11.10.2008 | 00:39
Rússarnir koma
Rússar og IMF sameinist um lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2008 | 23:53
Linkur á frétt um Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
http://www.guardian.co.uk/business/2008/oct/09/globaleconomy.creditcrunch
Það kom fram í ofanrituðum link að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kemur til hjálpar með vægari skilyrðum nú en venjulega vegna heimskreppunnar.
8.10.2008 | 23:12
Mundi evran bjarga.
Mikill hluti Íslendinga trúir því að erlend mynt svo sem evra myndi bjarga ástandinu hér á landi.
Það er ekki svo einfaldlega vegna þess að vandræðin eru ekki vegna gjaldmiðils.
Bankastarfsemi gengur út á að velta peningum. Bankarnir lána fé til langs tíma. Þeir eiga ekki það fé heldur innlánseigendur. Innlánseigendur hafa ekki bundið innistæður sínar til langs tíma og geta því kallað eftir þeim með engum eða stuttum fyrirvara. Þegar þeir gera það getur bankinn ekki innkallað langtímalánið. Bankinn fær að jafnaði jafn harðan ný innlegg fyrir þau sem fara út og lendir því aldrei í vandræðum. Ef svo ólíklega vildi til að meira gengi út en kæmi inn á einhverju augnabliki þá lána bankar í heiminum hverjir öðrum peninga á sérstökum millibankavöxtum sem eru mjög hagstæð. Ef slík lán fást ekki eru seðlabankar til þrautavara.
Nú eru bankar hættir að treysta hverjir öðrum, sitja á sínu. Seðlabankar stórra landa hafa gripið inn í og þrautavaralán eru veitt, nema á Íslandi. Bankakerfið er svo stórt að það er ofvaxið Íslandi. Jafnframt eru innlánseigendur hættir að treysta íslenskum bönkum og taka milljarða út án þess að nokkur innlán komi á móti. Á sama tíma hafa gengi þeirra hlutafélaga sem þeir hafa lánað hríð fallið í verði og verða gjaldþrota mörg hver og geta því ekki greitt til baka lánin. Fyrst kemst bankinn í greiðsluþrot þ.e. hefur ekki handbært fé til að greiða út sparifé eða skammtíma skuldir. Þá hverfur traustið og fé rýkur út og spilaborgin hrynur.
Annað sem einkennir íslenskt efnahagslíf eru krosseignatengsl og kross kröfutengsl. Félög eiga hvert í öðru og eiga í innbyrðis viðskiptum - eiga viðskiptakröfur hvert á annað o.s.fr. þegar eitt félag t.d. banki verður gjaldþrota tapast eigur úr félagi án þess að skuldir lækki. Slík félög geta því ekki veðsett eignir sínar til að greiða fyrir áframhaldandi rekstri og fara þannig einnig í þrot sem aftur leiðir til enn frekari gjaldþrots.
Þegar harðnar í ári hjá íslensku efnahagslífi leiðir það til þess að eftirspurn eftir krónu verður minna og hún lækkar í verði. Það þýðir í raun að laun lækka miðað við innfluttar vörur. Það er þessi innbyggða launalækkun þegar á bjátar sem væri ekki til staðar ef við værum með annan gjaldeyri.
Íslensk fyrirtæki þurfa meiri stöðugleika í venjulegu árferði heldur en krónan býður upp á og meira öryggi með gjaldmiðilinn. Það er þess vegna sem menn hrópa á evru. Ósöðugleikinn getur bæði verið skelfilegur galli og mikill kostur.
Ég hef ekki þekkingu til að bera til þess að segja til um hvað er best. Menn ættu samt að varast að falla í þá grifju að halda að evra sé allra meina bót.
8.10.2008 | 09:37
Við lifum ótrúlega tíma.
Við erum ógnarlitil í óendnalegum heimi. Atburðarrás sem nú er verður nokkrar setningar í sögubókum framtíðar. Ef til vill verður talað um ófullkomið hagkerfi sem hafði innbyggða áhættu á kreppum svona einu sinni á öld. Nú glímum við við þennan vanda. Við hugsum ekki í öldum til þess er líf okkar of stutt.
Ég veit ekki frekar en aðrir hvað kemur út úr þessu öllu saman. Eitt er víst að þegar kreppunni linnir þá verður hratt vaxtaskeið. Þau fyrirtæki sem lifa af kreppuna blómstra og fylla það skarð sem gjaldþrota fyrirtæki tóku. Þannig verða þeir sem lifa betur settir en áður. Ef við Íslendingar náum að halda í sjálfstæði okkar og sleppum við gjaldþrot eins og allar líkur eru á verðum við fyrirtæki sem á eftir að vaxta. Eignatjón okkar er orðið mikið en ef við komumst í gegn tekur okkur ekki mörg ár að ná fyrra styrk. Þá vonandi erum við reynslunni ríkari og stígum varlegar til jarðar.
5.10.2008 | 15:54
Ótrúleg þjóð
Það ætti aldrei að vanmeta ótrúlega seiglu íslensku þjóðarinnar. Það má ef til vill segja um fleiri þjóðir en þó smæð okkar sé ókostur í þeim hildarleik sem nú ríður yfir er hún að því leiti kostur að við getum þjappað okkur saman og náð utan um mál sem væru allt of viðamikil í risaríkjunum. Hugsið ykkur ef Evrópa tæki sig saman og semdi við lífeyrissjóði, verkalýðsfélög og banka á einu bretti um aðgerðir sem skaða alla en skaða þá þó minna en ef ekkert er gert.
Ég er ekki spámaður og get ekki séð fyrir endann á þessu öllu. Eitt er víst að við komumst í gegnum þetta. Sum okkar lenda í niðurbroti. Ef okkur endist líf til þá verðum við sterkari á eftir og búum að reynslu og þroska.
Ég hef svo sem ekkert sérstakt dálæti á Geir Haarde. Hann hefur örugglega gert mistök þegar við lítum í baksýnisspegilinn. Hann hefur líka gert góða hluti og það hefði stjórnarandstaðan líka gert ef hún hefði verið við völd.
Ég hef þá trú að hann sé besti maður í að ná þeirri sátt í þjóðfélaginu sem nauðsynleg er. Eiginleikar hans sem honum er álasað fyrir að lofa aldrei meiru en hann getur staðið við, vera poll rólegur þó æsingamenn hrópi á umræðu og aðgerðir og það hvað hann er fastur fyrir um viss atriði en tekur rökum með önnur gerir hann að mjög góðum samningamanni.
Hvar sem við erum í flokki stöndum saman sem þjóð. Stöndum saman með fjölskyldum okkar og vinum. Verum góð hvert við annað og þá mun vel fara.
3.10.2008 | 20:10
Sálin og kreppan
Það eru nokkrir fastir punktar sem við getum haft að viðmiði. Við getum t.d. verið örugg um það að allt fólk deyr að lokum. Það kemur okkur samt alltaf jafn mikið á óvart þegar slíkt hendir nema ef til vill þegar fólkið er komið vel yfir hundrað árin.
Eins er með kreppurnar. Þær koma eins og flensurnar. Flestar tiltölulega vægar en svo koma skæðar flensur ef til vill einu sinni á öld eins og skæðustu kreppur.
Margir búa sig undir dauðan með daglegum samræðum við æðri máttarvöld og kaupum á happdrættismiðum Blindrafélagsins. Allt of margir láta eins og kreppur komi aldrei. Sérfræðingar sem ætti að stinga inn á Litla Hraun töldu fólki trú um að allt í lagi væri að taka myntkörfulán þegar dollarinn var um 60 kr. jafnvel þó þeir vissu að hann væri á útsölu og ætti eftir að hækka. Menn eyddu og spenntu í góðærinu eins og það væri enginn morgundagur með gluggaumslögum.
Nú þýðir ekkert að fárast yfir þessu. Það sem skiptir mestu máli núna er að þreyja þorrann og góuna þ.e. mögru mánuðina áður en vorið kemur á ný með björg í bú.
Það er sama hver stað okkar er í dag, hvort sem við erum rík eða snauð, hvort sem við höfum tapað fé eður ei jafnvel þó við stöndum frami fyrir atvinnu og eignamissi. Við verðum að halda ró okkar.
Þegar ég tala um sálarró eða æðruleysi þá meina ég ekki að horfa aðgerðarlaus á þegar við getum bætt ástandið með aðgerðum. Ég meina það að leitast eftir megni að koma sér í það sálarástand að geta tekið réttar ákvarðanir í stöðunni og hafa kraft til að framkvæma það sem bætir aðstæður okkar og líðan.
Það er mikill sannleikur í æðruleysisbæn AA samtakanna
Guð gef mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
Við getum litið á nokkrar staðreyndir.
Það er sama hversu alvarlegt ástandi verður við komum ekki til með að svelta í hel. Við erum Norðurlandaþjóð sem höfum á erfiðum tímum komið hinum Norðurlöndunum til hjálpar og þau munu hér eftir sem hingað til koma í veg fyrir að við lendum í slíkum hörmungum.
Ef við lendum í erfiðri stöðu eigum á hættu að missa eigur okkar og húsaskjól þá getum við notið hlutlausrar ráðgjafar við þær erfiðu ákvarðanir sem taka þarf.
Þó kreppur séu jafn öruggar og dauðinn þá gerist það með kreppurnar sem ekki gerist með dauðann að þær hverfa eins og dögg fyrir sólu um síðir.
Í vinnu minni með fötluðu fólki lærði ég það að þó mikið vanti á stundum þá er alltaf meira sem maður getur glaðst yfir.
Við eigum ættingja, vini og samlanda sem við getum glaðst yfir. Ræktum sambandið við hvert annað og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Við getum verið þess full viss að hjartahlýjan eykst þegar kólnar í fjármálaheimi.
2.10.2008 | 17:48
Getur Davíð keypt meira öl?
Ég fór í Glitni í morgun aðeins að huga að peningunum mínum. Ég hafði líka farið þangað í gær. Ég reyndi í bæði skiptin að slá á létta strengi og gátu nokkrir tekið undir það í dag en meitlaður alvöru, jafnvel reiðisvipur var á allra andlitum í gær.
Svona er nú íslenska þjóðin jafnvel á erfiðleikatímum vottar fyrir þeirri bjartsýni að brosa gegnum tárin.
Ein kona sat nærri mér og sagði hún mér frá móður sinni á níræðisaldri sem hefði ávaxtað 20 milljónir í hlutabréfum - já í Glitni.
Siðar um daginn hitti ég konu sem sogað hafði að sér andrúmsloftið á sínum vinnustað. Hún Sighlín fór bara niður í Seðlabanka og fékk afrit af lögunum. Hún segir að það sem hann Davíð er að gera sé alveg ólöglegt. En Magga mín skaut ég inn í Seðlabankinn er ekki að gera neitt. Nú spurði Magga. Ja það er sko ríkisstjórnin sem ætlar að afla lagaheimildar á Alþingi fyrir þessum kaupum en nýtur ráðgjafar frá Seðlabankanum. Er það löglegt? Ef að lögin standast stjórnarskrána og samþykkt endanlega frá Alþingi þá eru þau lög og þannig lögleg.
Vegna þeirrar stefnu sem skilvíslega hefur verið farið eftir seinustu þó nokkuð marga áratugina þá fá menn sem ekkert vita um málefnið æðstu stöður. Seðlabankinn á að annast efnahagsleg málefni sem ég tíunda ekki hér. Þau eru það flókin að öflugustu hagfræðingar ná ekki alltaf réttri lengingu í þeim. Íslendingar ráða menn sem bankastjóra í þeim banka sem hafa álíka mikið vit á þessum málum og meðal kaffihúsagestur. (Sem að vísu eru mjög spakir en yrðu ekki ráðnir.).
Í umræðunni núna eru alls kyns fullyrðingar sem erfitt er fyrir okkur meðalJóninn að greina. Hvað er rétt og hvað er logið.
Stjórnarmenn í Glitni halda því fram að ákveðin ógn hafi verið í sjónmáli og þeir hafi ekki haft tilbúna patent lausn á þeim vanda. Þeir hafi því viljað gera Seðlabankann meðvitaðan um þennan vanda. Viðbrögð Seðlabankans hafi verið að setja þeim afarkosti eða ella að almenningi yrði gerður ljós vandinn. Slíkt myndi þýða að allt sparifé yrði tekið út í einum grænum. Kröfur greiddust ekki jafn hratt og bankinn kæmist í þrot.
Seðlabankastjórar hafa ekki mótmælt þessu beint en sagt að Glitnismenn hafi beinlínis beðið um þrautavaralán. Með miklum hofmóð hafa ráðamenn sagt að þurfi banki á aðstoð að halda sé ekki hægt að semja.
Við getum eflaust aldrei vitað hvað var rétt í þessu efni.
Við berum okkur saman við erlend ríki. Þar er sagt að aðeins þegar tap hefur verið á rekstrinum sé beitt þjóðnýtingu en ekki hjá stöndugum banka sem á eigið fé langt yfir lágmörk.
Aðal spurningin sem ég legg fyrir bloggheim. Hvort er meiri áhætta að lána fyrirtæki peninga gegn veði eða leggja hlutafé í félagið? Ég hef alltaf haldið að þeir sem legðu fram hlutafé kæmu aftast í skuldaröðina þegar að gjaldþroti kæmi en sá sem ætti veð fengi þann forgang sem veðsamningur segði til um?
Ef svo er hvernig er hægt að halda því fram að hagsmunir ríkisins séu best tryggðir með hlutafé.
Ef hins vegar mjög mikill hagnaður verður af eignarhlutnum getur komið til álita hvort ríkisstjórnin hefur ekki beitt misbeitingu, brotið meðalhófsreglu með aðgerðinni. Jafnvel þó aðgerðin verði gerð lögmæt með lagasetningu gæti hún strítt gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár vegna þeirra atriða sem hér hafa verið nefnd.
Ég hef ekki séð gild rök gegn þeirri fullyrðingu að aðgerðin geti haft gífurleg dómínó áhrif í bankakerfinu og fjármálalífinu.
Ef vitleysan er eins mikil og ég gef hér með í skyn þá er spurning er hún vegna þess að seðlabankastjóri hefur ekki hundsvit á því sem hann er að gera eða er hann að fórna þjóðinni fyrir hefnd sína?
Við stöndum frami fyrir slíkum vanda að hofmóður á ekki við. Ef ráðamenn geta samið við eigendur stöndugs félags eins og Glitni sem hefur lent í lausafjárkrísu vegna mjög óvanalegrar stöðu heimsviðskipta um lausn á vandanum þá er hagsmunum almennings best borgið að það sé reynt.
21.9.2008 | 12:49
Lögum til þegar kreppunni linnir.
Svartsýnir ríkir en meðal hagfræðinga um þróun markaðarins. Markaðshyggjan hefur verið látin víkja fyrir opinberum afskiptum, þjóðnýtingu og þjöppun eininga í stórar samkeppnishindrandi blokkir.
Við sem eru eldri en tvævetur vitum að stundum gera þeir mistök eins og allir aðrir og maður vonar barasta að þessar aðgerðir sem nú eru gerðar séu ekki eins slík.
Einn mesti gúrú heimsins í þessum efnum hann Greenspan fyrrum seðlabankastjóri USA sagði að kreppur sem þessar kæmu um það bil einu sinni á öld. Hvers vegna? Er þetta nauðsynlegt?
Einhvers staðar hef ég það (Líklega úr mogganum) að í góðæri gerðust menn sífellt áræðnari í viðskiptum sínum í sókn eftir gróða. Það er verðbólga í ávöxtunarkröfunni. Menn krefjast alltaf meiri og meir ávöxtunar og hárri ávöxtun fylgir meiri áhætta. Þegar kreppan kemur svo hangir allt efnahagslífið á bláþræði. Íslensku ofurmennin sem hampað var og þjóðin sagði að væru vel af 400 milljóna árslaunum komnir veðsettu íslensku þjóðina þannig að nú blasir við sá möguleiki ef allt fer á versta veg að þjóðin verði gerð upp. Ef til vill komum við þá sem beiningarmenn í Evrópusambandið og byggjum þaðan ölmusur gjaldþrota batterís.
Ég bið og vona að það fari ekki svo. Ég er ekki hlynntur ríkisafskiptum en regluverkið verður að vera þannig að menn geti notið frelsisins án þess að veðsetja alla þjóðina. Það má til dæmis gera með því að hreinsa til eignatengsl. Við þurfum að koma því þannig fyrir að bankarnir séu það sjálfstæðir að þeir felli ekki hver annan. Við þurfum að leita leiða til þess að sjálfstæði þjóðarinnar verði ekki veðsett fyrir skyndigróða einstaklinga en halda samt frelsi þeirra til athafna. Við getum hugað að því þegar kreppunni linnir.
20.8.2008 | 00:41
Sparðatíningur
Maður er sko alveg dolfallinn sagði vinur minn við mig þegar við ræddum um borgarstjórnina. Það er í raun það eina sem ég get sagt um hana. Nýi borgarstjórinn er enginn vælukjói kemur ákveðin og skelegg fyrir. Það þarf kraftaverk til þess að ná þriðja hverjum kjósanda á sitt band eftir slíkar kollsteypur eins og hún hefur gert.
Það er ömurlegt að fylgjast með fráfarandi borgarstjóra velta sér upp úr trúnaðarskjölum. Eini heiðarlegi borgarfulltrúinn - eins og hann auglýsti sig - er fallinn.
Hvað finnst ykkur um opnun dagbóka Matthíasar ritstjóra fyrrverandi. Sögulega merkilegt - enginn trúnaður eftir 30 ár. Ég hef ekki verið hrifinn af því að kjósa gamlan komma með sóðakjaft sem forseta - en er rétt að velta sér upp úr fortíð hans fyrst þjóðin hefur fyrirgefið honum. Þó Svafar Gests hafi gasprað eitthvað í harðann andstæðing sinn í pólitík, til þess að ná sér niðri á samherja þá er ég ekki viss um að það hafi mikla sögulega þýðingu nú. Sérstaklega þegar þetta var tveggja manna tal. Eina sem þetta sýnir er kjaftagang yfir kaffibollum áður en menn fengu útrás hér á blogginu.
17.8.2008 | 18:35
Háin þrjú
Bandaríkjamenn er duglegir við að finna skemmtilegar skammstafanir. Ég var staddur í barnaafmæli í eftirmiðdag. Fyrst skiptist fullorðna fólkið í karla og konur. Þegar flokkurinn var byrjaður að þynnast karlamegin færði ég mig yfir til kvennanna og var umræðuefnið megrun. Skoðanir voru jafn skiptar í því umræðuefni og í pólitíkinni í Reykjavík þó enginn hafi verið "tekinn í beinni" eins og þar.
Ein kvennanna hafði staðið sig vel í danska kúrnum, önnur hafði gefið alla kúra upp á bátinn og vildi bara vera frjálslega vaxin og njóta þess. Þriðja ætlaði að byrja bráðum í megrun "en nú eru að koma jólin bætti hún við áhyggjufull. "
Ég er nú þannig að ég vil alltaf hafa mikið vit á umræðuefninu og þegar ég komst að eftir nokkrar tilraunir nefndi ég mikilvægi, heilbrigðs matarvals, hófsemi og hreyfingar. Það sló mig ekki fyrir en eftir á hvað þetta var flott upp á amerísku. Háin þrjú. Það er allt sem þarf. Sú frjálslega vaxna minntist á anorexíusjúklinga. Megrunaráráttan er sjúkleg sagði hún.
Mér var hugsað til þess að tveir hópar sérfræðinga tali hvor í sína áttina í megrunarmálum. Annar nálgast málið frá sjónarmiðum sýningarstúlkuna núverandi og þeirra sem stefna á slíkt og megra sig þar til megrunin verður sjúkleg. Hinn hópurinn horfir á ungt fólk sem vegur alltaf meir og meir með hverju árinu sem líður.
Ég hafði upphaflega miðað hófsemi í Háunum þremur við hófsemi í neyslu. Líklega er mikilvægast að hafa hófsemina í megruninn líka.