Breytingar á stjórnarskrá.

Í stjórnarskrá er eignarrétturinn varinn. Eigum við að afnema hann? Eigum við að afnema ákvæði sem alþjóðlegir mannréttindasamningar hafa að geyma?

Mönnum finnst ef til vill þessar spurningar fáránlegar. Það eru ekki ýkja mörg ár síðan Hitler komst til valda og virti engin mannréttindi, gerði eigur margra upptækar og sendi til slátrunar. Það eru ef til vill ekki líkur á því að við sendum menn í útrýmingarbúðir. Hins vegar getur þjóðin sturlast eins og sú þýska ef fjárhagurinn hrynur. Þeir sem tapað hafa öllu geta gert kröfu um að þeir sem lánsamar eru gefi eftir sínar eigur. Ef nógu margir verða öreiga getur sá hópur e.t.v. breytt stjórnarskránni. Þá eru sterkar raddir um að afnema rétt manna sem stjórnuðu útrásinni án tillits til þess hvort þeir hafi brotið lög eður ei. Jafnvel þó þeir hafi brotið lög eiga þeir rétt samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasamningum sem öðlast hafa lagagildi hér. - Er tilgangur stjórnlagaþings sá að gera auðveldara að breyta stjórnarskránni þannig að slík öfl geti afnumið mannréttindi? Stígum varlega til jarðar. Stjórnarskráin hefur dugað okkur vel. Við skulum ekki kasta henni án umhugsunar.


Traust

Traust ávinnst á mörgum árum en glatast á einum degi. Lífið okkar byggist á trausti. Við treystum stjórnmálamönnum fyrir sameiginlegri velferð okkar, bönkunum fyrir peningunum okkar, barnaheimilum og skólum fyrir börnunum okkar og heilbrigðisþjónustu fyrir heilsu okkar.

Við leggjum traust okkar á kirkjuna, viðskiptafélaga og -vini, maka okkar, foreldra okkar o.s.fr.

Í græðgisvæðingunni glataðist heiðarleiki þjóðarinnar og traustið með. Það eru ekki eingöngu bankarnir sem töpuð. Allstaðar birtist aukin vantrú. Bankarnir bjóða leiðbeiningar og í hvert sinn sem ég heyri slíka auglýsingu þá kemur upp í hugann að sama fólkið er þar að störfum og áður þegar þeir afvegaleiddu fólk með hagsmuni eiganda í huga en ekki fólksins og létu síðan fólkið greiða þjónustugjöld fyrir.

Heiðarleikinn og traustið sem glataðist er tilfinnanlegri en peningarnir sem fóru í súginn og gerir okkur erfitt fyrir að byggja upp þjóðfélagið að nýju.

Íslendingar eru dugleg þjóð sem vinnur saman þegar í harðbakkan slær. Við gerum það á grundvelli trausts. Getum við sýnt okkar bestu hliðar við þessar aðstæður?

Ég veit ekki hvernig við förum að því  - en við verðum að verða heiðarleg að nýju, læra að treyst hvert öðru og þá getum við ætlast til þess að aðrir fari að treysta okkur.  

 


Eigum við að fórna viðskiptafrelsinu?

Nýtt Ísland, hvað meina menn. Ég ætla aðeins að ræða um viðskiptafrelsið sem menn vilja afnema.

 

Það má að vísu segja að menn hafi nauðgað því hugtaki allhressilega. Þeir sem nutu frelsisins gættu ekki hófs og veðsettu íslensku þjóðina langt umfram greiðslugetu. Nú segja hinir sem aðeins nutu venjulegra launa og réðu lítt ferðinni að viðskiptafrelsi sé orsök hamfaranna sem yfir okkur gengu. Þetta er í sjálfu sér rétt en þó al rangt. Viðskiptafrelsi er ekki í því fólgið að menn geti gert hvað sem er. Frelsið takmarkast alltaf af réttindum annarra til þess sama. Þeir sem stóðu í stærstu fjárfestingunum fóru langt út fyrir þessar takmarkanir. Þeir gerðu velmegandi ríkissjóð gjaldþrota og settu byrgðir óráðsíu sinnar á herðar annarra, jafnvel komandi kynslóða. Við köstum ekki viðskiptafrelsinu af þessum sökum heldur temjum þá sem fara með fjármuni með lögum og eftirliti.

 

Þetta vandamál þe. að þeir sem nutu frelsisins kunnu ekki að fara með það er orsök heimskreppunnar. Það eru því ekki aðeins íslenskir athafnamenn sem fara yfir strikið það er alheims vandamál. Heimurinn verður að móta reglur sem bæði tryggja hagvöxt og kreppuvarnir. Siðgæði í viðskiptum er hrunið það er það sem þarf að byggja upp ásamt regluverki en ekki að brjóta niður meðalið sem getur fleytt okkur fram á veginn.


Stjórnarskrárbrot forsetans

Sérkennileg túlkun á stjórnarskránni.

 

Það er grundvallarregla í lagatúlkun að leita beri að vilja löggjafans þegar vafi leikur á merkingu laganna. Starf lögfræðinga felst m.a. að rýna í skræður sem gefið geta til kynna þennan vilja svo sem við hvaða aðstæður ákvæðið varð til og hvað menn sögðu um það í umfjöllun Alþingis. Það er ekki sveiflukenndur vilji almennings sem ræður ekki heldur breytingar sem orðið hafa, það er vilji þeirra þingmanna sem stóðu að setningu laganna.

 

Þetta er það sem kennt er í íslenskum lagaskólum en nokkur umræða hefur orðið í Bandaríkjunum um þessi atriði. Þar er stjórnarskráin gömul og enn flóknara að gera á henni breytingar en hér.

 

Þegar stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands var sett var hún arftaki stjórnarskrár fullvalda þjóðar í konungssambandi við Danmörku. Lýðveldisstofnun þýddi að við kusum forseta í stað þess að hafa konung. Við völdum það að forsetinn tæki að mestu stöðu valdalauss konungs sem hafði að vísu táknræn völd en vegna þingræðisbaráttunnar hafði orðið að engum raunverulegum völdum.

 

Þegar við skiptum út konungi fyrir forseta þá hræddust menn að hann tæki sér meiri völd en konungurinn hafði. Vegna þeirrar hættu breyttu þeir neitunarvaldi konungs við löggjöf í að vera málsskotsréttur. Menn hafa litið svo á að þessi réttur væri í raun ekki fyrir hendi nema sem neyðarráðstöfun þegar um nánast stríðsástand sé að ræða.

 

Nú hefur forseti Íslands tekið sér neitunarvald sem eins og áður segir menn hafa talið að væri varla til staðar – jafnvel sagt að hann hafi það ekki nema forsætisráðherra vilji synja lögum.

 

Nú hefur forseti tekið sér enn meira vald. Hann telur sig umkominn að setja stjórnmálamönnum skilyrði við stjórnarmyndun. Það er alveg einstakt. Þingræðisreglan er stjórnarskrárbundin og því verður forseti að fara eftir henni. Hann getur ekki sett þinginu skilyrði eins og hann gerði í dag. Hann getur valið ákveðinn einstakling til þess að stýra viðræðum um stjórnarmyndun og hann fær aukinn völd ef þingið bregst hlutverki sínu um að koma sér saman um að verja ákveðna stjórn. Þá getur hann skipað utanþingsstjórn.

 

Jafnvel þegar svo ber undir að forseti skipi utanþingsstjórn þá ber honum að gera það þannig að líkur séu á því að þingið þoli hana.

 

Þegar hann beitti neitunarvaldi gat hann í sjálfu sér afsakað það með mjög einstakri lagatúlkun. Það að setja þinginu skilyrði við stjórnarmyndun er brot á skýru lagaákvæði. Það er alveg sama hvað okkur finnst um valdsvið forset. Við verðum að virða stjórnarskrána eða breyta henni. Ef ætlunin hefði verið að hafa forseta sem pólitískan leiðtoga þá hefði væntanlega verið krafist að hann njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar (þ.e. að kosið yrði milli tveggja efstu.) og það hefðu verið ákvæði um að hemja vald hans. Valdaforsetar eru skilgreindir sem hluti framkvæmdavaldinu en ekki bæði löggjafar og framkvæmdavaldi eins og forseti Íslands.


Við vissum ekkert - við vissum ekkert.

 

Það eru liðin ár síðan Danir sögðu okkur að við byggðum upp banka- og fjárfestingarkerfi á brauðfótum. Það þurfti svo sem enga spekúlanta til þess. Allir gátu séð að við stæðum aldrei undir 10 þúsund milljarða skuldum ef kreppti að. Það vissu allir að smá samdráttur er eins mikill fylgifiskur fjármálakerfisins eins og að vetur fylgi á eftir sumri. Það var því aldrei spurning hvort heldur hvenær.

 Það var líka vitað um langt skeið að samþjöppun á íslenskum hlutafjármarkaði þýddi að mikill hluti eigna félaga var hvert í öðru. Fjármálakerfi Íslendinga var sett upp eins og dómínókubbar. Það mátti líka vera öllum ljóst að dollarinn var hér á útsölu vegna þess að inn streymdu skammtímalán í gífurlega miklu mæli. Innstreymi umfram útstreymi hlaut að minnka og því hlaut gengið að falla. Það var ljóst að strax og gengið byrjaði að falla myndu allir draga sitt fé út og fallið yrði meira og meira.  Það var líka ljóst að þá réðu fáránlegir stýrivextir innstreyminu. Þá var dýrvitlaust að hafa vexti háa. Þá hefði átt að sporna við innstreyminu með óhemju kaupum ríkissjóðs á gjaldeyri og mikilli sölu ríkisskuldabréfa hér innanlands ásamt lágum stýrivöxtum.  

Stjórnmálamenn voru í því að telja fólki trú um að aðvaranir vina okkar á Norðurlöndum væri bara upplognar fullyrðingar sem settar voru fram af öfund. Þeir voru svo sannfærandi í lygi sinna að þeir trúðu því sjálfir. Nú koma þeir blá saklausir og fullyrða upp í opið geðið á mönnum að þeir hafi ekkert vitað. Engin teikn hafi verið á lofti um annað en allt væri í lukkunnar velstandi.

 Þegar ég segi við fólk að þetta hafi nú allt verið vitað  þá segir fólkið að skilaboðin hafi verið svo misvísandi. Um leið og einhver málsmetandi aðili eins og Danske Bank sagði okkur sannleikann komu íslenskir stjórnmálamenn og drógu í efa réttmæti athugasemdanna. Í stað þess að taka fullyrðingarnar alvarlega og rannsaka stöðuna miðað við að það gæti kreppt að út í heimi þá köstuðu menn ryki í sín augu og almennings. Þeir gerðu það að verkum að menn héldu peningum sínum óhræddir í sjóðum og bréfum í bönkunum og sitja nú með sárt ennið fyrir vikið.

 Nei svei. Hættið að tala um það kæru stjórnmálamenn að þið hafið ekkert vitað. Kunnið að skammast ykkar.  Ég vissi þetta og breytti mínum fjárfestingum í samræmi við það gegn gífurlegum mótmælum ráðgjafa míns í bankanum og aftur svei.

 Góðar stundir.

 


Bjartsýni

Ég hlustaði á Pétur Blöndal á Hrafnaþingi núna áðan. Ég veit ekki hvort hann hafi verið raunsær en hann var bjartsýnn og hann rökstuddi bjartsýni sína vel. Það verður minna um utanlandsferðir og eyðslu ýmis konar á næstunni, ef til vill næstu árin. Við skulum ekki hafa áhyggjur af því. Við getum notið lífsins án þess að fara í siglingar tvisvar á ári. Það sem kreppan færir okkur er tækifæri til endurskipulagningar. Hún veitir nýjum hugmyndum sem kafnað hafa í ofuráherslu á þá atvinnuvegi sem fyrir eru lífsvon.

 Gallinn við efnahagslífið íslenska er að okkur dettur eitthvað í hug og allt þjóðlífið snýst um það í framhaldinu. Þannig verður atvinnulífið einhæft. Þegar ein atvinnugrein vex okkur yfir höfuð eins og bankabissnissinn hefur gert þá dregur hún að sér hæfileikafólkið, vel menntað og spillir þannig fyrir öðrum sem geta ekki keppt við bankana um laun.

Fyrst lifðum við á landbúnaði, síðan tóku fiskveiðar við, nokkur stutt ævintýri í hliðarspor og loks bankarnir. Þegar fiskurinn var aðalatriðið réðst gengið af fiskverði og allir aðrir atvinnuvegir máttu blæða fyrir gengi sem hentaði þeim ekki - allt í nafni sjáfarútvegs.

Í framtíðinni eigum við að stefna að mikilli fjölbreytni í atvinnulífinu. Ál er gott en það getur líka orðið of stórt fyrir okkar atvinnulíf. Ef við getum selt orku til annars konar iðnaðar á jafn hagkvæman hátt þá eigum við að gera það vegna fjölbreytninnar.

Sparnaður er vinna. Þegar ég ákveð að spara í heimilisrekstrinum þarf ég að fara yfir alla þætti og reikna út hvað borgar sig. Þannig eigum við að fara yfir þjóðarútgjöldin. Getum við beitt opinberum aðgerðum til þess að hafa áhrif á fólki til sparnaðar. Getum við t.d. veitt ívilnun til þeirra sem keyra metan eða rafmagnsbíla sem nota innlenda orku? Hvað borgar sig í þeim efnum. Borgar sig að leggja meiri áherslu á strætó í kreppunni, lækka gjöldin og fjölga ferðum? Grundvallar hugsun mín í sparnaði heimilisins er að spara allt það sem veitir mér lítið miðað við kostnað til þess að hafa efni á því sem veitir mér meira. Þannig getum við hugsað sparnað þjóðarinnar. Hvað er mikilvægast fyrir okkur sem þjóð. Ég tel eitt af því mikilvægasta sé að enginn líði skort þ.e. allir hafi í sig og á og hafi húsaskjól.  

Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir um að virkja fólk sem missir vinnuna til hugmyndavinnu og úrvinnslu. Sumir eru hugmyndaríkir aðrir eru góðir í úrvinnslu hugmynda. Bankamenn eru margir góðir í því að skipuleggja fjárhagslegan grundvöll  og rekstur, nokkuð sem nauðsynlegt er til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Sprotahugsjónin sem Björk vinnur að er frábær og leið til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná það er gott Ísland, með fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli velmegun og velferð.

 


Við erum ekki eylönd.

Velja hálffulla glasið en ekki það hálftóma.  

Þó efnahagsmálin séu yfirþyrmandi  í umræðunni upp á síðkastið má ekki gleyma hinu öllum sem á sér stað í samfélaginu. Í fátækustu löndum heims finnst hamingja.  Fólk verður ástfangið, hlær og gleðst hvað með öðru. Aðrir fylla hug sinn af sjálfsvorkun og geta einskis notið.

Ég líki þessu við hóp blindra manna. Margir líta á það sem þeir hafa með þakklæti en aðrir á það sem þeir hafa ekki. Hvorir haldið þið að nái betri árangri í hamingjuleitinni.

Einstaklingurinn sem missir húsið sitt, vinnu sína eða ævisparnað hann er betur settur en sá blindi. Það er fullt eftir hjá honum sem hann getur hlúð að og notið. Við eigum það til að láta sorgina yfirtaka líf okkar og gleyma því jákvæða.

Dreifum jákvæðum straumum.  

Í fréttum var fjallað um rannsókn á tengslum spennu hjá móður og ofvirkni í börnum. Það var í sjálfum sér mjög merkilegt. Hinu hjó ég þó líka eftir en það var að við höfum öll áhrif á börnin sem við umgöngumst. Áhrifavaldur í lífi barns getur verið einstaklingur sem hafði truflandi áhrif á móðurina.  Áhrifa umhverfis gæta ekki aðeins í móðurkviði  eftir því sem kom fram hjá sérfræðingnum. Kennari vondur eða góður getur ráðið miklu um auðnu barns. Sérhvert okkar sem komumst í snertingu við börn getum verið áhrifavaldar.

Ég hef haldið því fram að þetta eigi ekki aðeins við um umgengni við börn, heldur hvert við annað og sérstaklega eldri og yngri fullorðinna. Við sem eldri erum höfum flest einhverja reynslu við að glíma við erfiðleika. Ef við höfum unnið á þeim og sigrast á vanda -  skilur það eftir sig reynslu sem getur nýst öðrum. Margir af þeim sem eldri eru tala ekki um vanda sinn og þannig miðla þeir ekki af reynslu sinni.  Þannig þurfum við að muna að það sem við segjum og gerum hefur áhrif í umhverfinu ef til vill áratug eftir gerð okkar.

Ég vildi að ég væri það fullkomin að geta skynjað hvað á best við hverju sinni.

 


Sjó - ðir.

Ég sagði þetta sagði vinur minn og allir sögðu þetta svona eftir á litið. Það þýðir að einhver nagandi óvissa kom öðru hvoru upp í dansinum mikla sem þjóðin hélt síðustu árin.

 

Þegar Danskurinn varaði okkur við hugsaði ég að mikill gróði er annað hvort plat eða byggður á mikilli áhættu. Þannig er það á hinum fullkomna markaði. Markaður er að vísu ekki fullkominn en ekki heldur svo ófullkominn að menn geti stór grætt án áhættu. Þannig er það. Ég vissi þetta sagði ég og þó ekki. Það hvarflaði ekki að mér að hrunið yrði svona gengdarlaust.

 

Ég þekki snilling sem unnið hefur í banka í USA. Hann sagði að svona færi fljótlega eftir að ballið byrjaði úti. Þetta var maður sem ég treysti og fór að hans ráðum.

 

Það var svo sem ekkert auðvelt að fá að flytja sína smáaura í öruggt skjól fyrir sölumönnum bankans sem í nafni þekkingar og undir heitinu „ráðgjafar“ hafa reynt að svíða út úr fólki lífsbjörgina.

 

Ég hef bæði eigið dæmi og annarra um hrein ósannindi starfsfólks sem hélt því fram að ákveðnir sjóðir væru aðeins bankabréf og síðan kom í ljós að keyptir voru ekki svo öryggir pappírar og viðskiptavíxlar oft frá eigendum bankana.

 

Ég hef dæmi um sjómanninn sem varð fyrir vinnuslysi, fékk bætur sem gera það að verkum að hann hefur aðeins meira en sultarlaun Tryggingastofnunar til að lifa á . Hann hefur ávaxtað þessa aura í öruggu skjóli  bankabókar og ekki hugsað um annað en öryggið. Bankamenn hafa ásælst þessa aura inn í sjóðina. Þeir hafa beitt sjómanninn gífurlegum þrísting og nýtt yfirburði sína í þekkingu. Að lokum lét hann undan þeim nýlega og flutti féð til inn á sjóð sem fór ekki eftir eigin fjárfestingarstefnu.

 

Ástæðan fyrir því að bankarnir lentu í erfiðleikum voru ekki barasta af því. Það var fyrirsjáanlegt að hrunið í USA myndi draga úr möguleikum manna að fá lán. Þeir vissu það líka að þeir hefðu tekið milljarða að láni í skamman tíma og lánað áfram til lengri tíma. Þeir máttu því sjá fram á það sem sterkan möguleika að lenda í fjárskorti. Það var vitað að við höfðum ekki Seðlabanka til að bakka okkur upp. Ef þetta dugði ekki þá höfðu matsfyrirtækin sagt þetta með því að hækka lánshæfismatið. Þau voru ekki bara vondir aðilar að stríða okkur heldur gerðu þau fræðileg úttekt á því hversu líklegt væri að bankarnir færu á hausinn.  Þetta skyldi ég og lét ekki undan „ráðgjöfunum“ en sjómaðurinn fyrrverandi ekki.

 

Mér finnst þetta ljótt. Verða þeir hvítþvegnir í hvítbókinni.

 

Er kapítalisminn dauður.

 Viðskipti eru jafn gömul mannkyninu og jafnvel eldri. Viðskipti milli manna eiga sér stað þar sem þau eru bönnuð. 

Mis mikið af viðskiptum geta átt sér stað í fyrirtækjum í eigu einstaklinga annars vegar og ríkisins hins vegar. Viðskipti einstaklinga verða hins vegar ekki brotin niður.

 

Menn hafa afneitað þeirri kenningu fyrir löngu að markaðurinn geti annast sig sjálfur. Menn hafa uppgötvað svokallaða markaðsbresti. Einn af þeim er tilhneiging til samþjöppunar fyrirtækja þangað til þau ná markaðseinokun. Þá fara fjárfestar eins langt og lög leyfa og getur hegðun þeirra orðið skaðvænleg öðrum. Í þriðja lagi fara menn út fyrir það sem lög heimila, stunda ólögleg viðskipti sem erfitt er að fylgjast með. Alls kyns leiðir eru valdar til þess að hylja slóðina og reynist það eflaust auðveldar hjá fyrirtækjum sem reka stöðvar í mörgum löndum.

Þrátt fyrir þá miklu kreppu sem nú er í heiminum er ljóst að ekkert kerfi er betra en tiltölulega frjáls markaður. Ég segi tiltölulega frjáls. Ríkið verður að setja leikreglur og gæta þess að leikmenn á frjálsa markaðnum skaði ekki hagmuni annarra eða þjóðarinnar í heilda. Frjáls markaður virkjar fólk og auðlindir betur en nokkuð annað kerfi.

 

Kreppan leiðir í ljós fjölmarga galla á regluverkinu og siðferðilega vafasama hegðun ef ekki ólöglega. Þá er ég ekki að tala um íslenska athafnamenn sem nú heita bara auðmenn. Skuldavafningarnir vegna vonlausra húsnæðislána í Bandaríkjunum klæddu glötuðu lánin í felubúning sem mér finnst hljóta að hafa verið siðferðilega vafasamt svo ekki sé meira sagt jafnvel þó einhver ábyrgð væri tekin á þeim var ekki fé í sjóði til að standa við þá tryggingu.

 

Það sem við uppskerum í lok kreppunnar sem nú hefur vonandi náð hámarki er mikil yfirferð yfir hvað fór úrskeiðis. Við þurfum að gera það og breyta reglum og auka eftirlit.

 

En án kapítalisma þurfum við ekki að láta okkur dreyma um að ná okkur á strik að nýju. -


Gjaldþrot er hreinsun

 

Nú er uppi áætlun G7 ríkjanna um að ríkisvæða bankakerfi heimsins í stórum stíl. Hagfræðingur hjá erlendum fréttamiðli sagði þetta alveg ömurlega aðgerð. Í stað þess að láta markaðinn leysa það hvaða fyrirtæki lifa og hvaða deyja og láta menn taka tapið af hættulegum lánum svo sem vöndlalánunum bandarísku þá er dælt peningum í kerfið. Nauðsynleg hreinsunin á slæmum viðskiptum og fyrirtækjum fer ekki fram og fjárfestar fá ekki þá trú á kerfið sem nauðsynleg er. Við tekur ríkisrekstur með þeim takmörkunum í hagvexti sem því fylgir. Gífurlegt tap sem orðið hefur í kreppunni vinnst ekki upp og kreppan dregst á langinn.

 Ég skal ekki segja hvort þessi gagnrýni sé rétt en mér finnst hún hljóma mjög sannfærandi.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband