu liðkað fyrir umferðinni. Lengingar af- og aðreina, hringtorg o.þ.l. Ég hef orðað slíka möguleika sem mér hafa verið ljósir í mörg ár og síðan hafa verið framkvæmdir og bótin er augljós.

Í umræðu við vini mína þá hafa þeir spurt: Aka þessir menn ekki í bíl. Skoðun sem Dagur hefur þorað einn að orða - skoðun um skipulagsleysi og heimsku virðist vera í kolli fleiri. Mér finnst að það ætti að birta nöfn þessara heimsku hönnuða enda eru mannslíf í húfi.

Reykjavík hefur verið hönnuð með það í huga að við erum fá í stóru landi og nóg svæði til að byggja á. Það kostar samgöngur. Almenningssamgöngur hafa einfaldlega ekki veri samkeppnisfærar við einkabilin ef borið er saman verð og þjónusta. Slæm umferðarmannvirki auka ekkert strætóferðir því almenningsvagnar eru í sömu súpunni og einkabíllinn. Við bætast krókar sem strætó fer og öll stoppin og bið eftir vögnum, vagnaskiptin og útkoman verður gjörsamlega ónothæft kerfi. Þá hafa aðrar þjóðir gefist upp á þessu lögmáli heimskunnar og séð að það gengur ekki upp.

Ef við höfum ekki íslenska hönnuði - fáum þá ameríska.

 


Bannað að bera út börn ef þau hafa komið ljós

Það var viðtekin venja á Íslandi að bera út börn. Nú hefur verið fundið upp nýtt form á þessu og ekki talað lengur um að bera út heldur eru vísindin notuð til að rannsaka hversu mannvænlegt barnið verður og aðeins borin út "gölluð börn" eða börn sem mæðurnar af einhverjum ástæðum kæra sig ekkert um eða geta ekki sinnt vegna ýmsra ástæðna.

 Ég hef alltaf verið frekar á móti slíku hvort sem börnin litlu eru fædd eða ófædd og óháð hversu mikið þau líkjast manneskju. Þetta byggist aðallega á vitneskjunni um tilveru barnsins og tilfinningar þeirra sem að því standa. Mér finnst t.d. algjörlega rangt í allri jafnréttisbaráttu að réttur karlmanns sé enginn. Ég gæti ekki hugsað þá hugsun til enda að vita af barni á leiðinni sem ég ætti og kona ákveddi án þess að taka tilliti til minna tilfinninga að drepa það á meðgöngunni. Ef um líf móður er að tefla þá líta foreldrarnir á það sem fórn sem þeir hafa orðið að taka og geta sætt sig við ákvörðun um fóstureyðingu. Ef hitt er upp á teningnum að aðeins fjárhagsleg atriði ráða slíkri ákvörðun þá finnst mér hreinast skömm fyrir þjóðfélagið að láta slíkt viðgangast, þe. að búa ekki betur að foreldrum en það.

Ef getnaðurinn tengist nauðgun þá er réttur föðurins að mínu mati enginn og tilfinningar móðurinnar væntanlega aðrar en þær ella væru.

Á meðgöngu raskast öll hormónastarfsemi konu og hlýtur það að hafa mjög mikil áhrif á ákvörðun hennar um að eyða fóstri. Ég veit að konu sem gert er kleift að ala barn sitt sér aldrei eftir slíku. Ég hræðist meira tilfinningaleg áhrif þess að taka ákvörðun um að deyða það.

Þá er það spurningin um börn sem eru "gölluð". Það er hræðilega erfið spurning. Ég er að sjálfsögðu á sömu skoðun varðandi börn sem eru mjög lífvænleg en hafa einhver séreinkenni eins og vægar þroskahemlanir.

Kunningi minn sagði frá því að kona hans hafi gengið í gegnum legvatnsstungu laust fyrir árið 1990 ekkert fannst að barninu sem var langt gengið. Fóstrið dó litlu síðar en þá var konan gengin sjö mánuði og var dánarorsök sýking. Legið ver barn fyrir sýkingum. Þessi vinur minn sagði við mig: "Ég veit ekki hvort ég hefði látið eyða fóstri þó það hefði haft Downs heilkenni en samt samþykkti ég þessa læknisaðgerð sem hugsanlega hefur deytt fóstrið. Ég get aldrei fyrirgefið mér það.

 Þá spyr ég mig: Hvar á að setja mörkin á því sem þykir eðlilegt og hvað á að banna. Mitt sjónarmið er það að þjóðfélagið eigi að búa það vel að börnum, hvort sem þau eru af ríkum eða fátækum foreldrum, hvort sem foreldrarnir búa saman eða forsjárforeldri er einstætt að ekki þurfi að grípa til slíkra örþrifa ráða. Það á síðan að koma í veg fyrir slíkar ákvarðanir með öllum tiltækum ráðum. Ég er hins vegar ekki tilbúinn að segja aldrei við neinar aðstæður og ég hef samúð og skilning með þeim einstaklingum sem hafa gengið í gengum þessa raun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband