Það á eftir að hækka enn.

 

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Í öllu þessu mali um orkukostnað, svartsýnisrausi um að orkan sé að klárast gleymist það að allt leitar jafnvægis. Við höfum aldeilis nóg af orku. Við höfum búið við þau ósköp að geta dælt upp úr jörðinni með tiltölulega litlum tilkostnaði miklu af ódýru eldsneyti. Nú þegar verðið er að verða eðlilegra þá hrökkva allir við.

 Hækkun olíuverðs hefur verið fyrirsjáanleg um óratíma. Þegar verðið hækkar eykst framleiðslan - Leitað verður nýrra staða og lindir sem áður töldust óhagkvæmar vegna smæðar eða erfiðs aðgengis verða nýttar. Þannig er það.

Við höfum óhemju magn af olíusandi í Kanada sem ekki hefur verið talið hagkvæmt að nýta - Tæknin batnar og verðið hækkar og dæmið mun snúast við að lokum.

Það sem ánægjulegast er að menn leita að nýjum orkugjöfum og munu nýta betur þá sem fyrir eru. Sparneyttari flutningstæki, bílar, skip og flugvélar eru að líta dagsins ljós. Nú fyrir nokkru birtist rannsókn á möguleikum okkar Íslendinga. Þar kom fram að við getum látið eldsneyti unið úr alls kyns úrgangi koma í stað helmings af orkuþörf okkar. Hugsið ykkur ef slík tala yrði útfærð fyrir allan heiminn.

Það kreppir að og verður  meðan við náum að skipta um gír. Það er bjart handan við hornið


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bitruvirkjun horfin

Vinur minn er jarðeðlisfræðingur og hefur umsjón með rannsóknum sem virkjanir á hitasvæðum byggjast á. Hann er talsmaður slíkra virkjana og hef ég rætt þetta við hann. Mér hefur fundist að háhitasvæði sem nefnd hafa verið til sögunnar séu öll svo falleg að andstæðingar virkjana hafi yfirhöndina.

 Ég ræddi um staði eins og þá sem frægastir eru á hálendinu. Hann hefur haldið því fram að með því að sveigja borunina megi takmarka mjög það svæði sem skemmist og því skaði slíkar virkjanir minna umhverfið en vatnsafls virkjanir.

 

 Ég hef ekki vitað til þess að mikill straumur ferðamanna hafi lagt leið sína að því svæði sem Bitruvirkjun er á.

Ég hef verið talsmaður þess að við göngum í gegnum verndunarumræðuna í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum að meta til peninga hvað kostar verndunin og hvað kostar það að vernda ekki. Síðan þurfum við að bæta inn tilfinningalegu mati og reikna síðan heildar summuna þannig að við ákveðum hverju á að fórna og hverju ekki.

 Ef þetta verður ekki gert verða stöðugar deilur.


mbl.is Bitruvirkjun út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnir eiturlyfja

Eiturlyfjaplágan drepur ekki aðeins unga einstaklinga í blóma lífsins eins og nýlegar minningargreinar um unga stúlku fædda 1982 sanna. Sprautufíklar þurfa hundruð þúsunda króna á mánuði sem þeir afla með vændi, innbrotum og öðrum álíka aðferðum. Það eru sprautufíklarnir sem gera það að verkum að ég þarf að stimpla inn kóda í öryggiskerfi í hvert skipti sem ég bregð mér frá. Ég gæti talið upp fjölda kostnaðarliða vegna innbrotavarna sem ég verð að hafa vegna ógnarinnar af sprautufíklunum. Þó þessi kostnaður sé hjóm eitt miðað við þau mannslíf sem fíknin tekur er raunhæft að tala um hana í þessu samhengi. Það er vel hugsanlegt að minnka mætti kostnað minn í þessar greiðslur ef ríkið tæki aðeins meira af mér og greiddi fyrir þær aðgerðir sem gætu stemmt stigu við þessari vá í byrjun. Þeir sem lenda í eiturlyfjum hafa fæðst velkomnir inn í þennan heim og oft notið atlætis í uppvextinum. Eitthvað verður til þess að þau leiðast af veginum. Í mörgum tilvikum er það vegna undirliggjandi orsaka svo sem ofvirkni, eða sálrænna afbrigða eða sjúkdóma. Ég vildi miklu fremur eyða fé mínu til að stemma stigu við vandanum en til að verjast honum þegar ógnin er dunin yfir. Það er ekki eins og hún hafi fæðst í gær. Aukning í neyslu hefur hafist á hippatímanum og er alltaf að aukast. Við höfum náð árangri í löggæslu en sá endi er og verður alltaf eins og ísjaki. Það sem sést er aðeins brot af því sem er í raun og veru. Þó ég vilji efla slíkar varnir þá er eini raunhæfi kosturinn að berjast þar sem vandinn byrjar. Vinna með börnunum okkar áður en skaðinn er skeður.  Við þurfum fjölbreyttar aðferðir, breiðfylkingu en ekki marklausar yfirlýsingar sem ekkert hefur verið gert með eins og eiturlyfjalaust Ísland árið 2000 sem nú er löngu gleymdur frasi. Við viljum aðgerðir.

Hvað er til ráða.

 

Þegar við heyrum um svona ógnar atburði fyllumst við heift og viljum helst taka slík ómenni af lífi án dóms og laga.

Við höfum haft refsistefnu sem byggir á slíkum sjónarmiðum og lagt hana af. Við höfum hana í löndum sem okkur hugnast ekki sérstaklega. Þegar Evrópufólk lendir í dómstólum landa þar sem hengingar og aflimanir eru hluti kerfisins fyllumst við sömu heift en þá fyrir hönd þeirra sem brotið hafa af sér.

Ég veit ekki betur en að þeir sem brjóta af sér kynferðislega séu líklegri en aðrir að brjóta af sér að nýju jafnvel þó þeir fari í  „meðferð“ við sinni sjúklegu siðblindu.

Ég hef því velt því fyrir mér hvort öryggisgæsla sé ekki eina ráðið við því þegar menn brjóta af sér ítrekað kynferðislega eða beitt  öðrum aðferðum til að útiloka algjörlega að þeir rústi lífi fleiri einstaklinga. Þá er komið út fyrir sjónarmið refsiréttarins og inn á varnaheimildir þjóðfélagsins gegn vá.

Við skulum vona að aldrei komi til þess að við stöndum frami fyrir jafn ógeðslegum atburðum og Austurríkismenn. Ef svo yrði væri gott að hafa löggjöf til að taka á málinu þannig að menn gætu unað við það.

 


mbl.is Þyngri refsingar í Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggið á Íslandi

Sá samanburður sem er í fréttinni á milli norsku lögreglunnar og þeirrar íslensku er athyglisverður. Glæpum fjölgar og fíkniefnaneysla eykst hér á landi og þó einhvers staðar sé það verra er mikilvægt að sofna ekki á verðinum.

Við þurfum að styðja þá menn í lögreglunni sem virðast vinna góð verk. Nefni ég þar lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli. Einnig held ég að Stefán Eiríksson sé efnilegur fái hann nægt fé til verka.

 


mbl.is Það sem gerðist var óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náum í losunarkvóta innanlands með sparnaði

 

Gísli Marteinn hefur sett upp grænan reit þar sem rafbílaeigendur eiga að geta hlaðið á bílana sína. Ég gekk fram hjá þessu undri nú um daginn og tveimur bensínhákum var plantað á stæðin. Það var jafnvel stöðumælir við annað stæðið, greinilegt merki um að þar megi leggja.

 

Svona er kák okkar í þykjustunni umhverfismálum. Menn hampa því á stórhátíðum að við séum svo vistvænir Íslendingar en erum í raun eftirbátar flestra Evrópuríkja í þeim efnum ef undan er skilið það sem sparar okkur pening þe. að nýta innlenda orku.

 

Hvernig vil ég að staðið sé að málum.

 

1.      Að Reykjavíkurborg nýti ókeypis öskuhaugagas til fullnustu á ökutæki bæði eigin og annarra og kosti til við dreifingu þess þannig að það verði raunhæfur kostur.

2.      Að skattlagningu vistvænna ökutækja verði þannig að það borgi sig að nota þau.

3.      Að dísill verði alltaf ódýrari en bensín.

4.      Að tollar verði alltaf háir á eyðslufreka bíla, jafnvel þó einhverjir þeirra séu notaðir í atvinnuskyni.

5.      Lækkaðir tollar á einstaklega umhverfisvænum bifreiðum eins og hefur verið gert með tvinnbíla.

 

Þetta er nú svo sem augljóst. Ég vil koma með enn róttækari tillögur.

 Tillaga 1 

Gerður verði samningur við fyrirtæki sem hafa marga bíla í förum innan höfuðborgarinnar um hleðslustæði um alla borgina. Þau yrðu þannig útbúin að orkan sem fer á hvern bíl sé mæld og síðan sendur reikningur fyrir hana. Stæðunum yrði í upphafi komið fyrir þar sem þessi fyrirtæki hafa þörf fyrir þau.

 

Dæmi um slík fyrirtæki væri Pósturinn, Reykjavíkurborg, Dominoz pizzur osfr. Síðan yrði kerfið byggt upp fyrir alla sem vilja nýta sér hana.  Þegar bílum fjölgar yrði komið fyrir slíkum stæðum utan höfuðborgarinnar. Akranesi, Borgarnesi, Selfossi, Reykjanesbæ os.fr. og jafnframt á þéttbýlistöðum annars staðar á landinu.

 Tillaga 2.  

Lagt verði fé í rannsóknir sem tengjast minni notkun á olíuvörum og kolum.

  

Ég held að það sé hægt að finna margar aðrar leiðir.

 

Mengunarsparnaðinn getum við nýtt þess að efla atvinnuvegi hér á landi og standa samt við alþjóðasamninga í þessum efnum.

    

Sá sterki hefur réttinn.

Það er ekki tekið eins á þeim sem mótmæla háu bíóverði og þeim sem mótmæla olíuverði. Hegðun vörubílstjóranna er ekki kölluð skrílslæti af því þeir eiga stóra og flotta trukka. Sama hegðun var kölluð skrílslæti þegar unglingar höfðu hana í frami.

Hafa unglingarnir ekki málstað?  Þeir mótmæltu háu bíóverði. Ég skildi mótmæli þeirra þannig að þau væru andsvar við aðgerðum vörubílstjóra, einskonar mótmæli við mótmælunum og notað til þess grín. Grín er mjög áhrifaríku tjáning. Hún þvingar menn sem hafa myndað sér skoðanir á tilfinningu að hugsa og komast að rökréttri niðurstöðu .

Ég skildi aðgerðir þeirra sem yfirlýsingu um það að megi eigendur ofurtrukka beita ofbeldi til þess að fá sínu fram þá megi aðrir gera það líka hver sem málstaðurinn sé. Ef við komumst að annarri niðurstöðu þá viljum við láta ríkið stjórna skoðunum okkar. Láta lögregluna þ.e. berja niður sumar skoðanir en ekki aðrar.
 
Þeir sem vildu beita ofbeldi til að lækka verð á bíómiðum voru í nákvæmlega sama rétti og vörubílstjórarnir. Lögreglan sýndi þeim enga þolinmæði. Þeir vor strax reknir af götunni með harðri hendi.

Skilaboðin eru þessi. Ef þú ert stór og sterkur og átt stóran trukk hefur þú meiri rétt til að beita ofbeldi en hinir sem ekki eru stórir, sterkir eða eiga eignir. Það er ljóst að unglingarnir hefðu flutt sig þegar í stað ef hætta hefði stafað af háttseminni. Þeir voru því ekki að fremja hegningarlagabrot eins og vörubílstjórarnir.

Þingmenn - sem setja lögin mæla með lögbrotum. Sigurður Lindal skrifaði um það ágæta grein í Fréttablaðið. Þessir menn hafa lítillækkað löggjafarsamkomuna og sjálfa sig


Mótmælendur geðsjúkir.

Það mætti halda af fyrirsögninni að ég ætlaði enn eina ferðina að skrifa um Sturlu sem hefur haldið ásamt félögum sínum borginni í gíslingu síðustu vikur og missir hugsanlega bílinn sinn og ef til vill meira fyrir.

Nei ég ætla að snúa mér að öðru. Það hafa tvær hetjur komið fram og mótmælt - en hafa enga ofurtrukka til að knýja fram sinn málstað. Önnur hetjan er Árni Tryggvason leikari og hinn er Hrafn Jökulsson sem báðir tala um aðbúnað á gististað sem þeir hafa þurft að dvelja á þ.e. geðdeild LHS.

Það eru ótrúlega margir sem hafa átt eða eiga í geðsjúkdómum. Margir þeirra hafa þurft að dvelja á geðdeild. Þeir segja aldrei frá - fordómar þeirra og annarra gagnvart slíkum sjúkdómum eru svo miklir. Þessi mótmælendur eru hetjur. Þeir koma fram og sýna að vel metnir einstaklingar geta einnig veikst jafnvel á geði. Þeir segja okkur að geðsjúkir hafa ekki bara sinn tilverurétt heldur eru mætir einstaklingar sem margir hverjir hafa skilað merku ævistarfi öðrum til gagns og ánægju. Þessir menn sem koma fram og segja frá sínu eru með því að stuðla að minni fordómum.

Geðdeild á ekki að vera olnbogabarn.


Af hverju mótmæla

Ég fór í gegnum eitt "bjargaheimispjall" við minn fasta viðmælanda í þeim efnum. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að atvinnurekendurnir (vörubílstjórar) sem eru í stríði við stjórnvöld og borgara þessa lands komi ekki fram með ástæðu reyði sinnar. Ég held að hún sé sú sama og og sögð er fyrir því að hætta sé á styrjöld við sveltandi þjóðir vegna hás matarverðs. Hætt er við að þessir stoltu eigendur sinna atavinnutækja kóngar í sínum bílum hafi miðað áætlanir sínar við það að alltaf yrði góðæri á Íslandi. Þeir hafa fjárfest í tækjum sem þeir skulda algjörlega. Vinnan hefur dregist saman og samkeppnin um þau fáu störf sem eru í boði er hörð. Þeir klóra augun hver úr öðrum með lágum tilboðum. Þeir eiga ekki lengur fyrir salti í grautinn - tekjurnar standa ekki undir afborgunum hvað þá heldur launum fyrir þá.  Hátt olíuverð er aðeins brot af kostnaði við rekstur slíkra tækja. Afborganir tikka hvort sem bíllinn er hreyfður eða ekki. Vextir hækka - e.t.v. erlend lán sem tekin voru þegar enginn átti að taka slík lán þe. þegar dollarinn var næstum gefins.

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og allir sérfræðingar spáðu niðursveiflu. Spurningin var hvort lendingin yrði hörð eða mjúk. Nú eigum við  - sem ekki eigum nein atvinnutæki - að borga vitleysinu í þeim þ.e. að fjárfesta í nýjum lúxustækjum í stað þess að láta gömlu bílana endast aðeins lengur. Við eigum líka að greiða niður akstur lúxusjeppanna sem eyða a.m.k. þrisvar meira en Yarisarnir sem við hjónin ökum.

Ég tek það fram að allt sem hér er sagt eru eingöngu kenningar. Ég hef enga vitneskju um eftirspurn eftir tröllatrukkum aðra en þá að mér finnst húsgrunnum hafa fækkað mjög. Það verður gaman að heyra hvort einhver sem hefur vit á þessu getur leiðrétt hugsanlega villur.

 Og hana nú.

 


Olían búin

Ég hlustaði á það í sjónvarpinu að sérfræðingar spá því að olía fari þverrandi í heiminum. Þessu hefur svo sem verið spáð áður en ekki ræst og því óvíst hvort nú sé kominn tíminn sem kemur fyrr eða síðar.

Við vitum að það kemur að því að olía hækkar enn meira en nú er. Þá koma ofbeldisfull mótmæli frá fleirum en vörubílstjórum. Stjórnvöldum verðu kennt um eins og venjulega en það vorum við sem lifðum orkulega um efni fram eins og við gerum í peningamálum.

Við Íslendingar getum undirbúið þetta með því að beita orkuskatti. Leggja okkur fram við að nýta innlenda orku og styðja vísindarannsóknir í þeim efnum.

Það sem þarf að finna upp er meðal annars geymsla fyrir vetni, endurbæta vetnisrafala eða finna rafgeyma sem er fljótlegt að hlaða og gefa mikla orku fljótt.

Athuga hvernig við getum breytt innlendri orku í færanlega orku fyrir  skip, báta og jafnvel flugvélar.

Við gætum þá breytt ógnvænlegri framtíð í bjarta framtíð fyrir okkur og lagt okkar að mörkum til þess að bjarga heiminum í leiðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband