19.6.2010 | 23:54
Eftir dóminn um gengistrygð lán vextir.
Nokkur réttaróvissa er um vextina af gengistryggðum lánum eftir dóm Hæstaréttar um að verðbinding við gengi sé ólögleg. Það má hreifa því sjónarmiði að ákveðinn forsendubrestur sé fyrir lágum vöxtum þegar verðtryggingin er tekin út. Þá má segja að ákveðið tómarúm sé í samningnum varðandi vexti. Almenn regla um túlkun samninga segir að vanti ákvæði þurfi dómstólar að fylla í þá eyðu með því að lesa í það hvað líklegt sé að samið hefði verið um ef menn hefðu séð þessa stöðu fyrirfram.
Á móti þessi kemur svo sú regla að að jafnaði er vafaatriði í stöðluðum samningum túlkuð fyrirtækinu í óhag sem gerði samninginn. Það er ekki skuldaranum að kenna að svo sterkur aðili sem banki eða fjármögnunarfyrirtæki hafi ekki farið að lögum við gerð staðlaðs samnings. Það ætti að vera þeirra að láta löglærða menn lesa yfir samninga áður en þeir eru boðnir almenningi.
Það er ákveðin tilhneiging í Norrænum rétti að dæma þannig að menn hagnist ekki á mistökum annarra. Voru gengistryggðu lánin mistök eða var um að ræða skipulega vanvirðingu við lög. Það er hreint ótrúlegt að svona mörg fyrirtæki hafi látið það vera að kanna lagahlið þeirra tilboða sem boðið var upp á. Einn hefur byrjað og hinir hafa apað þetta eftir þegar þeir sáu að hann komst upp með þetta. Þeir verða því að taka afleiðingunum. Það er ekki hægt að hnekkja ákvæðum sem þeir hafa sett vitandi vits. Mín skoðun er því sú að miða eigi við samningsvexti þó ólögleg ákvæði þ.e. verðbinding við gengi, falli niður.
Þessi skoðun er þó ekki óumdeilanleg og því nauðsynlegt að fá botn í þetta hjá þeim einum sem geta komið með niðurstöðu þ.e. dómstólum.
Menn tala um að réttaróvissa sé hvort dómur Hæstaréttar um gengistryggð bílalán nái til fasteignalána. Það er náttúrulega augljóst að enginn eðlismunur er milli bílaláns og fasteignaláns að þessu leiti. Bílalán voru yfirleitt veitt til bílakaupa og bíllinn lagður að veði en húsnæðislánin til húsnæðiskaupa og húsið lagt að veði. Hæstiréttur segir að ekki sé heimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með gengisviðmiði og skiptir þá ekki í hvað peningarnir voru notaðir.
31.5.2010 | 13:30
Orð hafa áhrif
Þegar við tölum er eins og við skjótum örvum. Stundum tölum við umhugsunarlaust þá er eins og við skjótum út í loftið og tilviljun ræður hvort einhver verður fyrir skotinu. Við getum valið okkur örvar góðs eða ills, örvar sem örva eða sljóvga þann sem fyrir verður. Ég hef verið minntur á orð sem ég hef látið falla fyrir tugum ára og hafa verið til góðs. Ég er örugglega ekki minntur á örvarnar sem hafa haft öfug áhrif.
Mér líður vel af jákvæðum örvum sem ég sendi en af sama skapi illa vegna þess að ég hef sent í reyði eða hugsunarleysi frá mér særandi örvar.
Hamingja mín er fólgin í því sem ég geri vel og ég vil vinna að betri líðan minni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2010 | 22:26
Takmarkanir eru til að yfirvinna þær
Lífshlaupið er eins og ferð um ókunna slóð. Alltaf ber eitthvað nýtt við þó sumt sé tilbrigði af sama stefi. Oft hef ég fallið í þann farveg að hugsa um mig sem miðpunkt alheimsins, mínar sorgir meiri og mína gleði meiri og öðru vísi en annarra.
Ég hugsa þetta eftir fermingaveislu sem ég fór í norður í landi. Fermingabarnið hafði nýlega komist á verðlaunapall á Íslandsmóti í siglingum, hann leikur bæði á gítar og fiðlu og stendur sig í alla staði afbragðs vel. Þetta væri svo sem ekki í frásögu færandi ef hann hefði ekki fæðst með klofinn hrygg, gengi með spelkur og hefði þurft mikið til að losna við þvoglumælgi.
Hver einstaklingur hefur sínar takmarkanir. Ég er viss um að þínar lesandi góður eru ekki meiri en hans Breka, fermingabarnsins sem ég nefndi. Eins eru erfiðleikar Íslendinga þó miklir séu hjóm eitt miðað við fátækar þjóðir heimsins, þjóðir sem eiga í stríð, búa við harðstjórn og mun meiri skuldir miðað við framleiðslugetu en við.
Ég vona að við verðum eins og hann Breki, sigrumst á erfiðleikum okkar.
17.5.2010 | 00:03
Byggjum upp betra samfélag.
Heiðarleiki og traust. Ég hef áður lagt áherslu á hversu mikilvægt það er að rækta þessi atriði.
Vinur minn sem kom til Íslands fyrir nokkrum áratugum en er borin og barnfæddur í Frakklandi segir að við höfum glatað þessu tvennu. Íslendingar hafi verið heiðarlegir og traustir en nú sé öldin önnur.
Þó trúin boði okkur að sýna náunganum kærleika og þannig vera ekki óheiðarleg er hún ekki ástæðan fyrir áherslu minni á þetta tvennt. Til að ná hámarks árangri þurfa menn að vinna saman. Hvernig er hægt að vinna saman án trausts?
Ég keypti nokkra hluti í Rúmfatalagernum fyrir nokkru og m.a. eitt borð. Þegar ég kem út með vörurnar sé ég að reikningurinn stemmir ekki. Ég fer inn og geri mér upp reyði og segist ekki vera sáttur við útreikninginn. Það er kallað á yfirmann og hann fer í vörn. Þá sýni ég honum reikninginn og þar stendur skýrum stöfum að borðið sem átti að seljast á um þrjúþúsund krónur er reiknað á 0 kr. Ég fékk ekki að greiða nógu mikið fyrir vörurnar. Einhver hefur slegið vitlaust inn í tölvu og eflaust margir farið út með slík borð og hlakkað yfir því að þurfa ekki að borga. Í öllu falli breyttist viðhorf afgreiðslumannsins þegar skekkjan var á þennan vegin og sagðist hann bara ekki hafa upplifað að menn kvörtuðu þegar skekkjan var þeim í hag.
Erlendis hefur verið gerð óformleg rannsókn á þessu þ.e. hversu mikill hluti býður leiðréttingu þegar þeir vita að það hallar á búðina í viðskiptum. Ótrúlega stór hluti viðskiptavina sneri við eins og ég. Hvað gerum við Íslendingar. Hvað myndir þú gera kæri lesandi.
Þetta er spurning um heiðarleika og traust. Hvernig líður þér með það að hafa af öðrum fé og hvernig líður þér með að hafa brugðist við af heiðarleika. Ég er ekki heilagur. Ég hef bæði brugðist rétt og rangt við þegar freistingar læðast að mér. Mér líður svo miklu betur með það sem ég geri af heiðarleika heldur en með hitt þar sem ég bregst rangt við.
Ég þekki mann sem ráðlagði syni sínum að taka frekar lán í verslun fyrir vörum en staðgreiða í þá gömlu góðu daga þegar það tíðkaðist. Hann sagði honum einnig að ákveða stund greiðslu og koma á nákvæmlega tilsettum tíma og greiða skuldina. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum. Pabbi hans skýrði þetta þannig að með þessu byggi hann upp traust.
Mér er tíðrætt um þessi atriði af því að við Íslendingar erum gjarnir á að finna sökudólga fyrir bankahruni og vesöld okkar. Vorum við hin heiðarleg og traust. Misstum við okkur ekki öll í græðginni. Nú er kominn nýr kafli. Byggjum upp á nýtt á grundvelli þessara hugtaka.
29.4.2010 | 12:44
Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna.
Það er hart að þurfa að borga skuldir sínar þegar framfærslan dregst saman. Það er hins vegar hætt við að illa færi ef Íslendingar hættu að gera slíkt.
Nú telja sumir spakir menn það algjöra vitleysu að hækka lífeyri opinberra starfsmanna á sama tíma og framfærslueyrir þeirra sem í aðra lífeyrissjóði greiddu dregst saman.
Þegar ég var ungur kvartaði ég yfir því að laun mín sem þinglýsingafulltrúi hjá Borgarfógetaembættinu væru svo lág að það borgaði sig að verða skrifstofumaður á lögfræðistofu. Lögfræðimenntun mín væri minna en ekkert metin. Þá sagði fólk á almennum markaði að ég hefði gullnámu í formi lífeyrissjóðs. Ég hélt áfram að streða allt út á þennan lífeyrissjóð.
Nú þegar ég er byrjaður að taka úr þessum lífeyrissjóð segja menn á almennum vinnumarkaði að ég eigi að gefa hann eftir.
Með því að greiða mér lág laun en tryggja mér í staðinn bestu lífeyrisréttindi sem þekktust var ríkið að taka lán hjá mér. Lífeyririnn er skuld á ógreiddum launum. Það er því algjörlega rangt sem sagt er að lífeyrisþegarnir sem fá nú takmarkaðan lífeyri séu að greiða niður lífeyri minn. Þeir eru að greiða niður gamla skuld ríkisins. Krafan á lífeyri er eign mín alveg eins og önnur laun. Sá sem vann á almennum markaði gat keypt ríkisskuldabréf fyrir mismuninn á launum á almennum markaði og ríkismarkaðnum. Þannig skuldaði ríkið honum alveg eins og mér.
Svo er nú sú fullyrðing að núverandi landsmenn þurfi að greiða mér lífeyri. Það er ekki hafið yfir efa, því enn er ríkið að taka lán m.a. með því að tryggja opinberum starfsmönnum lífeyri. Það eru því komandi kynslóðir sem borga brúsann.
21.4.2010 | 16:14
Hinn óumdeildi forseti vor
Ég hef rætt við menn um forseta Íslands, óumdeilanlegt sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Ég hef ekki fundið mann sem ver gerðir hans. Þegar svo er komið á hann að segja af sér.
Afrekaskrá forsetans:
Fyrst er hann umdeildur og orðljótur stjórnmálamaður sem flakkar á milli flokka.
Þá er hann kosinn forseti af litlum minnihluta þjóðarinnar aðallega út á konuna sína sem því miður er látin.
Næsta stóra afrek hans er að hann umbyltir íslenskri stjórnskipan með því að neita að skrifa undir fjölmiðlalögin. Með þessu kom hann í veg fyrir að löglega kjörin stjórnvöld gætu beitt sér gegn ógnarvaldi fjárglæframanna sem komu okkur á hausinn. Varla er nokkur einn maður sem hefur þannig gert jafn mikinn skaða fyrir íslenska þjóð fyrr og síðar.
Það er svo ekki eins og hann kunni að skammast sín. Nú hefur hann gefið út yfirlýsingar á erlendri grund sem eru til þess líklegar að fæla burtu ferðamenn. Einmitt þeir eru eitt af því fáa sem getur rétt Ísland úr þeirri klípu sem Ólafur hefur átt stóran þátt í að koma okkur í.
Ólafur segir að það eigi að vara við hættum. Hann er ekki ráðinn til þess. Hann er ekki vísindamaður á sviði jarðvísinda. Hann er að gefa út yfirlýsingar út í heimi um atriði sem hann hefur ekkert vit á og stangast á við yfirlýsingar fræðimanna og skaða íslenska þjóð. Hann sagði m.a. að Katla gysi á hundrað ára fresti. Jarðvísindamaður sagði að hún hefði gosið 21 sinni frá landnámi. Eftir því var Ísland numið fyrir Kristburð. Nokkrar líkur eru á því að Katla hafi gosið nokkrum sinnum án þess að gosin hafi náð að bræða jökulhettuna. Þá gæti Ólafur með sama rétti og hann kom með ofangreinda yfirlýsingu sagt að aldrei væri óhætt að heimsækja Ísland því hér væri alltaf að gjósa.
Eftir að hafa unnið nokkuð með þroskaheftum hef ég sagt. Mikið væri gaman ef gáfufólkið nýtti eins vel gáfurnar sínar og þeir þroskaheftu nota sínar. Það er ekki nóg að hafa gáfur það verður að nota þær líka.
Lýsa undrun á yfirlýsingu forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 13:39
Vísindaleg náttúruvernd
Það er einfalt fyrir Íslendinga að vera náttúruvænir, hafna lífverum sem hafa orðið til fyrir tilstilli erfðatækni þar sem við erum á eyju og óháð öðrum. Raunveruleikinn er hinsvegar sá að mannkynið er orðið eitt. Eftirspurn á einum stað veldur hækkuðu verði um allan heim. Það sem við gerum hefur áhrif í fátækari löndum. Breytt neyslumynstur okkar getur valdið dauða i öðrum ríkjum.
Mannfjöldi á jörðinni stefnir í að verða sjö milljarðar, er þegar kominn yfir 6,8 milljarða og verðum komin yfir 9 milljarðar um miðja öldina ef spár ganga eftir. Við þurfum að auka matvælaframleiðslu um 50 % næstu 30 árin. Þetta getum við ekki gert með venjulegri kynblöndun tegunda.
Markmið með erfðatækni er aðallega að auka framleiðslu á flatareiningu lands með minni skaða fyrir umhverfið þannig að halda megi framleiðslugetu landsins.
Það er engin þekkt aðferð til þess að framleiða matvæli til að fullnægja þörf mannkynsins í framtíðinni önnur en líftækni.
Þeir sem segja; Ég ætla aldrei að borða erfðabreyttar lífverur eru að segja að þeim sé sama um aðra ef þeirra sérvisku sé fullnægt. Þetta er allt í lagi ef einn og einn meðal ríkra þjóða gerir slíkt en þegar þær taka sig saman um slíkt eru þær að dæma milljarða manna í fátækum löndum til dauða.
Það tekur um tíu til 15 ár að þróa nýtt og afkastameira afbrigði nytjaplöntu. Fyrirtæki sem annast slíkt verða að spá til um eftirspurn langt fram í tíman, leggja í mikinn kostnað við þróunina og gera ekki slíkt ef ríku löndin standa gegn notkun afurðanna þegar þær koma loks á markað.
Hvað er svo þessi líftækni?
Í mjög einföldu máli þá ráðast erfðir af sérstökum efnasamböndum sem við köllum DNA Þessi efnasambönd mynda ákveðinn flókinn kóða sem lýsir ákveðnum eiginleikum. Þessi aðferð til að flytja eiginleika milli kynslóða er eins í mismunandi tegundum, jafnvel eins í dýraríki og jurtaríki þó uppskriftirnar sem letraðar eru í DNA ólíkra tegunda sé að sjálfsögðu ólíkar. Menn hafa komist upp á lag með að flytja erfðaefni úr einni tegund í aðra. Það er grundvöllur erfðatækninnar.
Við höfum stundað það í tíuþúsund ár að velja til undaneldis þær skepnur og jurtir sem gefa mestar afurðir. Þá erum við að velja þau gen sem finnast innan ákveðinnar tegundar sem gefa mest. Nú getum við valið þessi gen úr öðrum lífverum. Við getum td. látið nytjaplöntu fá varnarhæfileika annarrar tegundar. Nytjaplöntur okkar gætu þannig orðið ónæmar fyrir ýmsum plágum sem við glímum við. Möguleikarnir eru margir i þessum efnum.
Það fylgja ákveðnar hættur því að breyta eiginleikum lífvera með slíkum aðferðum. Kynblöndum, sérstaklega milli kvæma sem eru úr sitt hvorum heimshlutanum er líka hættuleg. Við verðum að fara varlega í líftækninni þó mesta hættan fyrir heiminn sé að taka hana ekki upp.
Heimild: Scientific American október 2009 - Biotechs Plans to sustain
Agriculture viðtal við nokkra vísindamenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2009 | 13:46
Kreppan er tækifæri
Við getum hugsað okkur að landið sé eins og steinhús sem hefur brunnið. Veggirnir eru heilir en viðirnir brunnir. Veggirnir i þessu tilfelli er grunnur lýðræðis og mannréttinda. Einnig hafa nokkur fyrirtæki haldið velli. Lóðin eða auðlindirnar eru til staðar og fólkið lifði af. Bruninn varð vegna eðlis þess sem brann. Byggjum við upp eins og áður eða leitum við nýs upphafs?
Við höfum kosið fólk sem lofaði nýju upphafi. Það tvístígur við gamlar hugmyndir og nær ekki að fóta sig.
Ef til vill komumst við ekki hjá gömlum lausnum en við megum ekki leggja aðal áherslu á þær. Virkjanir og álver eru vítamínsprauta á meðan byggt er upp en síðan kemur bakslagið. Hluti af kreppunni núna er óráðsía virkjanaáranna. Til slíkra framkvæmda þarf gífurlegt fjármagn, sem ekki liggur á lausu.
Á þessum tímapunkti þurfum við að huga að því sem gefur okkur mesta hamingju, ekki mestan auð. Í hvernig þjóðfélagi viljum við búa. Rannsóknir sýna að hamingjusömustu einstaklingarnir búa í þjóðfélögum þar sem ákveðið öryggi ríkir og jöfnuður. Til þess að slíkt þjóðfélag gangi í heimi samkeppni verða tekjur að vera miklar, ella fara þeir einfaldlega annað sem gjaldgengastir eru á alþjóðlegum vinnumarkaði.
Við viljum hafa þjóðfélag sem nýtir menntun fólks, við viljum að börnin okkar nái að mennta sig á þeim sviðum sem hugur þeirra stendur til og fái störf við hæfi.
Ef við leggjum áherslu á álver og stóriðju drögum við mátt úr sprotafyrirtækjum sem gætu gefið ungu fólki slík tækifæri.
Nú eru vinstri grænir við stjórnvölin. Þeir voru kosnir m.a. vegna áherslu á umhverfismál. Þeirra tækifæri er núna. Nýsköpun á Íslandi gæti verið fólgin í því að efla rannsóknir og nýsköpun á því svið. Hverjir eru orkugjafar framtíðar. Höfum við t.d. rannsakað hvort hér finnist við landið þörungar sem nýtast til olíuframleiðslu? Getum við skoðað betri nýtingu rafmagns svo sem með samnýtingu vindorku, árósavirkjana oþ.l. með rennslisvirkjunum. Getum við minnkað sóun rafmagns í heimahúsum, stofnunum og fyrirtækjum með það að markmiði að hægja á virkjanaframkvæmdum. Hvað borgar sig í þessum efnum. Við höfum heimsþekktan vísindamann á þessu svið og ef til vill fleiri en einn. Notum kreppuna til að gera Ísland betra hreinna og eftirsóknaverðar fyrir Íslendinga og útlendinga sem eyða vilja fríum sínum hér.
Ef vinstri grænir taka sig ekki á í þessum efnum kjósa menn Framsókn.
2.6.2009 | 16:25
Ekkert prump
Þó ég sóði nú umhverfið barasta eins og hver annar, noti plastpoka í Bónus og setji grænmetið ekki á safnhauginn þá blundar í mér svolítill umhverfissinni þ.e. ef ég get fengið eitthvað tæki sem gefur von inn í framtíðina. Ég keypti t.d. einn af fyrstu Príus bílunum (ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni) og nú við seinustu bensínhækkun langaði mig í prumpgasbíl.
Prumpgas eða metan verður til við rotnun og kemur t.d. mikið af því úr afturenda nautpenings og úr sorpurðunarstöðum. Það er mörgum sinnum meiri skaðvaldur í umhverfinu en koltvísýringurinn sem mikið er fárast yfir.
Væri nú ekki þjóðráð að breyta einum af bílum okkar hjóna í metanbíl. Ég sá slíkar breytingar auglýstar. Ég hafði séð í útlöndum að gasdunki var komið fyrir í skottinu og fór ekkert mjög mikið fyrir honum. Þá hafði ég gúgglað svolítið og séð útbúnaðinn sem komið var fyrir í bílnum og fannst mér hann ekki geta verið dýr.
Ég komst að því eftir svolitla leit að Vélamiðstöðin gerði slíkar breytingar á bílum og hringdi í þá. Jú jú það er hægt að breyta Yarisnum þínum í metanbíl - ekkert vandamál - það breytir að vísu útblástri bifreiðarinnar og það er bannað. Skiptir þá engu máli að útblásturinn verður umhverfisvænn. Nei það er sama í hvora áttina breytingin er gerð barast engin breyting. Og hvað kostar þetta svo. Eina milljón sagði maðurinn eftir að hafa látið mig vita að þetta væri allt of dýrt. Ef hins vegar sömu reglur giltu um breytingar á bílum og innflutning þá ætti þetta ekki að kosta neitt þ.e. ríkissjóður myndi endurgreiða hærri upphæð en sem nemur kostnaði. (Þetta á ef til vill um dýrari bíla en Yaris sem kostaði mig 1,3 milljónir nýr fyrir þremur árum.).
Þetta er fáránlegt. Með því að endurgreiða gjöld af breytingum á eldri bílum í hlutfalli við fyrningu þeirra þá skapaðist atvinna hér á landi, við minnkuðum mengun og spöruðum gjaldeyri. Þetta er svona dæmigerð vinnings vinnings staða.
Ég vildi stofna baráttuhóp fyrir prumpgasvæðingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2009 | 23:35
Siðlausir Gunnarar.
Gunnar Birgisson veitti dóttur sinni verkefni sem hann hafði umsjón með á hennar sviði, bæði sem bæjarstjóri Kópavogs og stjórnarformaður LÍN.
Viðbrögð stjórnmálamanna við þessu eru vægast sagt hógvær. Beðið er eftir einhverri endurskoðun sem undirmenn Gunnars sjálfs eru að framkvæma. Hvað á að rannsaka veit ég ekki.
Gunnar líkir því að gerð er athugasemd við þetta við árás stjórnarandstöðu á Ólaf Thors. Hins vegar er það almennt talið af þeim sem eru skyldir Ólafi að fjölskyldufyrirtækið og ættingjar Ólafs hafi liðið fyrir þátttöku hans í stjórnmálum en ekki öfugt. Ég hef ekki heyrt fyrr að hann hafi verið siðblindur eins og Gunnar bæjarstjóri eða legið undir slíku ámæli.
Ég segi að Gunnar Birgisson sé siðblindur. Ég tel það vera siðblindu af versta tagi að telja að ekkert ámælisvert sé við það sem hann hefur þó játað að hafa gert.
Við skulum segja sem dæmi að dóttir Gunnars hafi verið leigubílstjóri þegar þeir höfðu fasta verðskrá. Gunnar hafi síðan aðeins skipt við hana eða aðallega skipt við hana vegna leigubílaferða fyrir bæjarstjórnina. Bærinn hefði ef til vill ekki tapað fé á þessu en leigubílstjórar hefðu ekki setið við sama borð. Það er grundvallar regla í stjórnsýslu að menn eiga að njóta jafnréttis gagnvart henni óháð skyldleika við ráðamenn. Sú regla myndi hafa verið brotin.
Nú er ekki föst gjaldskrá hjá þeim sem veita þá þjónustu sem dóttir Gunnars veitti. Með því að veita verkefnum til hennar getur verið um það að ræða að mögulegt hefði verið að fá verkefnin gerð ódýrar annars staðar. Sá mismunur sem þannig er fenginn er þannig tekinn úr bæjarsjóði og veitt til nákominna.
Nú skulum við segja að önnur sveitarfélög hafi fengið sömu þjónustu fyrir sama eða hærra verð eftir verðkönnun og þannig hefði bæjarsjóður ekki orðið fyrir tjóni. Eftir sem áður þá rýrar slíkir starfshættir ráðamenn trausti.
Nú er íslenskt samfélag í rúst m.a. af því að stjórnendur banka lánuðu ótæpilega til eigin fyrirtækja og sátu þannig beggja vegna borðsins. Eigum við að halda uppteknum hætti eða eigum við að siðvæða íslenskt samfélag.
Gunnar í Krossinum kom fram á fundi og virtist vera að veita sína blessun og þess guðs sem hann telur sig umboðsmann fyrir á gerðum nafna síns. Það er ekki sá guð sem séra Gunnar Árnason kenndi mér að trúa á í Kópavoginum í æsku.