10.4.2011 | 11:45
Vanhæf ríkisstjórn.
Heilög Jóhanna vann forðum fyrir franska þjóð með því að ganga í fylkingarbrjósti í baráttu gegn breskri kúgun. Önnur Jóhanna var fyrir nokkrum árum einnig kölluð heilög ef til vill ekki af því hún vildi bjarga þjóð heldur fremur af því einu að einhverjir rómuðu hana fyrir að vera heiðarlega, en slíkt þótti sjaldgæfur eiginleiki í þingheimi.
Nú nefnir enginn lengur heilagleika hennar. Var hann ef til vill eins glæsilegur og nýju fötin keisarans?
Samkvæmt hennar dómi eiga menn í hennar stöðu að taka ákvarðanir á ögurstundu sem skila árangri. Hún hefur sent fyrirrennara sinn undir fallöxina af því hún segir að hann hafi geta gert betur. Ég hef ekki heyrt um neitt sem sá forsætisráðherra gerði óheiðarlega aðeins að hann hafi ekki staðið sig nógu vel að hennar mati.
Ríkistjórn hennar stóð fyrir því að ráða aldraðan kommúnista, uppgjafa lögfræðistúdent, með enga tilgreinda prófgráðu til að fara gegn breiðfylkingu breska ríkisins í samningum um líf íslenskrar þjóðar. Hann beraði getuleysi sitt með því að hampa samningi sem hefði sett íslenska þjóð á hausinn. Enn var farið á stúfanna. Ný samninganefnd var sett á laggirnar og nú var maður með fullgilt lögfræðipróf sendur. Það hefur komið í ljós að hagfræðiþekking hans var takmörkuð og eins þekking hans á íslenskum lögum. Það virðist vera að umboð hans hafi náð til þess eins að fá vexti lækkaða en ekki að ráðast á grundvallar galla samningsins svo sem gengisáhættu og endurheimtukröfu úr þrotabúi Landsbankans.
Við höfum átt því láni að fagna að hafa öryggisventil í íslensku stjórnarskránni sem leyfir þjóðinni að hafa síðasta orðið ef forseta sýnist svo. Ólafi sýndist svo í þessu máli og þjóðin kaus. Yfirgnæfandi meirihluti atkvæðisbærra manna sagði nei, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru sérstök: Heilög Jóhanna sagði að hún teldi rangt af forseta að senda fjárhagsmálefni í þjóðaratkvæði. Hún vildi sem sagt að eldri samningurinn hefði fengið að standa og íslenska þjóðin orðið gjaldþrota af því nágrannaþjóðirnar hefðu ekki þjóðaratkvæði um fjárhagsmálefni.
Steingrímur sagði að erfitt væri að stjórna landinu ef ríkisstjórnir færu alltaf frá eftir að lög væru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu alla vega meðan núverandi forseti væri við völd. Ólafur Ragnar hefur setið lengi og þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið slíkt vandamál fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Fordæmið er komið. Stjórnmálamenn sem ekki sinna starfi sínu, á að draga fyrir dóm. Núverandi fjármálaráðherra valdi að ráða getulausan gamlan skoðunarbróður sinn í jafn mikilvæga nefnd og Icesave samninganefndin var í stað þess að ráða menn með þekkingu og getu til að ná árangri. Forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á því klúðri. Nýja samninganefndin virðist hafa verið föst í því hjólfari enda var ekki skipt út bresku nefndinni.
Er ekki ástæða til að fara á Austurvöll og kalla vanhæf ríkisstjórn þó forsetinn hafi bjargað lífi þjóðarinnar.
Hvatning fyrir stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Full ástæða til. Heill forseta vorum og fósturjörð!
Sigurður Haraldsson, 10.4.2011 kl. 13:03
þarna erum við mikið sammála Jón!!!/Kveðja
Haraldur Haraldsson, 10.4.2011 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.