15.10.2007 | 10:44
REI ðarinnar býsn um Landsvirkjunarsölusamninga orku
Það er hægt að velta sér upp úr þessu REI máli í hið óendalega. Það er með ólíkindum hvað menn voga sér þegar þeir véla um eignir almennings. Um hugarfar, góðan vilja eða hvaða það er nú kallað allt saman skal ósagt látið. Góður vilji er ekki nóg ef hlutirnir eru ekki gagnsæir þá læðist alltaf að grunur um einhvers konar spillingu og mismunun.
Ég hef meiri áhuga á kjarnanum þ.e. reglum sem við þurfum að fara eftir í opinberum rekstri. Ég er þeirrar skoðunar að hvort sem opinberir aðilar koma beint fram eða í skjóli einhvers forms sem lítur út fyrir að vera einkafyrirtæki þá eru þeir að sinna eigendum sínum þ.e. öllum almenningi og verða því að lúta reglum stjórnarskrár um jafnræði borgaranna. Frá þessu verður ekki komist. Þetta leiðir aftur hugann að þeim samningum sem Landsvirkjun hefur gert um sölu á raforku. Þeir eru ekki "upp á borðinu" eins og stjórnmálamenn kalla pukur sitt. Meðan þeir samningar eru ekki ljósir, hvernig er þá hægt að tryggja slíkt jafnræði. Þetta leiðir aftur hugann að því hvort opinberir aðilar geti verið með þjónustu sem lítur slíkri verðlagningu þ.e. gera einstaka samninga sem fara leynt og eru ekki í almennu útboði.
Hið rétta væri að Landsvirkjun og ríkisstjórn biðu út kaup á ákveðnu orkumagni á ákveðnum stað og auglýsti á evrópska efnahagssvæðinu og í heimspressunni þar sem líklegt er að kaupendur finnist. Það er í sjálfu sér ekkert leyndarmál hvað virkjun kostar. Hvers vegna ætti það að vera leyndarmál hvað orkan úr henni kostar þar sem mismunurinn er arðsemi opinbers fyrirtækis.
Ef þessi háttur væri hafður á gætu garðkirkjubændur t.d. boðið saman í ákveðin orkukaup og samið um flutning orkunnar til notkunarstaða um landið. Munurinn á því fyrirkomulagi sem nú er og því sem ég legg til er eingöngu jafnrétti borgaranna sem er einmitt grundvöllur þess að hægt sé að hafa þessi fyrirtæki í opinberri eigu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.