Rusl

 

Þegar ég var barn varð ég hugsi yfir því hvaða pláss kirkjugarðar tækju - Mér fannst þetta stefna í óefni. Pabbi leiðrétti mig og sagði að kirkjugarðar væru ekki eilífir. Eftir ákveðinn tíma fengju þeir hvíld - hætt væri að jarða í þá og síðan eftir enn lengri tíma fengju þeir hlutverk almenningsgarðs. Krossar væru teknir, jörð jöfnuð og ef til vill gerðir minnisvarðar um þá sem merkastir voru og þar hvíla. Ég gat sætt mig við þetta.

Í gær var þáttur í sjónvarpinu um fótspor mannsins. Þar var sýnt hvað meðalmaður í Bretlandi skilur eftir sig og farið yfir það hvað mörg ár náttúran er að brjóta efnin niður.  Fyrst skiljum við eftir óhemju magn af bleyjum og síðan koma allar einnota umbúðirnar úr tregeyðanlegu plasti. Eftir þessu að dæma er plássið í kirkjugarði hjóm eitt. Hvert eitt og einasta okkar skiljum eftir okkur vörubílahlössin af úrgangi sem verður óbreyttur í urðunarstöðum eftir mörg hundruð ár. Við erum að velta því fyrir okkur hvað komandi kynslóðir segja við því að við reisum einhver orkuver. Allar virkjanir fölna í samanburði við úrganginn okkar.

Ef við tökum á sorpvandamálum af myndarskap - leitum fleiri leiða til að auka endurnýtingu og draga úr umbúðanotkun, setum pening í það að breyta hugsun fólks og skapa aðstöðu til að auðvelda fólki umhverfisvernd þá vinnu við ekki eingöngu að hag komandi kynslóða. Við styrkjum ímynd landsins sem hreins og ósnortins lands.


Aðgerðarlaus ríkisstjórn

Í erfiðu árferði heimta allir að eitthvað sé gert. Fæstir vita hvað á að gera en söngurinn er orðinn að síbylju um aðgerðar og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Þetta væri svo sem gott og blessað ef menn vissu hvað ætti að gera.  Safna gjaldeyrisforða segja sumir. Þeir sem tala hæst um það vita líklega ekki af hverju á að safna upp gjaldeyrisforða þegar ástandið er þannig að aldrei hefur verið óhagstæðara að gera slíkt. Fara í framkvæmdir segja aðrir og þriðju vilja ráðast í álver.  

Ég átta mig ekki alveg á hvaða hagfræðileg áhrif gjaldeyrisforði hefur við þau skilyrði sem nú eru í þjóðfélaginu, enda þótt ég hafi tekið smá kúrs í háskóla í viðskipta og rekstrarfræðum er ég ekki hagfræðingur. Ég verð þá að notast við fréttaviðtöl við mér vitrari menn sem hafa aðallega talað um að gjaldeyrisforðann eigi að nota til að tryggja fjárstreymi hjá bönkunum þ.e. að þeir lendi ekki í því að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna þess að þeir hafi ekki handbært fé og fá slíkt ekki lánað þó þeir eigi eignir langt umfram skuldir.  

Ýmis áhrif af þessari aðgerð eru örugglega eins fyrirsjáanleg og veðrið. Spámenn geta ályktað um það út frá reynslu þekkingu og mælingum en ekki sagt með vissu hvernig það verður. Það er augljóst að það að hjálpa bönkum kemur miklu fleirum til góða en þeim sem rakað hafa saman fé á þeim undanfarinn áratug. Mér finnst þó á þeim sem ég tala við að það sé ekki hafið yfir gagnrýni að nota peninga lítilmagnans til að bjarga þeim ríku.

Kostnaður af gengisáhættu og vöxtum af þeim gjaldeyrisforða sem hefði áhrif er gífurlegur. 

Bankarnir segjast ekki vera á heljarþröminni nú og því eðlilegt að ríkisstjórnin dragi það eins og hægt er að taka slík lán.  Það er líka allt í lagi að láta bankana sprikla svolítið. Mér skilst á sérfræðingum að jafnvel fyrirtæki eins og FL group hafi gert rétta hluti síðan gengi þess hrundi. Ég reikna með að bankarnir séu að gera það líka, eitthvað sem ekki væri víst að þeir gerðu ef loforð lægi fyrir um björgun frá ríkisstjórninni. 

 Ég hef heyrt samsæriskenningar í þessu sambandi. Eflaust eru einhverjir spilltir aðrir en framsóknarmenn. Ég gef þó lítið út á það.

Þá eru það framkvæmdir, álver og svoleiðis. Enn er lítið atvinnuleysi. Ýmsar framkvæmdir eru í undirbúningi. Skoðanir manna á slíkum aðgerðum fara þverri á flakslínur. Líkur eru á því að atvinnuleysi snar aukist með haustinu og á næsta ári. Allar líkur eru á því að fjöldi fyrirtækja fari á hausinn. Fyrst fara byggingarfyrirtækin, síðan birgjar þeirra og þá önnur fyrirtæki háð viðskiptum við þau eða starfsmenn þeirra. Þá getur verið hagkvæmt fyrir ríkisstjórnina að fara í mótvægisaðgerðir. Þá gæti líka orðið sátt um að fórna örlitlu til að bjarga fjölskyldum sem eru að missa allt sitt og flytjast fyrir seinustu aura sína úr landi. Góður spilar bíður eftir rétta augnablikinu. Við skulum vona að nú verði spilað vel.    

Björn setur stefnuna - annars vinnur hann ekki vinnuna sína.

 

Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Maður sem má með réttu óttast um lífs sitt vegna stjórnmála var sendur til annars lands, þar sem óvist er um afgreiðslu.

Björn setur stefnuna - hann ber ábyrgðina. Ráðherrar eru búnir að telja íslensku þjóðini trú um að þeir beri enga ábyrgð á gerðum undirmanna sinna.

Faðir Björns fylgdist með öllu - jafnvel þótti sumu nóg um á stundum. - Hann vissi betur. Hann var stjórnlagaprófessor.  


mbl.is Ákvarðanir Útlendingastofnunar teknar án samráðs við ráðuneytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og ekkert öl.

Krónan fellur og menn missa vinnuna. Villi dósent og baráttumaður fyrir litla fjárfesta sagði að menn hefðu óskað minni þenslu og þeim hefði orðið að ósk sinni.

 Það væri svo sem allt í lagi ef þennslan væri barasta stöðnuð og hún héldi ekki áfram að minnka. Það er hins vegar eins og að óska þess að aðeins fyrsti dómfínókubburinn félli. 

 Það gengur vel þegar við græðum. Aðeins einn milljarður af auka þorskakvóta getur lífgað upp á allt hér á skerinu. Það hlýtur eitthvað að dofna þegar tugir ef ekki hundruð milljarða tapast. 

 Fæst okkar gátu um það ráðið þegar allt varð vitlaust og menn ofmetnuðust í fjárfestingaræsingnum. Við þurfum hins vegar að borga brúsann. Eina sökin sem við eigum er að hafa kosið þá sem ekkert gerðu til að undirbúa okkur undir niðursveifluna. 

Seðlabankastjóri segir að það sé gott að vera vitur eftir á. Menn gátu ekki séð heimskreppuna fyrir. Það er alveg rétt. Menn geta ekki séð jarðskjálfta fyrir en samt eyðum við miklu fé í að gera hús okkar þannig úr garði að þau standist skjálfta. Samdráttur í efnahagslífi er jafn öruggur og jarðskjálftar. Við vitum ekki hvenær þeir koma en þeir koma fyrr en síðar. 

 Að mestu er vandi okkar í efnahagsmálum heimatilbúinn. Við vissum um að efnahagslífið myndi þenjast út á meðan virkjunarframkvæmdu stóð og dragast saman á eftir. Menn ræddu allan tíman um mjúka lendingu. Seðlabankanum bar að fylgjast með þegar mikið lánsfé barst inn í landið og setti gengið miklu neðar en raunvirði krónunnar var miðað við efnahagsgetu þjóðarbúsins. Seðlabankinn mátti vita að hér væru á ferð skammtímalán sem kæmu til greiðslu að sínum tíma liðnum og þá myndi fé streyma út úr landinu og reyna á krónuna. 

Ef til vill máttu þeir ætla að lengri tími liði og skellurinn yrði aðeins mýkri. Það var samt sem áður full ástæða til aðgerða, draga úr útsölu á gjaldeyri með því að kaupa hann á lágu verði og safna forða.

 

Það er alveg sama hvað Davíð segir. Hann hefur stjórnað þjóðinni þegar misskipting auðs jókst og kenningarsmiði  hans Hannesi Hólmsteini fannst það allt í lagi. Hlutfallsleg fátækt varð mikil. Nú eiga þeir sem urðu eftir - þeir verst settu að borga. Bætur til öryrkja sem varla gátu framfleytt sér eru frystar þegar allt annað hækkar. Nú hefur Davíð klúðrað starfi sínu í Seðlabankanum. Við erum búin að sjá að bak við hans oft hnyttnu tilsvör standa engar viturlegar aðgerðir. Við höfum haft skemmtilegan orðhák við stjórnvölin og eftir stendur sviðin jörð og gleymdir brandarar. 

 

Fyrir þetta blæðir Sjálfstæðisflokkurinn. 

 


Tölvupóstur til útvarpsstjóra.

Til útvarpsstjóra.
Viðbjóðsleg fyrirlitning á notendum.
Ríkisútvarpið hefur raskað allri dagskrá til að þjóna ákveðnum hópi notenda - nokkuð sem einkastöð getur gert en alls ekki ríkisútvarp með skylduáskrift. Ég er að borga fyrir efni sem ég kæri mig ekki um.
Sá hluti þjóðarinnar sem kærir sig ekki um þetta efni er reyður. Fyrir marga eru sendingar ykkar föst afþreying og eina sjónvarpið. Margir þeirra sem ekki kæra sig um þetta brjálæði er gamalt fólk sem hefur ekkert annað. Það er því fólki sem ríkisrekið sjónvarp á að þjóna.
Ég er svo lánsamur að geta horft á aðrar stöðvar. Ég reyni þó að horfa á fréttir ríkissjónvarpsins. Nú 15. júní ætlaði ég einmitt að gera það á rás eitt plús. Kl. 19.00 þegar fréttirnar áttu að byrja samkvæmt dagskrá var leikur í gangi. - Nú leiklokin hafa tafist. Ég beið dágóða stund með íþróttir sem annars fara gífurlega í taugarnar á mér. Engar fréttir og engin athugasemd - engin afsökun - engin ábending um að fréttirnar féllu niður. 
Ég endurtek - Viðbjóðsleg fyrirlitning á notendum. Ef ég hefði þann kost myndi ég segja áskrift á þessari stöð upp og aldrei skipta við hana aftur. Þið getið gert það sem ykkur sýnst. Ef ég ætla að hafa sjónrvarp þá borga ég í ykkar rekstur. Styrki útsendingar íþróttaefnis sem ég kæri mig ekki um.
Að lokum hringdi ég í Ruv til að fá upplýsingar um það sem átti að standa á skjánum. Kurteis kona hlutsaði á reyði mína og benti mér á að ég gæti séð fréttirnar á netinu. Ef notendur eiga að sjá efnið á netinu er hægt að spara mikið í útsendingarkostnaði. 

Bókstafstúlkun.

   

Samkvæmt barnalögum er réttur barna að umgangast báða foreldra sinna algjör grunnregla. Fyrir nokkru síðan fékk forfallinn eiturlyfjasjúklingur börn sín í smá tíma með takmörkuðu eftirliti. Hún drap sig annað hvort vísvitandi eða af mistökum um þá helgi. Ég nefni þetta sem dæmi um hve ríkur réttur barna er til að umgangast foreldra sína jafnvel þó þeir séu varla góð fyrirmynd eða uppalendur.

Ég ætla að tala um annað mál.

 

Nú hefur forsjáraðili, móðir íslenskrar stúlku sem á útlendan föður komið fram í blöðunum og sagt frá meðferð yfirvalda á máli barns hennar. Þau beinlínis hindra föðurinn í að koma og heimsækja barn sitt.

 

Stjórnvöld beita reglu sem kveður á um hvaða ættingjar mega fá hér dvalarleyfi vegna skyldleikatengsla. Það eru makar og sambýlisfólk, börn og gamalmenni. Forsjárlausir foreldrar eru ekki teknir með – Bingo þá á að hindra þá í að koma með öllum ráðum og dáð. Það segir reglugerðin og þannig á það að vera.

 

Þetta er nautatað – eða bullshit. Eftirfarandi ákvæði er í lögum um útlendinga.

 

*      Veita má útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.

 

Þegar túlka á mannúðarsjónarmið er ekki miðað við réttlætistilfinningu einstaka embættismanns sem hefur alið með sér hatur á útlendingum.  Ef mannúðarsjónarmið svo sem réttur barns til að umgangast foreldra sína kemur fram sem meginregla í lagabálki sem fjallar um börn – og þessum rétti verði ekki framfylgt nema veita þá undanþágu sem hér um ræðir hlýtur það að vera eðlileg túlkun laganna að telja það atriði falli undir undantekninguna. Þar að auki er rætt um sérstök tengsl við landið. Ég get ekki séð nein sterkari tengsl en að eiga hér afkvæmi.

  

Það er dæmigert fyrir heimska menn að einblína á einn texta sem hentar fordómum þeirra og líta fram hjá samræmdri túlkun textans í heild – í þessu tilfelli laga. Þetta á við heimska embættismenn jafnt sem ofsatrúarmenn.

 

Þriggja mánaða afgreiðslufrestur sem útlendingastofnun telur eðlilega afgreiðslu, er hneyksli í þessu tilfelli þ.e. ef stofnunin hefur ekki rökstuddan grun um að viðkomandi hafi framið slíkan glæp að hann geti verið hættulegur umhverfi sínu. Ef svo væri tel ég hæpið að móðirin gerði þetta að blaðamáli.


Þjóðfélag ríka fólksins

  Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur tíðum haldið því fram að almenningur sé betur settur ef nokkrir milljarðamæringar búa hér á þeirri forsendu að við höfum af þeim tekjur. Honum hefur orðið að ósk sinni þó margir Íslenskir auðmenn kjósi að búa í Lundúnum eða í annarri stórborg.  

Hagfræðingar sem hann byggir kenningar sínar á miða við að hámarka gróðann. Ég ætla ekki að draga úr því að gróði er undirstaða okkar lífs. Gróði sem sprottinn er af vinnu og hyggjuviti en ekki óheiðarleika er af hinu góða.   

Það er nauðsynlegt til að virkja menn til góðra verka að hafa umhverfi sem styður frumkvæði manna og verðlaunar þá sem vel standa sig.  Einstaklingsfrelsi og einfalt regluverk fyrirtækja er e.t.v. undirstaðan. Ég er því að nokkru leyti sammála Hannesi hvað það varðar.    

Ég er ósammála honum í því að það sé okkur hagkvæmt að hafa hér mikla misskiptingu auðsins. Þar sem ég vil  hafa umhverfi þar sem menn njóta ávaxta erfiðis síns vil ég misskiptingu. Ég tel hins vegar mikilvægt að halda henni innan ákveðinna marka.   Rök mín eru þessi:1. Þegar misskipting er orðin það mikil að annars vegar eru eignarmenn sem eiga nánast allt og hins vegar sára fátækt fólk sem á varla ofan í sig og á þá verður umhverfið fjandsamlegt, sérstaklega fyrir auðmennina. Það var úr slíku umhverfi sem hugmyndir Karls Marx spruttu. Þannig hefur Ísland ekki verið áratugum saman fyrr en nú seinustu árin.

2. Ríkir menn hækka verð á ýmsu. Jafnvel þó laun þeirra fátæku hækki eitthvað þá verður fleira þeim ofviða vegna hækkandi verðs.  

 3. Það er erfiðara að vera fátækur í ríku landi en fátæku jafnvel þó sá sem er fátækur í ríka landinu sé hundrað sinnum ríkari en sá fátæki í fátæka landinu. Þetta hafa athuganir sýnt.  Það sem við köllum eðlilegan hluta daglegs lífs er ekki á möguleiki fyrir fátæka einstaklinga í fátækum löndum og þeim dettur ekki í hug að keppa að því frekar en við keppum að því að komast til tunglsins. Í ríka landinu telst þetta til sjálfsagðra hluta og er því erfitt fyrir fátækasta fólkið að þurfa að neita sér um það.   

Það er sem sagt álit mitt að bæði verði auðmenn og almenningur betur settur ef auðnum er jafnað með velferðarkerfi jafnvel þó að fæli einhverja auðmenn frá að búa hérna. Ég tel að það verði betra að búa hér og vera aðeins fátækari og lifa við meiri jöfnuð en nú er orðinn í þjóðfélaginu.

Jöfnun er jafnvægisæfing milli þess að halda nægri atvinnu þ.e. laða nægjanlegan fjölda fyrirtækja hingað og þess að bilið milli ríkra og fátækra verði ekki of mikið. Ég tel að þessu jafnvægi hafi verið raskað. Við það hefur skapast mikil spenna sem er að leysast upp og almenningur borgar herkostnaðinn.    

Markmið okkar Hannesar eru að því leyti ólík að hann vill hámarka gróðann en ég vil hámarka hamingjuna.


Skjálftinn

Ég var staddur í Hafnarfirði inn í verslunarmiðstöðinni og var að sötra seinustu dropana í dísætu Sviss mokka þegar smá viðvörun kom - titringur.

Ég var rétt búinn að segja við sjálfan mig að engin hætta væri á ferðum, þetta væri ekki svo mikið þegar stóri kippurinn kom. Ég hef svo sem upplifað verri jarðskjálfta en maður verður alltaf svolítið hugsi eftir á. Þegar einn mesti skjálfti sem ég hef upplifað reið yfir einhvern tíman á sjöunda áratugnum var ég staddur inn á þröngu klósetti og veggirnir komu beinlínis á móti mér. Ég hef aldrei fyrr verið eins hræddur á postulíninu eins og þá ef frá er talið þegar rottan gægðist aðeins upp vatnslásinn þegar ég var barn.  

Jæja en tilefni þessa bloggs er að lýsa yfir ánægju minni með viðbrögð þeirra sem eiga að aðstsoða við slíkar aðstæður. Mér var hugsað til New Orleance. Viðbrögð við þeim ósköpum sem þar dundu yfir voru ekki svona snögg og skilvirk. Bandaríkin hafa her og eiga að hafa skipulag til að bregðast við ógnum. Við Íslendingar þurfum ekki að skammast okkar fyrir okkar lið. Lögregla, hjálparsveitir, Rauði krossinn. Allir lögðust á eitt og allir virtust tilbúnir til að leysa þau vandamál sem kynnu að koma upp.

Vandamálin hefðu geta verið meiri. Við getum þó þakkað fyrir vel unnin störf. Við sem erum alltaf að væla yfir vangetu stjórnvalda eigum líka að láta heyra í okkur þegar vel er gert.   

Samkeppni um umhverfisvænasta sveitarfélagið.

Ég og vinur minn sem ég hitti gjarnan í kaffihúsaspjalli erum sammála um það að vera miklir umhverfissinnar. Við erum bara meiri mannvinir en það að vilja alla vitleysuna sem svokallaðir umhverfissinnar vilja.

Í framhaldi af hneykslun okkar á forheimsku þeirra sem hafa atvinnu af því að mótmæla einhverju sem aðrir gera og aka svo um á drossíunum sínum með tilheyrandi mengun eða sporta sig á mengandi skipum um heimshöfin - þá barst talið að endurvinnslutunnum.

 Við vorum sammála um að þarna væri ein heimskan á ferð. Kostnaður við allt dæmið væri svo miklu meiri en það sem sparaðist. Ég stakk upp á því að fjölgað yrði grendargámum og áróður fyrir notkun þeirra væri aukinn.

Grenndargámar verða að vera þægilega í leiðinni og með gott aðgengi þannig að notkun þeirra kostaði nánast ekki neitt fyrir borgarana. Við þá sparaðist mikið landrými í urðun.

Já það þyrfti að vera einhver verðlaun fyrir þá sem nota mikið slíka gáma. Einhver hvati sagði vinur minn. Ekki leyst mér á það. Áfram var það framkvæmdahliðin sem óx mér í augum.

En hvernig væri að hafa samkeppni á milli sveitarfélaga og umhverfismerki til þeirra sem standa sig best. Snjöll hugmynd sagði vinur minn. Þú veður að blogga um þetta.  

Á rikisstjórnin að lækka álögur á olíu?

 Við höfum horft á mótmæli fleiri misviturra manna en íslenskra vörubílarekenda vegna orkuverðs. Eiga leiðtogar heimsins að bregðast við og lækka álögur þar sem það er hægt?

Eigum við að rannsaka áhrif þess.

Eftirspurn eftir eldsneyti er að vísu tregbreytileg. Þ.e. hærra orkuverð hefur ekki mjög mikil áhrif á orkunotkunina. Hún hefur það þegar til lengri tíma er litið af því að menn geta valið aðra kosti. Það tekur bara tíma.  Eldsneytisverð hefur einnig áhrif á framboðið þegar til lengri tíma er litið.

Ef við lækkum verðið í heiminum með niðurgreiðslu eða lækkun skatta hins opinbera hverfur almennt bæði hvatinn til að minnka neysluna og til að taka upp aðra orkugjafa. Afleiðingin verður meiri skortur og hærra verð. Tekjur sem ella færu í ríkissjóði landanna fara til olíufurstana. Er þetta það sem við viljum?

Fólk mun deyja hungurdauða meðan breyting á orkugjöfum gengur í gegn. Við getum hjálpað þeim sem þurfa á að halda. Við getum ekki breytt þeirri staðreynd að tími ódýrrar olíu er liðinn. Spurningin er hvort lendingin verði hörð eins og menn segja um efnahagslífið.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband