Spilling stjórnmálamanna


Eins og allir muna reiddist Jónína Bjartmarz því mjög þegar Helgi Seljan hélt því fram að afgreiðsla Alþingis á ríkisborgararéttindum til handa tengdadóttur hennar hafi verið óeðlileg. Hún ásakað Helga um dylgjur og óheiðarleg vinnubrögð.

Peningar og völd eru seglar á spillingu. Við höfum menn hér sem eru meðal þeirra ríkustu í veröldinni og einstakir menn fara með fjármuni sem eru af stærðargráðu fjárlaga en ekki einstaklinga. Við lifum í litlu samfélagi þar sem vinargreiðar hafa verið aðalsmerki fremur en undantekningar. Slíkir greiðar eru góðir þegar ráðstafað er eingöngu eigin tíma og peningum. Þegar ráðstafað er eigum annarra eru þeir ein mynd spillingar. Slík spilling er ósanngjörn og grefur undan þjóðfélagsbyggingunni og því jafnræði sem við viljum hafa.

Alþingismenn skammta sér sjálfum ýmis fríðindi. Skemmst er að minnast lífeyrisins sem ráðherrarnir skömmtuðu sér og er úr öllum tengslum við raunveruleika annarra launþega. Stjórnmálamenn tala um að þeir beri stjórnmálalega ábyrgð á gerðum sínum. Það er eins og klingi í eyrum mínum slík klisja frá Jónínu Bjartmarz. Pólitísk ábyrgð er að almenningur hafi eftirlit með gerðum manna. Þeirra tæki til upplýsingaölfunar eru blaðamenn. Ef þeir mega ekki opna umræðu um mál sem eru grunnsamleg en ekki sönnuð sekt geta þeir ekki rækt þetta hlutverk og stjórnmálamennirnir mega valsa um eftirlitslaust.

Þetta hef ég svo sem rætt áður. Ég ætlaði hins vegar að líta til skömmtunar flokka á Alþingi á fjárstuðningi ríkissjóðs við sömu flokka. Ég ætla ekki að fjalla um skiptinguna og það að flokkar sem koma nýir inn fái ekkert.

Eins og ég hef rætt hér að ofan er það mjög slæmt þegar aðilar geta hyglað sér og sínum af annarra fé. Það geta hins vegar verið málefnaleg rök fyrir því. Það er ekkert annað vald en Alþingi sem getur ráðstafað slíkum fjármunum nema þá helst þjóðin sjálf. Það er vandkvæðum bundið að fela það þjóðinni og þá spyr ég: Voru málefnaleg rök fyrir þessari ákvörðun. Stjórnmálamennirnir segja að þeir verði þá ekki háðir auðfyrirtækjum og mönnum. Það eru í mínum huga lýðræðisleg og málefnaleg rök. Þar sem vart verða slíkar ákvarðanir bornar undir þjóðina í hvert skipti getur verið um fullkomlega eðlilega ákvörðun að véla. Ekki eru að heyra háværar raddir gegn þessu eins og gegn lögum um eftirlaun ráðherra á sínum tíma.  

Þá spyr ég: Ná lögin tilgangi sínum? Ég efast um það. Ástæðan er sú að þau leysa flokkinn undan þrýstingi auðsins en ekki einstaklingana sem bjóða sig fram í prófkjöri. Prófkjör er í sjálfu sér mjög lýðræðisleg aðferð til að velja menn á lista en jafnframt mein gallað. Allt of dýrt er fyrir einstaklinga að fara í gegnum slíkt. Þá eru ekki samræmdar reglur á milli flokka. Hætta er á að ákveðin landsvæði eða menn fylgjandi ákveðnum skoðunum geti náð óeðlilegu fylgi með því að menn frá því svæði eða hliðhollir viðkomandi sjónarmiði kjósi í prófkjörum margra flokka.

Í þýskalandi eru atkvæðaseðlarnir tveir. Annars vegar eru nöfn manna og geta menn kosið menn af ólíkum listum og númera þá 1, 2, 3 ..... Hins vegar er stefna kosins líkt og hér, þ.e. ákveðinn listabókstafur. Með þessu er prófkjör óþarft. Flokkarnir stilla upp ákveðnum fjölda einstaklinga sem eru tilbúnir að fara í framboð. Þeir sleppa við prófkjör og kosningavél viðkomandi flokks sér um kynningarnar. Taka verður fyrir auglýsingar einstaklinga á listunum. Þeir mega hins vegar koma sér á framfæri með hverjum þeim hætti sem kostar ekki fé svo sem vinnustaðaheimsóknum, viðtölum við fjölmiðla og greinaskrifum. Þá auglýsa þeir flokk sinn í leiðinni og kynna sínar áherslur. Ef þessu væri þannig farið þá gætu rökin um fé til flokkanna til að koma í veg fyrir spillingu haldið. 


Áfram Ísland

Ég horfði næstum því grátklökkur á mynd sem rithöfundur frá Nýfundnalandi gerði um Ísland og Nýfundnaland.

Myndin var að vísu svolítil áróðursmynd fyrir sjálfstæði Nýfundnalands. Engu að síður hlýtur maður að sjá að hvert land ræður nokkru um gæfu sína. Nýfundnaland afsalaði sér sjálfstæði og hefur verið eins konar ölmusubarn Kanada síðan. Um svipað leyti sögðu við Íslendingar endanlega skilið við Dani og tókum sjálfstæðið í okkar hendur.

Hér er velsæld, velferð og vel menntað fólk. Það er stór hluti íbúa atvinnulaus, ólæsi er algengt og íbúar fá ekki að veiða í kringum eigið land.

Náttúruauðlindir Nýfundnalands eru meiri og fiskimiðin voru auðugri þegar samanburðurinn hófst. Nýfundnaland var framalega í fiskiðnaði og fyrirmynd Íslendinga að einhverju leyti.

Ingibjörg Sólrún kom meðal annarra fram í þessum þætti enda ræddi höfundur myndarinnar aðallega við konur. Aðal munur ríkjanna var sjálfstæði þeirra. Berum við gæfu til að fara ekki í ríkjasamsteypu eins og Nýfundnalendingar eða verðum við hjáleiga í Evrópusambandinu?


Til hamingju Ísland.

Það eru margir sem spá því að núverandi stjórn verði miklu meiri hægri stjórn en sú seinasta og þá er nú langt við jafnað. Þá segja menn að Samfylkingin hafi tapað í málefnaslagnum. Ég er þessu algjörlega ósammála. Í málefnasamninginn voru sett mjúku mál Samfylkingar og þau fengu velferðarmálin. Ötull sjálfstæðismaður var settur yfir heilbrigðisráðuneytið og lofar því að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum. Það er grunn forsenda velferðar að hún sé rekin eins ódýrt og kostur er án þess að það komi niður á gæðum. Ég hafði að vísu spáð því að Samfylkingin fengi heilbrigðisráðuneytið en krókur á móti því var að færa tryggingamálin yfir í nýtt velferðarráðuneyti.

Ég held aftur á móti að Framsókn sé slíkt kamelljón sem menn segja Samfylkinguna vera. Þeir hafa að vísu færst til hægri seinustu áratugi en breyta sér í vinstri flokk þegar þegar þeir eru í samstarfi við aðra á þeim armi stjórnmálanna.

Það er ómögulegt að segja að Jóhanna Sigurðardóttir sé hægri sinnuð og hvikar hún lítt frá skoðunum sínum t.d. Hún er sett yfir velferðarmálin. Lýsir það ekki ákveðnum vilja forustu Samfylkingar að hvika ekki frá stefnumálunum sínum meir en nauðsynlegt er til að ná sáttum milli ólíkra flokka sem mynda þessa ríkisstjórn.

Þrátt fyrir allt eru stefnumál Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ekki svo ólík. Vinstri armur Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf getað hlaupið yfir á Krata ef því er að skipta. Í báðum flokkum eru armar í öfuga átt þ.e. hægri armur í Sjálfstæðisflokknum og vinstri armur í Samfylkingunni sem vilja meira í sína átt. Ég persónulega tel mig vera í vinstri armi Sjálfstæðisflokksins, við þá gömlu mýkt sem var þegar Ólafur Thors stjórnaði flokknum og ég hélt að væri glötuð eftir stjórn Hannesar Hólmsteins. Geir er víðsýnn maður sem ég trúi að sé tilbúinn að til að sætta þessi sjónarmið innan sjálfstæðisflokksins vitandi að engin velferð er án öflugs atvinnulífs, ekkert öflugt atvinnulíf án frjálsræðis. Það þarf síðan að jafna auðnum lítið eitt þannig að enginn líði skort en þeir ríku fái nægilegt umbun erfiðis sýns til að þeir haldist í landinu, greiði hér skatta og flytji auð sinn ekki úr landi. Ég hef trú að Geir nái þessu gullna meðalvegi.

Til hamingju Ísland.  

 


Ljósmyndasýning Fókus

Kæru bloggvinir.

Í ráðhúsi Reykjavíkur stendur nú yfir ljósmyndasýning Fókus undir heitinu mannlíf í fókus.

Það erui 28 félagar sem sýna og eru myndir þeirra eins misjafnar og þeir eru margir. Það eru félagar sjálfir sem velja myndirnar sínar.  þessi bloggari er með þrjár myndir.

Sýningin stendur til þriðja júní. Nú um helgina er seinasti möguleiki að velja bestu myndina og eiga þess kost að vinna hana.


Hlýnun jarðar

Á síðu bloggvinar míns sveiflunnar er eftirfarandi færsla.

http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/214035/ þ.e. þrjátíu ára frétt um væntanlega ísöld árið 2000.

Sá vísindamaður sem hér er vitnað til er mikill frumkvöðull í rannsóknum á veðurfari liðinna árþúsunda.  Hann bendir enn þann dag í dag á hversu lítil áhrif lofttegundir hafa á vörpun hita frá jörðinni þar sem vatn hafi svo mikil áhrif.  Ég hef ekki þekkingu til að bera til að meta hans niðurstöður í samanburði við þá virtu vísindamenn sem gerðu loftlagsskýrsluna sem nú er miðað við sem heilagan sannleika í þessum málum. Ég er sannfærður um það að mikilvægt sé fyrir manninn að ganga vel um heimilið sitt jörðina og allur efi eig að vera jörðinni í hag.

 Svona á. a. g. fimm árum áður en þessi frátt var birt las ég bækurnar Heimur á Helvegi og Raddir vorsins þagna  sem spáðu því að hráefni jarðar yrðu nánast uppurin fyrir aldamótin 2000. Kopar átti að vera fyrstur og byrjað að bera á verulegum skorti í kringum árið 1980 og það átti að geysa stöðugt stríð um seinustu olíudropana um aldamótin seinustu. ´

 Forsendur breyttust. Menn fóru að leita olíu og fundu meira magn en mönnum hafði órað fyrir og enn eru ókönnuð svæði víða. Notkun á kopar minnkaði - endurnýting jókst á öllum hráefnum og þannig er enn nóg til að flestu.

Spár hafa tilhneigingu til að drepa sjálfa sig. Það gæti verið fyrir tilstilli spánna að menn fóru að haga sér öðru vísi og leita nýrra leiða og auðlinda. Þannig er ég vissum að spáin um hlýnun jarðar fari að lokum.

Meginþorri vísindamanna eru mjög sammála um það að hitnun jarðar í byrjun þessara aldar og í lok þeirrar síðustu er engin tilviljun. Beint samhengi er milli mengunarloftegunda svo sem koltvíildis og metans og hlýnun jarðarinnar. Þetta er talið engum vafa undirorpið. Hitt er svo annað mál hvort spárnar um þær hörmungar sem boðaðar eru gangi eftir. Það  efast ég um. Ég hef þá trú að mönnum takist að það ætlunarverk sitt að koma í veg fyrir það eins og margar aðrar hörmungar sem spáð hafa verið. Það var markaðnum sem tókst að koma í veg fyrir hörmungarnar sem Heimur á helvegi spáði fyrir um ásamt alþjóða samningum og lögum.

Ég er alveg sannfærður um það að sömu öflum þ.e. markaðnum aðallega með réttu lagaumhverfi og alþjóð samningum tekst að koma í veg fyrir hörmungarnar.

 


Aðeins á færi auðmanna.

Eins og frægt er orðið hvatti Jóhannes Jónsson sem kenndur er við Bónus menn til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar. Hann sagði í leiðinni að full ástæða væri að strika yfir Björn Bjarnason og lái það honum hver sem vill.

Svar Björns var að skrifin dæmdu sig sjálf.  Ekki voru kjósendur sammála því. Þá sagði Björn að það væri umhugsunarvert að menn gætu í krafti auðs haft áhrif á kosningar. Eftir upplýsingum sem ég hef fengið á auglýsingastofu Morgunblaðsins er vel viðráðanlegt fyrir meðalmanninn að kaupa eina heilsíðu auglýsingu og ef manni er mikið niðri fyrir gæti meðaltekjumaður auglýst í öllum fjölmiðlum svona einu sinni á ævinni.

Jóhannes hefði geta sett svona 100 200 milljónir í þetta dæmi og haft veruleg áhrif. Þá hefði verið hægt að segja að hann beitti auð sínum í baráttunni.  Svar Björns dæmir sig þannig sjálft og sýnir rökþrot hans. 

Hitt er einnig á að líta að auglýsingin hefur gefið Birni skálkaskjól. Ég efast um að auglýsingin ein hafi haft þau  áhrif að stór hluti kjósenda í hans kjördæmi hafnaði honum. Miklu fremur er að hann sé dæmdur af vafasömum verkum sinum og hrokafull svör hans við gagnrýni  á hann um að hann auglýsti ekki störf og skipan góðvina ráðamanna í flokknum í Hæstarétt og fleira og fleira sem hann hefur staðið fyrir hafi gert menn full sadda á honum.


Vitnað í Risessuskrif í Blaðinu

Mér þótti gaman að því að loksins hafa blaðamenn tekið eftir þessu merkilega bloggi mínu og eru byrjaðir að vitna í það. Ég sé fyrir mér að ég verði álitsgjafi eða eitthvað enn fínna en það var blaðamaður Blaðsins sem reið á vaðið. Af skrifum hans mátti hins vegar lesa að ég væri graut fúll Framsóknarmaður sem kenndi Risessunni um ófarir flokksins. Sem meiður af Thorsættinni er það þungur biti að kyngja.


Risessa minnkaði kjörsókn.

Nú er það svo að fylgi við einstaka flokka er misjafnt eftir einstökum kjörd

Risssa

 

eildum. Nú er búið að finna góða leið til þess að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga.  Fá eina Risessu í heimsókn og sýna hana fyrir utan kjörstað þar sem fylgi við andstæðingana er mikið. Það er ótrúlegt að leyfa Risessunni að takmarka umferð að einum kjörstað í Reykjavík. Fólk fer á kjörstað þegar því hentar og meðan opið er. Þó kjörsókn sé góð hér á landi þá er ekki þar með sagt að áhuginn sé svo mikill að menn vilji eyða öllum deginum í það að komast til þess að kjósa. Risessuleikurinn var að vísu alveg ótrúlega skemmtilegur, ekki aðeins fyrir börnin heldur einnig okkur hin sem enn höfum eitthvað af barninu í okkur. Það eru 365 dagar í flestum árum og því hlýtur að vera hægt að velja svona atburðum annan  tíma, jafnvel annað ár ef því er að skipta.

 Ég met lýðræðið mikils en er mjög hlynntur listviðburðum sem þessum og bæði ætti að geta farið fram í´góðri sátt. Smile

 


Ingibjörgu fær félags- eða heilbrigðisráðuneytið.

Það fór sem fór með þessar kosningar.

 Geir Haarde blómstraði. Ég er hræddur um að Davíð hefði ekki náð þessum árangri enda voru ekki yfir 60% sem treystu honum vel eins traustið sem Geir hefur.

Áróðurinn var ekki nein loforð, ekki neinar afsakanir. Hann var einfaldur - ef þið treystið mér þá verðið þið að kjósa mig. Ég held að það hafi bara verið gott fyrir Geir að Davíð gagnrýndi hann. Hann hefur náð þessu landsföðurlega yfirbragði sem aðeins bestu foringjar Sjálfstæðisflokksins ná.

Einu sinni var Sjálfstæðisflokkur 40% flokkur. Hann verður það örugglega ekki í framtíðinni nema ef til vill eftir mjög slæma vinstri stjórn.

Ef við lítum á eðlilegt stjórnarsamstarf þá er það ekki núverandi samstarf. Kjósendur sögðu: "Við viljum að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn en við viljum ekki Framsókn." Þá eru mögleikarnir rauðu flokkarnir, VG og Samfylking. Hverju lofuðu flokkarnir? Ef við lítum yfir baráttumálin þá sjáum við að það er aðeins áherslu munur á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Það er hins vegar eðlismunur á milli VG og Sjálfstæðisflokks. Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir frelsi og frjálsu framtaki einstaklingsins - einkavæðingu. Vinstri grænir eru í mörgum málum miðstýringarflokkur en vill leyfa smáiðnað svona svipað og var liðinn í gömlu sovétríkjunum. Þeir vilja netlöggu, ríkisrekinn síma o.s.fr. Stóriðjustopp og virkjanastopp er algjörlega á skjön við yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin hagaði kosningabaráttunni þannig að ekki yrði lokað fyrir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sögðu að vísu að Sjálfstæðisflokkurinn sýndi mjúku hlið sína fyrir kosningar og ekki væri mikið á henni byggjandi en  gagnrýni þeirra gagnvart stóriðju beindis meira að því að fara varlegar en að lofa algjöru stoppi. Þannig hefur Samfylkingin lagt grunn að samstarfi til allra átta. Samfylkingin er í raun framsóknarflokkur bæjanna. Þó Framsóknarflokkurinn virðist hafa glatað jafnaðarstefnu sinni síðustu árin er stefna hans meir í líkingu við hægri sveiflu Breska verkamannaflokksins en íhaldsstefna. Hann er hins vegar gamall bændaflokkur og heldur sig að nokkru við það heygarðshornið og því ekki von að bæjarbúar sem hafa kost á öðrum jafnaðarmannaflokki velji Framsókn.

Þó samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (S-flokkanna) liggi beinast við þá er spurning hvernig einstaklingarnir Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde nái saman. Sættir Ingibjörg sig við að vera ekki í forsæti? Er það vænlegra fyrir flokkinn að vera í ríkisstjórn til árangurs í framtíðinni eða að vera stöðugt í stjórnarandstöðu?

Ingibjörg segist vera í stjórnmálum til þess að hafa áhrif. Það er lítið gagn að vera alltaf í stjórnarandstöðu til að safna atkvæðum. Nú eru til peningar í þjóðfélaginu til þess að taka til hendinni í mörgum mjúkum málum. Sjálfstæðisflokkur segist vera tilbúinn að sýna á sér mýkri hliðar og Ingibjörg er tilbúin í slaginn. Hún er að vísu ekki sætasta stelpan á ballinu en hún gæti gert gagn.  


Lygi eða hvað.

Þið munið hann Nixon sem hrokklaðist frá völdum eftir Watergate hneikslið. Hann missti ekki embættið fyrir að tengjast því heldur fyrir það að ljúga að Bandarísku þjóðinni.

 Bjarni Benidiktsson hefur lýst því yfir að tengdadóttir Jónínu Bjartmarz hafi fengið ríkisborgararétt eftir rækilega athugun á öllum gögnum málsins og hennar gögn hafi verið sérstök. Hvaða gögn voru það? Hann hlýtur að geta sagt hvaða gögn fylgja almennt slíkum umsóknum. Ég get ekki séð fyrir mér að önnur gögn eigi við en umsóknin með skýringum á ástæðum þess að beðist sé undanþágu og meðmæli. Nú hefur komið í ljós að móðir Jónínu Bjartmarz var meðmælandinn. Það er lítil könnun á gögnum málsins ef ekki er vitað hver var meðmælandinn. Það hefði getað verið marg dæmdur dópinnflutningsmaður.

 Annað tveggja rannsakaði Bjarni ekki gögnin og segir ósatt um þá athugun eða að hann gerði það og vissi um tengslin. Hvort sem er rétt þá segir hann ósatt.

Höfundur er skrásettur í Sjálfstæðisflokkinn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband