17.12.2007 | 13:11
Hækkum launin fjölgum kennurum
Ég hef borið saman hlutfallsleg laun barnaskólakennara í Portúgal og Íslandi barasta af því að ég var þar staddur og ræddi við einn slíkan. Mér reiknaðist til að flest kostaði þar aðeins þriðjung af því sem hlutirnir kosta hér og launin samt svipuð. (Þetta er að vísu þriggja ára gamall samanburður). Laun sjálfmenntaðra tölvumanna voru um helmingi lægri en laun kennarans sem segir mér það að kennsla sér þar hátt metin.
Nú eru uppi ráðagerðir um að auka menntun kennara. Ég tel það til lítils ef launin verða alltaf þau lægstu sem greidd eru fyrir sambærilega menntun. Við þurfum að gera það hlutfallslega áhugavert að vera kennari miðað við það sem menn þurfa að leggja á sig til þess að fá þau réttindi.
Fleiri kennara. Við höfum reglur um að blanda öllum saman í sama hópnum. Þar eiga að vera fatlaðir, áhugasamir, gáfaðir, latir, drengir og stúlkur. Þetta krefst að mínu mati einstaklingsmiðaðs náms. þe. mun fleiri kennurum og meiri sveigjanleika í náminu. Ef kennari á að halda utan um námsframvindu allra sinna nemenda þarf hann líka að hafa góðan undirbúnings og úrvinnslutíma milli kennslustunda.
Ég held að það sé best að hafa stóra bekki í aðgreinanlegu rými þar sem margir kennarar vinna hver með sinn hóp. Hóparnir greinast síðan misjafnlega eftir fögum. Þannig getur nemandi sem er slakur í stærðfræði en góður í málum farið hægar yfir stærðfræðina en málin. Þetta er svo sem þekkt mynstur bæði erlendis frá og hér heima.
Þá er líka hægt að taka upp gamla bekkjakerfið þar sem "slöku" nemendurnir eru allir í "tossabekk" en þeir góðu í "nördabekk" með þeim stimplum og einelti sem því fylgir.
Í stað þess að demba á lengra kennaranámi í einum grænum þá finnst mér að byrja eigi á þessum enda. Auka sérhæfingu kennara með námskeiðum sem þeir eru styrktir til að taka og veita þeim umbun í launum. Þannig verður verkaskipting innan kennslustofunnar milli samkennara.
Of lítið tillit er tekið til þarfa drengja til þess að prófa og reyna hlutina. Mikinn undirbúning, kennslutækni og áhöld þarf til að leyfa slíkt. Hvernig væri til dæmis að kenna hraðaútreikning og hröðun með fjarstýrðum bílum. Leikur og nám yrði þannig tvinnað saman. Við þurfum bæði í uppeldi og í kennslu að leita að styrkleikum einstaklingsins og vinna með þá. Verklegir og listrænir eiginleikar eiga að njóta sín jafnt og bóklegir. Sumir eru skjótir að hlutunum og sumir þurfa tíma en ná öðrum árangri þannig. Allt á þetta rétt á sér og allra eiginleika er þörf.
Þetta eru allt hugmyndir sem eru í umræðunni. Meira námi kennara mætti svo koma á smátt og smátt.
Mikill munur á milli skóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 00:24
Er það trúarbrögð að trúa því að guð sé ekki til.
Ég hef alltaf talið mig trúaðan þó ég hafi átt mín augnablik þar sem ég efast. Ég er hins vegar maður mannréttinda og hef talið það grunn rétt hvers einstaklings að hafa sínar skoðanir og segja frá þeim svo fremi að þær séu ekki skaðlegar öðrum sem ekkert hafa til sakar unnið.
Ég hef þannig vilja verja rétt þeirra sem trúa því statt og stöðugt að eingin dularfull öfl séu til þ.e. er að það sem ekki er áþreifanlegt það eða sýnilegt er ekki til. Ég hef álitið að þeir sem þetta aðhyllast hafi sama rétt og ég til að hafa þessa trú. Ég segi trú vegna þess að orðið trú fyrir mér er að vera sannfærður um eitthvað sem ekki er hægt að sanna og þar sem enginn getur fullkomlega skilgreint guð þá er ekki hægt að sanna eða afsanna tilvist hans. Maður verður að sjálfsögðu fyrst að vita hvað fyrirbrigðið er áður en maður ákveður hvort það er til.
Þetta hefur verið mér mikilvægt af því að ég hef áhuga á að þeir njóti sama réttar og aðrir og geti fengið þá styrki sem aðrar skoðanir um tilvist guðs hafa. Annað finnst mér brjóta jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og trúfrelsisákvæði. Eðli mannréttindaákvæða eru þannig að þau verða að ná til allra - ekki bara þeirra sem hafa ákveðna lífsskoðun svo sem að guð sé til.
Þetta hefur ekki fallið að skoðunum sumra guðleysingja sem halda því fram að það séu aðeins trúaðir sem álíta þá trúaða.
Þetta held ég að stafi af því að þeir vilji losna undan neikvæðum ummælum sem hafa verið höfð í garð trúaðra.
Það að trúa að guð sé ekki til er að mörgu leyti eðlisólíkt því og að trúa því að Guð sé til. Þeir sem trúa á tilvist guðs þurfa að taka afstöðu til gamalla orða sem rituð voru við allt aðrar aðstæður og meta hvort þau séu rituð "eftir vilja guðs" og hvort þau eigi ekki við í nútímanum. Ekkert svoleiðis vandamál á við um þá sem trúa ekki að tilvist guðs.
Öfgar trúlausra er yfirleitt ekki um boðun trúar sinnar. Ég hef ekki orðið var við það að minnsta kosti. þeir berjast fyrir almennum mannréttindum sem löngu hafa verið sett í stjórnarskrár og eru yfir 200 ára gömul. Ef það eru öfgar að fá rétt sem þeim hefur verið gefin og þeir eru fæddir með þá eru þeir öfgafullir. Mér finnst þeir sem vilja meina þeim um þann rétt vera öfgamennirnir.
Þó þeir vilji berjast fyrir rétti sínum er ekki þar með sagt að þeir hafi rétt fyrir sér í öllum tilfellum. Menn hafa rétt á því að líta réttindi og skyldur ólíkum augum.
Guðleysingjar vilja afnema sérréttindi kristindóms í þjóðfélaginu.
Ég er sammála guðleysingjum um að það má hugsa sér siðfræði án trúarbragða. Ég veit ekki til þess að allir guðleysingjar aðhyllist sömu siðfræði hvar sem þeir eru í heiminum. Siðfræði kristindómsins hefur mótað íslenskt samfélag og er eins heildstætt eins og siðfræði getur verið í frjálsu þjóðfélagi. kristindómurinn hefur mótað siði okkar í þúsund ár. Við höfum enga aðra sem við getum orðið sammála um að taka í staðin. Hvort sem menn eru trúaðir eða ekki er kristin siðfræði sú eina sem við getum sammælst um. Kristin siðfræði verðu undirstaða lagasetningar og uppeldis íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð. Kristnir hátíðisdagar og kristnar samkomur verða haldnar. Það er ekki þar með sagt að hafa eigi kennsluna í höndum kirkjunnar manna, það var það ekki þegar ég var í skóla og því engin hefð fyrir því. Mér finnst eðlilegt að kenna að hér hafi kristni verið ríkjandi trú og sé það enn. Kynna grundvöll kristninnar og annarra trúarbragða þ.m.t. guðleysis.
Kennsla á að miða að því að auka víðsýni manna. Það stuðlar ekki aðeins að meiri árangri í vísindum heldur að betra og skilningsríkara þjóðfélagi og betri heimi.
Passar það ekki vel við kristnað siðfræði.
6.11.2007 | 13:58
Geta útlendingar hannað lopapeysur
Ég var nú alinn upp við það að íslenska lopapeysan væri einstök og við gætum lagt undir okkur heiminn með sölu hennar. Svo gleymdist það og menn eru hættir að nenna að hirða ullina af sauðfénu. Það kemur því á óvart að annars staðar í heiminum skuli vera til lopi og jafnvel flottari peysur en okkar. Við sem erum best í heiminum eigum svo barasta að "COPYERA" annarra manna verk.
Á eftir útrás ullarinnar var fundið um eitthvað nýtt sem átti að vera best í heiminum, refur, lax og svo lambakjötið og hrossin og nú er það vitið sem hvergi finnst annars staðar. Menn ætla að fara að græða 1000 milljarða alveg eins og þegar laxaævintýrið byrjaði. Við erum einir í heiminum og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að markaðslögmálið hefur þau jákvæðu áhrif að draga stundum fram hæfileika út úr skúmaskotum eins og Bandaríkjunum eða jafnvel Ástralíu. Og hver veit nema borarnir viti ekkert af því að það er verið að bora eftir heitu vatni og menn geti notað jarðfræði og bortækni Olíumanna lítið breytta. Þeir ku hafa virkjað hita á 6000 m dýpi undir miðri Ástralíu - Að þetta skuli nú leyfast.
En milljarðamæringarnir sem tapa árslaunum verkamanns í 10 þúsund ár fyrir morgunverð þurfa að bæta sér upp tapið með því að gabba stjórnmálamenn og forsetann þeir endasendast um heiminn til þess að sýna hvað við erum stór og flott þjóð með gáfaða menn. Ég er hins vegar ekkert sannfærður um það að gáfaðir menn út í heimi trúi þeim.
Íslenskur hönnuður beðinn að stela danskri glæpapeysu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.11.2007 | 19:33
Löggan ræðst á heiðarlega borgara.
Ég var mjög hrifinn af því að lögreglan fór að sinna smábrotum á þeim forsendum að lögbrjótar byrja yfirleitt smátt.
Sýnileg lögregla sem passar upp á það að menn pissi ekki utan í annarra manna veggi tel ég mikilvæga. Það er óskemmtileg fyrir þá sem reka fyrirtæki í miðbænum að hlandlykt taki á móti viðskiptavinum þeirra á morgnanna.
Nú hefur löggæslubatteríið hins vegar lækka öryggismörk við hraðamælingar. Það finnst mér vægast sagt hneykslanlegt ákvörðun og til þess eins að skemma tilraunir til að bæta ímynd lögreglunnar og þannig minnka líkur á samvinnu heiðarlegra manna við löggæslu.
Maður var tekinn á 180 km hraða. Dómstóll sýknaði hann vegna þess að ekki var treystandi á mælitækin. Það eru þessi sömu mælitæki sem lögreglan ætlar að nota og auka þannig líkur á því að menn sem ekki hafa brotið af sér séu sektaðir. Margir þeirra leita ekki réttar síns og una ákvörðun lögreglu en blóta í hljóði.
Þó íslenskur dómstóll hafi komist að þeirri niðurstöðu að radarmæling sé ekki nógu nákvæmur mælikvarði þá er hitt víst að hraðamælir í bifreiðum er enn ónákvæmari. Hraðamælir virkar þannig að talinn er snúningur dekkjanna. Þegar bílarnir eru á nýjum dekkjum frá framleiðanda þá er ummál hringsins þ.e. lengd banans þekkt og vitað hversu langt bíllinn fer fyrir hvern hring. Ég er yfirleitt á nýjum eða nýlegum bílum og ek framhjá hraðamælum sem sýna hraða bifreiðar. Ég hef gætt þess að halda jöfnum hraða og þannig fundið hversu miklu munar á hraða bifreiðarinnar skv. hraðamæli og þessum radarmæli. Þar munar u.þ.b. 2-5 km. hraða. Ég hef fengið sömu niðurstöðu með GPS tæki.
Þegar mikið er lagt upp úr því að halda nákvæmum hraða þá helst athyglin á hraðamælum og minnkar athygli á umhverfinu. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem hraðatakmörkin eru miðuð við 30 km. Þar eru líkur á því að börn hlaupi fyrir bifreið og hættan eykst vegna þess að ökumaður er upptekinn að fylgjast með hraðamæli.
Ég hef ekið mikið út á landi. Mér hefur fundist að megin hluti bifreiða sé ekið á hraða milli 90-100 km. Þeir sem aka undir þeim hraða skapa hættu vegna þess að þeir stuðla að framúrakstri. Það er sem sé ekki aðeins hraði sem skiptir máli um öryggið heldur að menn aki á sem jöfnustum hraða. Framúrakstur er líklega það hættulegasta í umferðinni. Hann á eftir að aukast a.m.k. meðan menn venjast þessum nýju reglum.
Ég tel að miklu skynsamlegra hefði verið að lækka hámarkshraða um þessa 5 km. og halda 10 km. öryggismörkum. Þá væri alla vera tryggt að menn væru ekki teknir þegar mælir bíla þeirra sýnir að þeir séu á löglegum hraða nema um alvarlega bilun sé að ræða.
Í New York hafa menn náð miklum árangri í að draga úr glæpum. Þeir hafa gert það með samvinnu við heiðarlega borgara. Við ættum að snúa okkur að því að koma á slíkri samvinnu í stað þess að segja heiðarlegum borgurum stríð á hendur.
31.10.2007 | 22:43
Við erum komin langt á tæpri öld.
Þessa mynd tók afi Kjartan. Af myndum af mömmu sem eru á svipuðum stað í almbúmi að dæma er hún tekin um 1925
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.10.2007 | 13:25
Allt í hægagangi
Nú eru æsifréttir í hvíldarstöðu og anda djúpt fyrir næsta sprett. Það er eins og ég spáði að REI málið gengur í gegnum umræðuna án þess að menn komist að neinni niðurstöðu. Nú hefur Umboðsmanni verið svarað. Hann kemur væntanlega með eitthvað álit og þá segja menn það er alveg rétt hjá honum en málið er búið og gert - við höfum gert bindandi samninga.
Menn hafa gert áhættusamninga um milljarða ráðstöfun á opinberum eignum án þess að á baki liggi pólitísk umræða, jafnvel ekki innan flokkana sem réðu og nýir flokkar taka við og halda málinu áfram, skipa aðal andstæðinginn i rannsóknarnefnd og ráðleggja henni svo smátt og smátt að hafa sig hæga.
Ég tengi þetta umræðunni um ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir lög um fjölmiðla á sínum tíma. REI málið og önnur slík er orsökin fyrir því að almenningur finnst sér misboðið og honum finnst hann standa varnarlaus gagnvart hegðun sem hann telur siðferðilega ranga eða jafnvel ólöglega. Hann veit að ef einhver er dregin til ábyrgðar þá er það undirsáti sem litla ábyrgð ber. Stjórnmálamenn eru alltaf stykk frí.
Það er þess vegna sem forsetinn skynjar að gjá hafi myndast á milli valdhafa og þjóðarinnar. Þjóðin hefur ekki í önnur hús að venda - það eru allir flokkar jafnir í þessum efnum - eins konar samtrygging svikarana.
Hvað getum við gert. Hver flokkur hefur sitt bakland grasrótina sem er undirstaða valanna. Það er þar sem umræðan þarf að fara af stað um raunverulega ábyrgð. hlutlausar rannsóknir og raunverulega niðurstöðu í svona hitamálum sem þessu. Ef REI gæti nú komið slíku til leiðar væri vel. Það fer hins vegar eins og önnur slík mál. Því er þvælt áfram þar til allir eru orðnir leiðir og almenningur situr eftir með ónotatilfinningu í brjósti og glataða trú á stjórnvöldum.
31.10.2007 | 01:25
Flestir trúa og svo hefur það verið frá örófi alda.
Það er erfitt að hugsa til þess að dýr hafi trú. Sorg sumra dýra er svo mikil við andlát náinna einstaklinga að það er vel hægt að ímynda sér að þau hugsi sér að eitthvað framhald sé á þessari tilvist. Þau hafa ekki eins fullkomið mál og maðurinn og hæpið að þau geti tjáð sig um svo abstrakt fyrirbrigði eins og guð og framhaldslíf er.
Trúi er sem sagt algjörlega mennskt fyrirbrigði. Hún virðist hafa komið mjög snemma fram í þróunarsögu mannsins. Það er nánast að hún hafi alltaf fylgt okkur. Ég veit ekki til þess að til sé einhver þjóðflokkur manna þar sem enginn einstaklingur trúir á eitthvað sem kalla megi guð eða a.m.k einhvers konar yfirskilvitlega veru eða verur.
Af hverju trúir maðurinn? Við skulum skoða nokkur möguleg svör.
- Maðurinn trúir af því það er til eitthvað yfirskilvitlegt sem hann skynjar eða fær boð frá.
- Maðurinn trúir af því að hann hefur gáfur til að skilja að örlög allra lifandi vera sé að deyja og hann getur ekki sætt sig við það. Skylt því er þörfin fyrir að hafa einhvern eða einhverja til að leita til þegar allt annað brest.
- Maðurinn trúir vegna þess að hann hefur eðlislæga hvöt til að skilja hlutina og hann setur það sem hann skilur ekki í hendur yfirskilvitlegri veru og leysir sig þannig undan þessari kvöð.
- Það eru eflaust miklu fleiri mögulegar skýringar á því af hverju maðurinn trúir.
Ég get hins vegar ekki fallist á skýringu sem margir trúaðir hafa þ.e. að þrátt fyrir að guð sé til þá hafi hann ekki látið neina vita af tilveru sinni aðra en Gyðinga fyrir svona 2-4000 árum og svo ekki söguna meir hvorki fyrr né síðar.
Þe. ef fyrsti kosturinn er réttur að trúin sé sprottin frá æðri veru eða verum eins og flestir trúa þá er útilokað að ein trú sé rétt og allar aðrar rangar.
Ef trúin er sprottin af þörf sem tengist ekkert yfirskilvitlegri veru eða fyrirbrigðum þá hlýtur það að eiga við öll trúarbrögð. Ef trúin er sprottin af skynjun mansins á einhverju yfirskilvitlegu þá hljóta fleiri eða jafnvel öll trúarbrögð að vera sprottinn frá slíkri skynjun.
Það er því einkennilegt að menn geti verið að berjast út af trúnni. Jafnvel þeir sem trúa á sama guðinn enn deila um hverjir eru réttir spámenn eða synir hans eru í blóðugu stríði.
Það er þannig alveg mögulegt að við trúum af einhverri annarri ástæðu en þeirri að það sé eitthvað að trúa á.
Þegar við höfum opnað fyrir þann möguleika getum við spurt okkur að því hvort trúin geri gagn. Það er augljóst að hún gerir heilmikið gagn fyrir suma. Aðrir segja að trúin sé völd af stríðum og því sé ógagnið fullt eins mikið og gagnið.
Ég þekkti Hollending sem barðist mikið fyrir Amnesty International og var mikill áhugamaður um mannréttindi. Hann sagðist vera trúlaus. Hann fann trúnni allt til foráttu. Ég benti honum a að það hefði komið fleira en stríð með Kristninni þó við værum fjarri því að fara eftir boðskapnum. Ég taldi að mannréttindi og hugsjónir Amnesty væru afsprengi kærleiksboðskaps Kristninnar og slíkur kærleiksboðskapur einkenndi æðri trúarbrögð. Við felldum niður talið. Það eru komin 30 ár síðan og ég veit ekki hvort hann hafi skipt um skoðun.
Semsagt ég tel að trúarbrögð geri miklu meira gott en illt. Það er bara með það eins og brennivínið það eru alltaf til einhverjir sem koma óorði á það. Þetta er bara trú mín og skoðun en erfitt að sanna þetta til eða frá frekar en annað í trúarbrögðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.10.2007 | 13:55
Drulluklessa í óendanlegum heimi.
Flest erum við trúuð og jafnvel allflest trúum við á orð einstaklings sem sagðist vera sonur Guðs og bjó í Palestínu fyrir um 2000 árum. Hann ku hafa nefnst Jesú.
Þegar trú er annars vegar er á oftast bannorð að nefna skynsemi. Sum okkar sem telja sjálfa sig trúa höfum líka efa. Prestar hafa játað það að þeir efist á stundum.
Trú mín gerir mér ekki skylt að afneita staðreyndum sem blasa við. Það er til dæmis augljóst að líf þróast. Það gera hugmyndir líka og vitund okkar um veröldina í kringum okkur. Það er eiginlega galli við boðbera Guðs að þeir koma óskum sjaldan. Líklegra er að þeir nái sjaldan árangri.
Við skulum segja að Guð sé til og Jesú hafi verið sendur af þessum Guði til að segja okkur frá tilvist hans.
Eftir kenningunni er hann alvitur. Hann hefur því séð fyrir að mannlíf breyttist með tímanum og þekking manna ykist þegar tímar liðu fram. Jafnvel án allrar tengingar við Guð ætti hann að hafa séð það með því að notast við það sem hann sá á þeim tíma. Sagt er að Jesú hafi sýnt einstakar gáfur þegar hann kom 12 ára í musterið.
Hefði Jesú sagt bræður og systur af því að hann vissi að eftir 2000 ára félli karlaveldið og konur fengju stöðu manneskja bara rétt eins og karlarnir. Ég veit það nú ekki. Hitt veit ég að hann hefði ekki náð langt með boðskapinn. Það eru mörg dæmi um það að menn sem hafa verið á undan sinni samtíð hafi verið hafnað af samtímanum.
Jesú var vel læs og hlýtur að hafa skrifað líka samanber frásöguna um komu hans í musterið (ef sönn er). Hvers vegna ritaði hann ekki boðskap sinn. Það gæti hugsanlega verið vegna þess að hann gat hvorki miðað við samtíma sinn né framtíðina. Skynsemi mín segir mér að það hafi verið ástæða fyrir því ef Jesú var talsmaður og sonur alviturs Guðs. Ef til vill var hún sú að hann vildi ekki að menn tryðu bókstafnum heldur tryðu á kærleiksboðskapinn sem er eilífur.
Ef Guð er til og hann skapaði manninn, þá skapaði hann líka skynsemi okkar. Gerði hann það til þess að við afneituðum henni í forheimsku?
Það er líka hugsanlegt að við séum agnarsmár partur af örlítilli drulluklessu í óendanlegum heimi og óendanlegum tíma sem höfum af tilviljun þróast í knippi efnaferla sem getur spurt sig spurninga um tilveru sína.
26.10.2007 | 14:25
Kaupþing geri upp í evrum
Þegar fyrirtæki okkar eru orðin alþjóðleg eins og stóru bankarnir þá eigum við um það að velja að gera þeim það auðvelt að hafa aðalstöðvar á Ísandi eða missa þau ella.
Krónan hefur ef til vill minna og minna gildi. Það þýðir það ekki að við verðum að kasta henni. Við gátum haldið henni þegar efnahagskerfið var mun minna. Þau fyrirtæki sem eru í svo mikilli útrás að það sé hagkvæmt fyrir þau að gera upp í öðrum myntum eru viðbót miðað við efnahagslífið fyrir 10 árum síðan.
Það getur komið að því að evran taki yfir smátt og smátt. Eigum við ekki bara að sjá til hver þróunin verður. Það liggur ekkert á að eyða þeim 200 milljörðum sem það kostar að taka hana upp.
Hugsanlega breytist einhvern tíma stefna Evrópusambandsins í fiskveiðimálum eða fiskveiðar verða ekki jafn mikilvægar fyrir okkur og nú er þá getur verið að við látum af því að vera sjálfstæð þjóð og göngum í Evrópusambandið. Það virðist ekkert liggja á. Við höfum það ágætt.
Fjármálaráðherra sáttur við ákvörðun Kaupþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2007 | 01:49
Starfskraftar allra nýttir
Hvað er að vera fatlaður? Er það ekki að hafa einhverjar takmarkanir? Jú að sjálfsögðu og við erum þá öll fötluð. Hver hefur annars ekki sínar takmarkanir? Menn fá bætur ef þeir eru 75% öryrkjar. Blindur maður er 75% öryrki og þeir halda því sjálfir fram að ekkert sé blindum ómögulegt annað en aka bíl. Jafnvel er það ekki rétt heldur því þegar upp á jökul er komið þá eiga blindir ekkert erfiðara með að aka bíl en sjáandi. Það vita allir að sá sem er 75% öryrki getur miklu meira en 25% af því sem heilbrigður maður getur. Þetta eru bara tölur. Ég hef slegið því fram að það sé vinnumarkaðurinn sem er fatlaður en ekki einstaklingarnir. Allir einstaklingar sem eru með ráði og rænu hafa eitthvað að gefa sem er einhvers virði fyrir aðra. Markaðurinn hefur ákveðna þörf fyrir starfsfólk og velur það sem stjórnendur halda að skapi mest á því sviði sem fyrirtækið starfar. Ef miðað er við slíka skilgreiningu þá hefur fötluðum fækkað þegar atvinnuástandið er svona gott eins og það er hér á landi. Að sjálfsögðu má finna að þessari skilgreiningu en hún er ekkert verri en það að telja mann öryrkja í einverri prósentölu.
Við skulum taka sem dæmi ofurgáfaðan mann sem ekki getur hreyft neitt nema andlitsvoðvana. Einn slíkur er nú mesti stjörnufræðingur nútímans. Er hann 75% fatlaður. Hann getur miklu meira á einu sviði en aðrir menn en hefur takmarkanir á öðru. Hversu mikils má meta slíka snilli sem hluta af getu manna. Er þeir sem ekki hafa hana öryrkjar?
Við tókum upp stefnu fyrir nokkrum um rétt foreldra fatlaðra barna að senda þau í almenna skóla í stað sérskóla áður. Það gleymdist að vísu að auka þurfti stuðning við kennara svo þeir gætu ráðið við þetta hlutverk en það er vonandi að breytast. Þetta er kallað inclusion á erlendu máli og á skólinn þá að miða kennslu sína við þarfir einstaklinga en ekki miða við ákveðið meðaltal sem mjög stór hópur nemanda með sérstaka takmarkanir eða sérstaka hæfileika fellur utan við. Þetta er byrjunin. Vonandi heldur þetta áfram í gegnum þjóðfélagið og fyrirtækin finna not fyrir hæfileika fleiri einstaklinga. Eins og ég hef sagt, þá hefur eftirspurn eftir vinnuafli opnað augu atvinnurekenda fyrir þessum möguleikum. Bætur hins opinbera mætti aðlaga að þessu og þeir sem ekki standast lágmarkskröfur markaðarins fái stuðning. Þá má höfða til þjóðfélagslegrar skyldu fyrirtækja en slíkt er byrjað að gera í auknu mæli víða erlendis.
Sumir af þeim sem hafa sértæka námsörðuleika svo sem lesblindu afla sér ef til vill ekki langskóla menntunar. Þeir eru oftast með sérstakar gáfur. Mestu snillingar veraldarsögunnar hafa fallið undir fötlunarhugstakið, verið geðveikir, líkamlega fatlaðir eða haldnir sértækum námsörðugleikum. Þeir hafa lent í þeim aðstæðum að geta nýtt hæfileika sína. Það er hins vegar enn fleiri sem bíða. Við þurfum að finna starfskröftum þeirra farveg sem nýtir þá sem best.