12.8.2008 | 00:30
Verndun ofbeldismanna
Sérhver maður hefur réttindi - mannréttindi sem ekki verða frá honum tekin. Eða hvað?
Við sviptum menn frelsi ef þeir hafa brotið af sér og og beitum sektum þ.e. tökum hluta eigna þeirra.
Hluti mannréttinda verða þannig tekin af þeim brotlega, en því aðeins að hann fyrirgeri þeim með hegðun sinni.
Árni Johnsen gerðist brotlegur við lög. Eftir að hann hafði tekið út sína refsingu fékk hann ekki réttindi sín aftur, Það fær Jón Ásgeir ekki heldur. Öðrum var að vísu veitt uppreisn æru en hinum ekki og getur Jón því ekki stjórnað eigin fyrirtækjum.
Báðir þessir menn hafa framið brot sem varða peninga. Verðmætin sem um er fjallað hafa ekki haft áhrif á líf og heilsu einstaklinga.
Maður er sagður hafa misþyrmt konu sinni lengi, nauðgað henni ítrekað og fengið aðra til þess sama. Þessi kona þarf að búa við ógn af honum áfram. Ef þau hefðu heimili saman yrði konan svipt heimilinu en ekki hann. Hans réttur er friðhelgur. Hæstiréttur dæmdi að skilyrði nálgunarbanns væru ekki fyrir hendi. Konan þarf að þola návist kvalara síns. Slíkur kvalar drap konu sína fyrir stuttu. Ógnin af honum sviptir hana allri gleði af því að lifa lífinu.
Er þetta það sem mannréttindi snúast um?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2008 | 13:13
Íslenska lífeyriskerfið
Þegar verðbólgan varð sem mest, fyrir verðtryggingu fjár áttum við Íslendingar ekkert lausafé. Við festum allt fé í steinsteypu hraðar en við öfluðum þess.
Síðan kom verðtrygging, verðbólga minnkaði og hlutabréfamarkaðir opnuðust. Almenningur gat farið að eiga lausafé, hlutabréf og aðrar slíkar eignir.
Þegar verðtrygging komst á og ávöxtunarmöguleikar urðu fleiri var komin jarðvegur fyrir lífeyriskerfi svipað og opinberum starfsmönnum var boðið upp á.
Nú er sagt að íslenska þjóðin eigi jafn mikið á mann í lífeyriskerfinu og Norðmenn eiga í olíusjóðnum en eins og margir vita hafa þeir ekki tímt að eyða eyri af öllum olíugróðanum.
Þó ég telji að allt þetta hafi orðið til þess að við erum rík þjóð núna þá er ekki þar með sagt að kerfið sé gallalaust.
Allir menn eru skyldugir að greiða í lífeyrissjóð. Flestir hafa lítið um það að segja hvaða sjóð þeir greiði í og enn síður hvernig honum er stjórnað.
Á þessum óvissu tímum veltir maður því fyrir sér hvort a.m.k. sumir sjóðir hafi ekki tapað á fjárfestingum sínum. Geta þeir þá staðið við skuldbindingar sínar.
Ef ríkið hefur sett í lög að einstaklingar eigi að greiða í sjóð og aðeins sumir fái peninga sína til baka og Þessi skipting á því hverjir fái og hverjir ekki ræðst ekki af málefnalegum rökum heldur tilviljunum eða atriðum sem viðkomandi hefur ekki vald á þá stríðir það á móti jafnræðisreglu stjórnarskrár að mínu mati.
Er ríkið sem setti lögin ábyrgt fyrir því að menn fái það sem þeir greiddu fyrir?
9.8.2008 | 00:19
Til hamingju hommar og lesbíur
Við ráðumst gjarnan á það sem við þekkjum ekki og er öðruvísi en við. Hommar og lesbíur eru fædd eins og þau eru. Það að vera hommi eða lesbía virðist ekki vera spurning um val á rekkjunaut heldur eru þeir sem koma út úr skápnum sérstök á svo margan hátt.
Hommi eða lesbía geta ekki aðeins ákveðið að stunda ekki kynlíf eða fara gegn eðli sínu og stunda kynlíf með því kyninu sem viðkomandi hrífst ekki af. þau verða að leika annað en þau eru öllum stundum ef ekki á að komast upp um þau.
Til hamingju hommar og lesbíur með þann árangur sem þið hafið náð í jafnréttisátt. Til hamingju með að geta verið þið sjálf án feluleiks. Til hamingju með að geta valið ykkur lífsförunaut eins og við hin gifst honum og átt og/eða fóstrað börn.
En eru fordómar jafnvel ofsóknir öfgamanna. Með fjölmennri gleðigöngu sjá menn að fordómar eru í rénun.
Njótið þið helgarinnar.
6.8.2008 | 12:13
Framleiðum alla þá orku sem við getum.
Sumir sérfræðingar segja að nóg sé til af olíu og aðrir að hún fari ört þverrandi. Allir eru þó sammála um að þær vinnsluaðferðir sem beita þarf til að ná þeim olíudropum sem eftir eru eru mun dýrari en þær sem stuðst hefur verið við hingað til. Tími ódýrrar olíu er liðinn þó verðið eigi eftir að lækka eitthvað frá því sem nú er.
Með þá staðreynd í huga að enginn annar orkugjafi getur umsvifalaust tekið við af olíunni og ferðamannaiðnaður byggir á ódýrum fargjöldum milli landa er þá besti kostur okkar Íslendinga að veðja á þá iðju sem framtíðaratvinnuveg okkar.
Við höfum baðað okkur í lúxus sem ódýra olían hefur veitt okkur. Það er ekki víst að við getum það um ókomna tíð.
Við verðum að draga úr því eða neita okkur um það sem kostar mikla jarðefnaorku. Þar má nefna að aka um á orkufrekum bilum, skjótast stöðugt milli landa af litlu tilefni, jafnvel á milli landshluta. Því fyrr sem við tileinkum okkur breyttan hugsunarhátt því betra.
Í heimi með þverrandi orku koma lönd misvel út. Sum þeirra sleppa nærri alveg við áföll og önnur ráða ekki við að brauðfæða íbúana. Við sjáum nú hvaða áhrif hækkandi matvælaverð hefur. Matvælaaðstoð til handa hungruðum heimi hefur sama fjármagn og áður en maturinn kostar meira. Það þýðir aðeins eitt; færri fá mat. Það er talað um að fjögurhundruð milljónir manna til viðbótar komi til með að svelta. Framleiðsla og flutningur matvæla kostar orku og matvæli má nota sem orkugjafa. Verð á matvælum er þannig nátengt orkuverði.
Þegar við veljum okkur hvaða leið við förum í framtíðinni verðum við að gera okkur grein fyrir þessu. Þegar olían hækkar verða ferðir dýrari. Er þá skynsamlegt að stóla eingöngu á ferðamannaiðnað?
Þegar olían hækkar þá hækkar orka okkar líka . Mér finnst því skynsamlegt að beina sjónum okkar að því að framleiða orku allstaðar þar sem það er mögulegt. Erlendis eru skattafríðindi til handa þeim sem framleiða orku. Af hverju eru ekki vindorkuver á rokrasgatinu Íslandi. Vindorkuver gætu verið hagkvæmur kostur með vatnsaflsvirkjunum. Þegar mikill er vindurinn er safnað í lón vatnsaflsvirkjana og vatnið notað í logni. Enn er orka ódýr á Íslandi og ef til vill þarf að liðka fyrir vindorkunni með skattaívilnunum eins og víða erlendis. Vindorkuver þarf ekki að vera stór mylla sem yfirtekur landslagið. Hún getur verið smátæki á húsum til að fullnægja hluta orkuþarfar þess.
Í fréttum hefur verið sagt frá tilraunum með ódýrari hvata við rafgreiningu á vetni. Menn hafa hugsað sér að nýta afgangs jarðhita við vinnslu bíódísils og þannig auka nýtni við vinnsluna. Afgangs jarðhita má einnig nota við eimingu alkahóls sem eldsneytis. Allt er þetta á tilraunastigi enn. Við getum siglt á toppi öldunnar eða lent í öldufaldinum. Rannsóknir á þessu verða ekki gerðar án þess að veita í þær miklu fjármagni - frá ríkinu.
Ef borin eru saman Evrópulönd annars vegar og Bandaríkin hins vegar er ljóst að Evrópulönd eru mun lengra komin í nýtingu orkunnar en Bandaríkin. Í Bandaríkjunum viðgengst sóun í mun meira mæli en í Evrópu. Þegar svo kreppir að í orkumálum eru Bandaríkjamenn mun verr settir. Hvort viljum við vera undirbúinn og nýta vel orku og efni ef til vill þróa hér tækni sem við getum selt öðrum eða vera sóarar sem þurfa á endanum að kaupa rannsóknir annarra dýru verði.
6.8.2008 | 01:47
Vaxandi atvinnuleysi.
Þeir sem fylgjast með vanskilum segja að mörg fyrirtæki séu á barmi gjaldþrots. Gjaldþrotahrina hafi í för með sér atvinnuleysi, ekki aðeins hjá þeim fyrirtækjum sem verða gjaldþrota heldur einnig ýmsum fyrirtækjum sem byggja afkomu sína beint eða óbeint á þeim.
Atvinnuleysi getur þýtt andlegt niðurbrot. Áfallið að missa vinnuna er líkt við ástvinamissi. Það verður ekki umflúið. Hins vegar geta menn unnið misjafnlega úr áfallinu. Aðal atriðið er að missa ekki móðinn þó útlitið sýnist svart. Til lítils er að fyllast hugarvíli yfir því sem maður hefur misst eða er að missa. Ég ráðlegg þeim sem þannig er ástatt fyrir að einbeita sér af því sem þeir geta náð en ekki því sem þeir fá ekki. Nýja vinna þess atvinnulausa er að vinna úr hlutunum á jákvæðan hátt og með það að augnamiði að rísa úr öskustónni. Hann á forðast allt sem kemur í veg fyrir að lífið skáni. Hugarvíl yfir orðnum hlut hindrar mann í að ná árangri.
Sá atvinnulausi verður að leita sér aðstoðar, eftir aðstæðum. Hann getur þurft að fá ráð vegna fjármála heimilisins og/eða vegna andlegrar heilsu - áfallahjálp. Það er sjálfsagt að leita allra slíkra leiða. Það kemur þó ekkert í stað viljans til að bæta eigin hag. Sá atvinnulausi ætti að fylla hugann að hvatningum til sjálfs sína að gera það og ýta frá öllum hugsunum um að það sé ekki hægt. Það getur verið raunhæft að álykta að vinna fáist ekki strax. Allar niðursveiflur taka enda og brátt mun koma betri tíð með blóm í haga.
5.8.2008 | 00:16
Skipulagsleysi
Ég ætlaði einu sinni að verða arkitekt og fór í undirbúningsnám í skóla sem einu sinni var til og hét Myndlista- handíðaskóli Íslands. (Nú er búið að færa allt slíkt upp á háskólastig). Í náminu sáum við undirbúning að skipulagi í erlendri borg á stærð við Reykjavík. Heil bók fjallaði um undirbúningsrannsóknir. Fjallað var um varðveislugildi einstakra húsa veðurlag á einstökum punktum ásamt mati á því hvernig byggðin hefði áhrif á það. Þá var tíundað hvar væri áhugavert útsýni og annað eftir því. Þegar allt var svo klappað og klárt var málið kynnt almenningi sem lagði sitt af mörkum. Endanlega var samþykkt skipulag sem flestir gátu verið sammála um.
Mér datt þetta svona í hug vegna umræðunnar um Listaháskóla. Hvaða rannsóknir, hvaða þá heldur sátt lá fyrir þegar hverfið var skipulagt og af hverju velkjast menn í vafa um hvað má.
Ef grunnurinn er ekki góður koma svona deilur upp. Embættismenn þurfa í sífellu að gefa eftir breyta skipulaginu. Við þurfum að taka ákvörðun um það í eitt skipti fyrir öll hvernig við ætlum að hafa Laugaveginn og yfirvöld verða að vera bundin við þá ákvörðun. Það getur verið gott eða slæmt að hafa listaháskólann á þeim stað og eftir þeim hugmyndum sem stjórnendur hans vilja. Ég hef ekki kynnt mér tillögurnar nægjanlega vel til að mynda mér skoðun á því. Ég tel að það sé óþolandi að hafa einhvern hringlandahátt í skipulagsmálum. Þegar stórt hús er reist við hlið annars smærra hefur það áhrif á útlit þess síðarnefnda, notkunarmöguleika og söluverð. Annars vegar verður Reykjavík að þróast með breyttu þjóðfélagi og hins vegar verðum við að varðveita söguna. Við þurfum að ákveða hverju við fórnum og hvað við varðveitum löngu áður en þrýstingur kemur vegna einstakra bygginga. Það er óþolandi að byggingar sem hafa mikið varðveislugildi séu ekki verndaðar.
Þær byggingar sem hafa varðveislugildi og eru friðaðar eiga ekki að njóta slíkrar friðunar á kostnað eigenda sinna. Ef almenningur vill ráðskast með eignir einstaklinga verður að greiða einstaklingnum bætur fyrir.
2.8.2008 | 11:01
Embættismannakerfið
Það eru margir sem álíta að embættismenn hafi völd - sem er í rauninni mesti misskilningur. Það er þjóðin sem hefur völdin - fólkið, þú og ég. Þetta var grunn hugsun í frönsku byltingunni. Þetta felst síðan í orðinu lýðræði eins og það er skilið á vesturlöndum og þar með stjórnarskrárbundið á Íslandi.
Embættiskerfi eru hins vegar óumbreytanleg. Ég var einu sinni að hæla mér fyrir breytingu sem ég stóð fyrir innan embættis sem ég vann við. Í stað þess að fá hól frá áheyrandanum sem ég bjóst við þá hældi hann yfirmanni mínum að hafa látið mig komast upp með að færa hlutina til betri vegar. Íslenska embættiskerfið var sjálfstæð eind á fyrri öldum vegna fjarlægðar frá einvalda konungi. Það gat því framfylgt valdi hans án þess að vita hver vilji hans var frá degi til dags. Þ.e. það tók sér einveldisvald.. Þetta hefur ekkert breyst. Nýir einstaklingar fá yfirmannsstöður þegar búið er að berja þetta í þá.
Ég hef svo sem ritað um þetta áður og það í blöðin. Ég sagði einu sinni í grein að fá lög væru meira brotin en stjórnsýslulögin nema ef til vill skattalögin. Þessa setningu fannst Umboðsmanni Alþingis rétt að vitna til í einni ársskýrslu sinni.
Embættismaður er sem sagt þjónn almennings. Hann á ekki að gera neitt annað en það sem þjónar þessu hlutverki. Í því felst tvennt.
a) Þjóna einstaklingum,
b) þjóna heildinni.
Það er ljóst að maður sem þjóðin felur að innheimta opinber gjöld getur ekki þjónað einstaklingi þannig að hann sleppi við að greiða þessi gjöld. Þar kemur m.a. önnur grunnhugsun lýðræðisins þe. að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum.
Þjóðin vill fá sanngjarna meðferð hjá yfirvöldum. Um það hafa verið sett lög - stjórnsýslulög. Þegar embættismaður framfylgir vilja heildarinnar og jafnréttis og innheimtir opinber gjöld má hann ekki beita aðferðum sem almenningi hugnast ekki. Hver einstaklingur hefur rétt á réttlátri meðferð.
Í jafnréttisreglu stjórnarskrár felst m.a. að einstaklingur á að hafa sömu stöðu og ríkið í þeirra deilum. Menn sjá að þetta er erfitt. Embættismaðurinn er með yfirburðar þekkingu en einstaklingurinn verður að kaupa sér dýra sérfræðiaðstoð sem hann fær ekki endurgreidda þó ríkið beiti hann órétti. Í stað þess að ríkið greiði fyrir lögfræðiaðstoð til handa þeim sem deilir við ríkið eins og er í sakamálum er lögð sú skylda á embættismanninn að veita ráðgjöf til handa einstaklingnum.
Þetta gengi í hinum fullkomna heimi. Hér á landi er stór hluti embættismanna sem tekur ekki hlutverk sitt sem þjónar einstaklinga alvarlega en sýnir "vald sitt" í hinu hlutverkinu. Einstaklingurinn er borinn ofurliði fyrir embættiskerfinu.
Nýlegasta dæmið sem ég hef er viðskipti við Tollstjórann í Reykjavík.
Lítið en vel rekið fyrirtæki hefur staðið í innflutningi um áraraðir samhliða ákveðinni þjónustu sem það hefur með höndum. Alltaf er sama tegund flutt inn ein tegund vöru eingöngu. Á árinu 2002 kom fyrirspurn um vöruna frá endurskoðunardeild tollstjóra. Allar upplýsingar voru sendar og var málið fellt niður. Þessi fyrirspurn var endurtekin síðar og aftur var ekkert gert í málinu. Á árinu 2008 var enn send fyrirspurn - upplýsingar sendar eins og venjulega. Nú brá svo við að embættismennirnir höfðu skipt um skoðun. Þeir úrskurðuðu að varan hefði verið vitlaust tollflokkuð allan tíman og fyrirtækinu bæri að greiða gífurlega háa upphæð ásamt dráttarvöxtum sex ár aftur í tíman. Með þessum úrskurði fylgdi svokallaður rökstuðningur. Ég er sérmenntaður í að túlka texta og skyldi hann ekki hvað þá að þetta hafi þjónað leiðbeiningarhlutverki embættismanna. Ekki létu embættismennirnir þar við sitja. Þeir sögðu að fyrirtækið væri svipt öllum rétti þ.e. tollkrít o.þ.l. ef það greiddi ekki innan örfárra daga. Það þýðir að jafnvel þó úrskurðurinn sé rangur gæti fyrirtækið farið í gjaldþrot vegna þess að hafa ekki handbært fé til að greiða þessa skuld.
Ég sé ekki annað heldur en fyrirtækið hafi valið réttan tollflokk og úrskurðurinn sé rangur. Jafnvel þó valinn hafi verið rangur tollflokkur hjá fyrirtækinu þá var það ekki gert af ásetningi - tollflokkun er flókið fyrirbrigði. Með því að taka málið til skoðunar á árinu 2002 og gera ekki athugasemdir samþykkti tollstjórinn hana. Það þjónar ekki hagsmunum almennings að brjóta niður fyrirtæki með þessum aðferðum. Fyrirtækið hefði sett þessa viðbót inn í verð seldra eininga ef það hefði vitað um hana. Ekki var leiðbeint um að hægt væri að semja um greiðsluna.
Ef þetta væru ein mistök hjá Tollstjóra væri þetta afsakanlegt. Ég vinn ekki sem lögmaður. Ég vinna aðeins nokkur mál fyrir vini mína. Ég hef þó fengið annað mál svipað áður við tollstjórann og vann það fyrir úrskurðarnefnd þar sem ég reifaði þau sjónarmið sem hér eru fram sett.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.8.2008 | 00:52
Baggalútssmellur.
Baggalútur er skemmtileg hljómsveit. Allt benti til þess að hún væri búin að gera einn góðan smell í viðbót þegar menn tóku sig saman og fóru að mótmæla.
Í texta lagsins kom fram hvatning til að notfæra sér drukknar konur.
Baggalútsmenn skildu ekkert í gagnrýninni. Hefur það að notfæra sér drukknar konur eitthvað með nauðgun að gera.
Ég var að lesa grein í blaðinu MIND sem Scientific American gefur út. Þar eru birtar rannsóknir á hvernig heilinn vinnur. Til að ráða við flókið umhverfi okkar án þess hreinlega að brenna yfir býr hann sér til mynstur sem hann notar til að fylla út í eyður. Við leggjum þannig á minni okkar ákveðin sérkenni og annað er tekið úr staðalmyndinni. Við teljum að jafnaði að himinninn sé blár nema við sólarlag og sólarupprás. Þegar við skoðum hann vel er hann gulur og grænn á stundum. Það sem kemur oft fyrir verður eins konar staðalmynd Við getum sett fram nokkrar línur og punkta og við sjáum út úr því andlit. Heilinn fyllir það sem upp á vantar.
Á hverri þjóðhátíð í eyjum er talað um nauðganir á konum sem gátu ekki varið sig vegna ölvunar. Mjög margir fylla þannig í eyðuna þegar nefnt er að notfæra sér ölvunarástand að átt sé við að nauðga. Þannig vinnur heilinn. Jafnvel þó skynsemin grípi í taumana millisekúndu eftir að viðkomandi heyrir textann og maður verði nánast aldrei var við þessa hugmynd sem hugsun þá er henni plantað í heilann. Í ölvunarástandi getur það haft áhrif á hegðun a.m.k. einhverra.
Jafnvel þó ekki sé nauðgað finnst mér óhæfa að notfæra sér ölvunarástand manneskju til að fá hana til að gera eitthvað fyrir þann sem leitar eftir því, sem drukkni einstaklingurinn myndi ekki gera alls gáð.
Texti Baggalúts er þannig algjör óhæfa.
31.7.2008 | 00:44
Tvíeggjað (s)verð
Ég hef haldið því fram að húsnæðislánakreppan í Bandaríkjunum sé ekki orsök kreppunnar sem nú er í heiminum heldur sé húsnæðiskreppan eins og kanarífuglinn sem deyr til að vara við hættum. Af fyrri reynslu af miklum olíuverðshækkunum held ég að hækkunin sem orðið hefur á olíu sé orsökin kreppunnar.
Heimskreppa er hryllileg. Hún hefur áhrif á okkur sem búum í auðugum ríkjum en drepur hina sem í fátækari löndum búa. Þó hækkun matvælaverðs sé ef til vill að hluta af öðrum orsökum svo sem að menn breyti matvælum í eldsneyti þá eykur aukinn kostnaður við öflun matvæla og flutning vegna olíuverðsins á vandann.Jafnvel þó kreppan reynist heiminum erfið þá hefur hún nokkuð jákvætt í för með sér. Líkur eru á því að hún hraði leit að öðrum orkugjöfum og auki sparnað. Magnið sem mannkynið notar af olíu á degi hverjum er geigvænlegt. Það er ekki spurning hvort olían gengur til þurrðar heldur hvenær. Ef ekki er ýtt við okkur áður með kreppu sem þessari verðum við ekki undirbúin þegar þurrðin verður raunveruleg.
Hvað þarf kreppan að standa lengi til að hafa næg áhrif og hvað deyja margir af hennar völdum á meðan?
Pattstaða á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.7.2008 | 19:36
Viðtalið við Bubbi
Sigga kona mín var að lesa Moggann einn morgun eins og oft áður og ég var að lepja í mig morgunmatinn og sokkinn niður í Fréttablaðið og byrjaði Sigga að lesa. Það var úr viðtali við Bubba.
Ég er ekkert hrifinn að því að vera truflaður við svo merka iðju eins og að lesa blöðin en lagði við hlustirnar. Ég hef vitað að Bubbi væri hæfileikaríkur en ekki að hann væri með þá jarðbundnu skynsemi sem kom fram í viðtalinu. Hann skaut á Björk föstum skotum með því að segja að við núverandi aðstæður væru annars vegar á vogarskálunum lífsviðurværi fátækra og náttúrfyrirbrigði hinum megin. Hann sagðist að vísu ekki vera talsmaður þess að fórna náttúrunni en það væri óábyrgt að tala einhliða fyrir náttúruvernd án þess að skoða hina hlið peningsins.
Íslenska þjóðin á bjarta framtíð. Líkur er á því að mikil náttúruauðæfi verði unnin í nágrenni við okkur svo sem á Grænlandi og í hafinu milli Íslands og Jan Mæen. Líkur eru á því að ýmis þjónusta verði keypt af okkur í því sambandi og jafnvægi í byggð verði gömul lumma. Ekki eru líkur á öðru en iðnaður og fiskveiðar haldi áfram að gefa okkur tekjur ásamt þekkingariðnaði. Framleiðslugeta Íslendinga er mikil. Við erum þó að ganga í gegnum erfiða tíma. Á meðan við gerum það þurfum við að fórna ýmsu til að missa ekki hæfileikaríkt fólk úr landi og fjölskyldur lendi ekki á vonarvöl.Leitum allra leiða að koma okkur út úr kreppunni
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)