25.10.2007 | 17:53
Trúfrelsið
Fyrir nokkrum mánuðum neitaði prestur að ferma stúlku vegna þess að hún var skráð í Fríkirkjuna. Niðurstaða dómsmála ræðst ekki af raunveruleikanum heldur því sem kemur fram í viðkomandi máli. Það er í sjálfu sér grundvallaratriði en ekki gallalaust. Menn gefa dómum ef til vill víðtækari merkingu en ástæða er til miðað við þessa staðreynd.
Þetta skrifa ég vegna fréttar um að Hæstiréttur hafi sýknað íslenska ríkið af kröfu Ásatrúarmanna að njóta jafnræðis við þjóðkirkjuna í styrkjum.
Hæstiréttur miðar niðurstöður sínar við það sem hann telur réttasta túlkun á lögum og stjórnarskrá. Staða þjóðkirkjunnar er stjórnarskrárbundin. Af því er HR bundinn.
Eftir fréttinni að dæma setur dómurinn kvaðir á þjóðkirkjuna. Hún getur ekki vísað fólki frá og hann segir réttilega að prestarnir séu embættismenn. þeir verða því að fara að lögum um starfsemi hins opinbera. Menn eiga að njóta jafnræðis þá væntanlega án tillits til litarháttar eða kynhneigðar svo vikið sé að nýlegri umræðu.
Dómurinn vekur líka spurningar um mörk. Er hugsanlegt að sýna megi fram á að þeir peningar sem þjóðkirkjan hefur umfram aðra geri meira en að greiða fyrir þær kvaðir sem á henni eru?
Þegar stjórnarskrárákvæði eru svona sitt í hvora áttina þ.e. annars vegar trúfrelsi og jafnræði og síðan er einu trúfélagi gert hærra undir höfði, tel ég að túlka eigi undantekninguna þ.e. sérréttindi þjóðkirkjunnar mjög þröngt. Þess vegna er hugsanlegt að Ásatrúarmenn hafi ekki lagt fram réttu gögnin.
Ásatrúarfélagið fær ekki aukin framlög úr ríkissjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2007 | 22:09
Hátæknisjúkrahús.
Ég var að segja vini mínum að það gleymdist stundum í umræðunni um gamla fólkið að ýmislegt gott væri gert. Svo þegar við fórum yfir það hvar væri vel gert þá komumst við að því að líklega væri það á einhverjum stórum skipulögðum vinnustöðum þar sem flott er að vinna og fín tæki sem þjónustan væri skást. Hins vegar vantar alltaf látækniþjónustuna. Heimahjúkrun t.d. er tiltölulega látækniþjónusta og þeir sem stjórna henni eru að fæla starfsfólk burtu með því að deila við það um einhverja aura sem það fékk í bílapeninga.
Hátæknisjúkrahús er flott. Þar er hægt að setja milljarða jafnvel þó meiri þörf sé fyrir lágtækniþjónustu. Jafnvel er hægt að spara meira fé með lágtækniþjónustu þe. stytta tíman sem menn þurfa á mjög dýrri þjónustu hátæknisjúkrahúss að halda og bjóða frekar mikinn stuðning við eldra fólk svo það geti bjargað sér sjálft.
Í raun er þetta mjög í samræmi við kenningar Parkinson. Parkinson sagði að á fundum væri mest þráttað um kaffisjóðinn af því að það væri eitthvað sem menn skildu. Heimahjúkrun er eitthvað sem menn skilja nokkurn vegin. Það er því þráttað um smáatriði þar en hátæknisjúkrahús veit enginn hvað er - það er aðeins hugtak sem ekki einu sinni læknar skilja og þess vegna rennur það í gegn eins og ekkert sé. Það er líka alltaf skemmtilegra að vinna með öðrum í nýju glæsilegu húsi og hafa nóg af alls kyns tækjum til að vinna með. Hátæknisjúkrahús er því ægilega spennandi fyrir lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Svo eru það einstaka læknar sem enn leggja áherslu á það sem kemur sjúklingum að gagni og malda í móinn. Hverja eigum við að láta ráða.
24.10.2007 | 00:36
Svona í framhaldi af kaffihúsaheimsókn
Vinur minn sem ég hitti á kaffihúsi í dag og tekið hefur miklu ástfóstri við REI málið trúði því að í það fengist einhver botn. Ég hef eins og menn hafa margir lesið hér á blogginu þá trúa að jafnvel svo stórt mál sem það falli í gleymsku. Stjórnarskiptin voru t.d. mjög sterkur leikur. Mér datt jafnvel í hug að Geir hefði skipulagt svik framsóknar með því að veifa framan í Bing. réttum dulum á laun. Losað þannig Sjálfstæðisflokkinn við glæpinn vitandi það að þau gleymdust frekar ef þeir sem hæst létu tækju við glæpnum. Semsagt gelt Svandísi. Nú er prestastefna, hommatal og Biblíuþýðing að taka við. Ráðherra er á fullu að selja REIþjónustu til Indónesíu. Menn sjá mikla peninga og þá er hægt að líta fram hjá því að ákveðin prinsip hafi verið brotin.
Heimurinn er á barmi kreppu. Greenspan sagði í ræðu fyrir nokkrum dögum að nú ríði á að Bandaríkin taki ekki upp haftastefnu, vinni í anda heimsvæðingar og sporni þannig við þeim möguleika. Hann hefur ekki völdin lengur því miður. kreppan virðist herða fyrst og fremst að Bandaríkjamönnum en þrengingar þar hafa víðar áhrif. Áður fyrr hrundi allt þegar þrengdi að Bandaríkjunum Þeir höfðu sterkasta efnahagskerfi veraldar. Nú eru Kínverjar komnir fram úr þeim. Hugsanlega bjargar það veröldinni.
Þegar kreppir að verður hugsanlega að fórna einhverjum markmiðum tímabundið til að ná efnahag heimsins á skrið aftur.
Það gætu verið umhverfismálin. Við sjáum til.
22.10.2007 | 15:11
Spár sem ekki eiga að rætast.
Vinur minn sem hefur sterkar skoðanir á REI málinu og hefur látið til sín taka, m.a. á blogginu hélt það raunverulega að í því máli fyndist botn. Ég sagði honum að slík undur og stórmerki sæjust aldrei. Menn ræða slík mál fram og til baka af litlu viti og þekkingu en þeim mun meiri tilfinningahita. Yfirleitt væri litið fram hjá aðalatriðunum þ.e. þeim prinsipum sem hafa verið brotin og meira rætt um skyld mál svo sem var það gott eða slæmt að Villi varð að taka pokann sinn.
Við vorum þó vissir um það að Svandís Svavarsdóttir myndi láta hné fylgja kviði. Stjórnmálamenn hafa ráð undir hverju rifi. Buðu henni í bæinn heim og svo ekki söguna meir. Enginn ræðir nú um spurningar Umboðsmanns Alþingis og kæruna til Efta. Mörgum spurningum er ósvarað. Nýr meirihluti hefur tekið við. Hefur nokkur séð breytingu á gang mála? Hefur málið eða hluti þess verið upplýstur.
Allir geta verið sammála um það að hin vatnskennda þekking sem inn í orkuveitunni er þarf að fá þann farveg sem skapar mestan arð fyrir orkuveituna og almenning. Það var barasta ekki það sem hratt þessu máli af stað heldur hitt að það var ekki beitt réttum aðferðum.
Það sem Svandís Svarvarsdóttir þarf að gera nú þegar er að leggja spilin á borðið. Hvað á að rannsaka? Hvernig ætlar ný borgarstjórn að gera betur og hvernig tryggjum við best hagsmuni Reykvíkinga og landsins alls.
Ef hún spilar þetta rétt, upplýsir málið að fullu og tekur réttar ákvarðanir eins og manneskja með hreint borð getur gert þá er það einstækt í slíkri umræðu.
Ég vona að spár mínar um það að enginn ásættanlegur botn fáist í þetta mál eigi ekki eftir að rætast.
21.10.2007 | 10:45
Olíuríkið Ísland
Í góðæri verður umræðan firrt. Náttúruvernd er mikilvæg en umræðan verður að vera byggð á skynsemi. Við getum ekki lifað í þessu landi nema fórna náttúrunni að einhverju leyti. Þannig hefur það verið í þúsund ár. Landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Þá var loftslag mun hlýrra og engar kindur til að éta upp eða bæir sem þurfti að kynda með afurðum skóganna. - Svo kólnaði, sauðkindin át upp, eldfjöll og menn brenndu og nú er hér annað tveggja eyðimörk eða gras.
Sumir náttúruverndarsinnar vilja halda því þannig um ókomna tíð. Það verður aldrei svoleiðis. Eldfjöll halda áfram, búskaparhættir breytast og loftslag breytist. Við getum bætt á einum stað en fórnað á örðum.
Þessi orð læt ég falla vegna samtals við mætan blaðamann sem heldur því fram að stjórnmálamenn séu orðnir svo hræddir við náttúruverndarsinna að þeir þori ekki að stuðla að framförum. Ég er svo sem náttúruverndarsinni. Ég er mikill mannlífssinni og af þessu tvennu met ég mannlífið meira. Náttúrvernd á að þjóna manninum en ekki verða trúaratriði.
Umræðan var um olíuna við Öxarfjörð sem nú er gleymd og hélt hann því fram að menn þorðu ekki að rannsaka hvort hún sé þarna í vinnanlegu mæli. Vinur minn sem er jarðeðlisfræðingur heldur því fram að jarðhiti geti haft áhrif á hraða olíumyndunnar. Það sé því mögulegt að olía finnist þó jarðlögin séu frekar ung í olíulegu samhengi.
Þessi blaðamaður segir að hægt sé að selja leyfið og láta útlendinga vinna olíuna og flytja óunna úr landi. Mengun af því verður nánast enginn hér á landi og það verður að vinna olíu einhversstaðar hvort sem er.
Það kostar lítið að vita - af hverju rannsökum við þetta ekki betur eða er eitthvað í pípunum eins og menn segja gjarnan við þessar aðstæður.
20.10.2007 | 12:57
Trúfrelsi trúleysingja og réttur samkynhneigðra
Mér hefur alltaf þótt sjálfsagt að hér sé þjóðkirkja. Þetta hefur verið ágætt fyrirkomulag. Yfir 90% af fólki hefur verið sátt við það og athafnir eins og giftingar og jarðarfarir hafa ekki klofið fjölskyldur. Nú grassera alls kyns sárstrúarsafnaðir og kirkjan er að verða að einum slíkum. Skoðanir meiri hluta fólks og kirkjunnar færast alltaf frá hvorri annarri. Nú er til umræðu að færa Kirkjuna á milli ráðuneyta. Það hefur mér alltaf fundist skondið að vista þá stofnun með lögreglumálunum og sé hún raunveruleg þjóðkirkja ætti hún að sjálfsögðu heima undir forsætisráðuneytinu. Það er hins vegar spurning hvort við eigum að hafa þjóðkirkju. Sú spurning er nátengd tilfinningu okkar sem þjóðar. Hún er að breytast. Við erum ekki lengur einsleita þjóðin sem var afkomendur víkinga sem lifað hafði af þjóðarmorð móður náttúru. Við erum að blandast við aðrar þjóðir og hingað flæða inn erlendir menningarstraumar. Lokunin er rofin.
Við byggjum þjóðfélag okkar á mannréttindum, að allir menn séu fæddir jafnir og hafi jafnan rétt til að tjá skoðanir sínar og trúarafstöðu. Hafa menn það þegar við höfum þjóðkirkju sem er eins og sagt var í animal farm jafnari en aðrar kirkjur.
Mesta gjáin milli þjóðar og kirkju er að líkindum afstaðan gagnvart samkynhneigðum. Í biblíunni er talað um hjónaband sem samband karls og konu. Það er ekkert sem segir að það megi gagnálykta frá þeirri setningu að það geti ekki verið samband tveggja kvenna eða tveggja karlmanna. Þá gagnályktun setja menn fram vegna þess að það passar við eigin fordóma en stríðir á móti þeim túlkunarsjónarmiðum sem kristnin boðar þ.e. kærleikanum.
Það er annað sem mér finnst ekki rétt í þessari trúarumræðu en það er afstaðan til þess hvað sé trú í skilningi trúarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld túlka það eingöngu sem trú í þessum skilningi að trúa á Guð eða Guði. Það að trúa því að enginn æðri máttur sé til eru ekki talin trúarbrögð. Eftir þessu að dæma væri hægt að skylda menn til að trúa á einhverja guði eða guð. Það gengur ekki upp. Trú byggir á því að það er ekki vissa. Trú fjallar um tilgang, sköpun og stjórnun lífsins. Þær skoðanir sem menn hafa á þessu eru trú vegna þess að enginn einn getur sagt að hann viti sannleikann og allir aðrir hafi rangt fyrir sér. Það er einfaldlega ekki hægt að sanna neitt í þessum efnum. Þeir sem trúa því að enginn æðri máttur sé til hafa sama rétt til sinnar lífsafstöðu eins og hinir. Þeir eiga að geta stofnað samfélag um sína trú eins og hinir og ekki má mismuna slíku trúfélagi. Það verður að eiga rétt á sömu styrkjum og önnur trúfélög. Í stað þess eru þeir sem vilja iðka trú sína sem trúleysi að sækja í önnur trúfélög. Það læðist að manni sá grunur og ég veit þess dæmi að menn hafi farið í umburðarlind trúfélög eins og ásatrú til að iðka sitt trúleysi. Þá er ég ekki að dæma alla sem tilheyra þeim söfnuði trúlausa.
Semsagt veitum öllum íslenskum borgurum jafnan rétt innan þjóðkirkjunnar annars er hún ekki þjóðkirkja og veitum þeim sem vilja iðka þá trú að enginn sé guðinn rétt til jafs við aðra.
17.10.2007 | 20:42
Kommísaragötur.
Komisarar þurfa einkagötur. Þeir geta ekki verið á yfirfullum strætum borgarinnar í 40 mínútur að fara á milli hverfa eins og ég var í dag.
Ég vil ekki ameríska bílaborg segir Dagur eins og hann viti ekki að bílafjöldinn í Reykjavík slær hvaða borg í Bandaríkjunum út. Það sem hann vill ekki eru greiðar samgöngur fyrir pöpulinn en vill sjálfur láta einkabílstjórann skjóta sér um borgina. Pöpullinn getur sko tekið strætó enda bæði einkabílstjórinn hans og strætisvagnabílstjórinn borgarstarfsmenn.
Það kom maður um daginn í sjónvarpið og sagðist vera eyða þremur tímum á dag í strætó að fara úr og í vinnu og þykir gott. Borgarstjóri getur ekki gert slíkt enda önnum kafinn en við hin sem aldrei þurfum að vinna - tökum bara yfirdráttarlán á lán ofan þurfum ekkert að gera annað en bíða eftir því að komast heim til okkar í strætisvögnum. Við gætum jafnvel sparað okkur mikinn líkamsræktar kostnað ef við barasta hjóluðum svona amk þegar er ekki rok upp á 30 metra, helli rigning slabb eða snjókoma.
Við vitum líka að það átti að redda þessu með þéttingu byggðar. Þá átti að verða styttra í alla þjónustu með því að fleiri byggju á sama blettinum. Þétting byggðar var framkvæmd við Skúlagötuna ef þið vitið það ekki. Þegar svo kom að því að skipuleggja Valssvæðið var kvartað yfir því að ekki væri farið eftir þeim áætlunum og var svarið að búið væri að þétta byggðina við Skúlagötu.
Við sem þykjumst sjá lengra fram í tíman en til morgundagsins spáum því að enn eigi eftir að flytjast fólk utan af landi til Reykjavíkur, jafnvel líka frá útlöndum. Við sjáum það einnig fyrir að við munum enn halda áfram að fjölga okkur með náttúrulegum hætti eða með aðstoð Ítalskra sérfræðinga og allir þessir nýju einstaklingar muni haga sér eins og við hin og kaupa sér bíl. Vandamáli á því ekki eftir að minnka heldur aukast með hverjum Degi og hans líkum.
15.10.2007 | 21:54
Jarðarför í beinni
Áður en Villi gerðist borgarstjóri fannst mér hafa verið gengið fram hjá honum sem borgarstjóraefni. Maður sem unnið hefur vel að sögn flestra í sambandi sveitarfélaga og ég vænti mikils af honum.
Ég er hræddur um að hans dagar séu taldir í pólitík. Það hafa orðið mistök sem hann ber ábyrgð á. Þá skiptir ekki aðal máli hvort hann hafi vitað um einstaka þætti málsins eða ekki. Ef hann hefur ekki vitað þá hefur hann ekki kafað ofan í svona stórt mál eins og ætlast má til af manni í hans stöðu. Það er hægt að treysta embættismönnum og fulltrúum borgarstjórnar í stjórn orkuveitunnar fyrir ákveðnum hlutum. Þegar gerður er milljarða samningur um eignir borgarinnar verður borgarstjóri að sjá til þess að hann hafi réttu upplýsingarnar. Annað eru stórkostleg embættisafglöp. Afglöp af þeirri stærðargráðu að þau verða ekki fyrirgefin. Mér er hlýtt til Villa og held að hann sé ágætis drengur. Ég held að hann sé aðeins peð í þessum leik. Ef til vill er hann peðið sem verður fórnað og þá sleppa allir hinir sem hafa stuðlað að því sem ég tel óhæfu eins og fyrri greinar mínar segja.
Í viðtali við Bjarna og Villa í sjónvarpinu nú aðan fannst mér Vilhjálmur verða jarðaður í beinni.
Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2007 | 17:08
Laxeldi og fleiri stórgróðafyrirtæki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2007 | 10:44
REI ðarinnar býsn um Landsvirkjunarsölusamninga orku
Það er hægt að velta sér upp úr þessu REI máli í hið óendalega. Það er með ólíkindum hvað menn voga sér þegar þeir véla um eignir almennings. Um hugarfar, góðan vilja eða hvaða það er nú kallað allt saman skal ósagt látið. Góður vilji er ekki nóg ef hlutirnir eru ekki gagnsæir þá læðist alltaf að grunur um einhvers konar spillingu og mismunun.
Ég hef meiri áhuga á kjarnanum þ.e. reglum sem við þurfum að fara eftir í opinberum rekstri. Ég er þeirrar skoðunar að hvort sem opinberir aðilar koma beint fram eða í skjóli einhvers forms sem lítur út fyrir að vera einkafyrirtæki þá eru þeir að sinna eigendum sínum þ.e. öllum almenningi og verða því að lúta reglum stjórnarskrár um jafnræði borgaranna. Frá þessu verður ekki komist. Þetta leiðir aftur hugann að þeim samningum sem Landsvirkjun hefur gert um sölu á raforku. Þeir eru ekki "upp á borðinu" eins og stjórnmálamenn kalla pukur sitt. Meðan þeir samningar eru ekki ljósir, hvernig er þá hægt að tryggja slíkt jafnræði. Þetta leiðir aftur hugann að því hvort opinberir aðilar geti verið með þjónustu sem lítur slíkri verðlagningu þ.e. gera einstaka samninga sem fara leynt og eru ekki í almennu útboði.
Hið rétta væri að Landsvirkjun og ríkisstjórn biðu út kaup á ákveðnu orkumagni á ákveðnum stað og auglýsti á evrópska efnahagssvæðinu og í heimspressunni þar sem líklegt er að kaupendur finnist. Það er í sjálfu sér ekkert leyndarmál hvað virkjun kostar. Hvers vegna ætti það að vera leyndarmál hvað orkan úr henni kostar þar sem mismunurinn er arðsemi opinbers fyrirtækis.
Ef þessi háttur væri hafður á gætu garðkirkjubændur t.d. boðið saman í ákveðin orkukaup og samið um flutning orkunnar til notkunarstaða um landið. Munurinn á því fyrirkomulagi sem nú er og því sem ég legg til er eingöngu jafnrétti borgaranna sem er einmitt grundvöllur þess að hægt sé að hafa þessi fyrirtæki í opinberri eigu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)