27.3.2008 | 19:32
Árni nauðgari. Lýðræðinu nauðgað
Af hverju gengur það ekki að embættismenn sýni Umboðsmanni Alþingis ruddaskap?
Við skulum líta á heimspekina á bak við kerfið okkar. Ég ætla að nefna þrjár grundvallar stoðir undir stjórnskipun okkar.
1. Valdið er hjá fólkinu. Sú kenning var grundvöllur frönsku byltingarinnar og þeirra lýðræðisþróunar sem varð í Evrópu eftir hana. Hún er því grundvöllur lýðræðis okkar.
2. Önnur kenning er um þrígreiningu ríkisvaldsins. Þessi kenning er órjúfanlega tengd lýðræðinu þó höfundur hennar hafi ekki endilega haft afnám konungsvaldsins í huga þegar hann setti hana fram. Hún gengur út á það að ríkisstjórn og embættiskerfið - kallað framkvæmdavald, Alþingi sem fer með löggjafarvald og dómsvaldið sem er í höndum dómstóla takmarki og tempri hvert annað til að tryggja að fólkið haldi valdi sínu gegn ofurvaldi einstakra þátta ríkisvaldsins.
3. Þingræðisreglan. Hún er ekki nauðsynlegur þáttur lýðræðisins en er hluti af baráttu þings og konungs. Hún varð til þess að konungur sem fór með framkvæmdavaldið varð að styðjast við vilja þingsins um val á ráðherrum.
Vald okkar framseljum við til Alþingismanna. Þeir velja ráðherra og ráðherra velur síðan dómara. Þannig veljum við eða fulltrúar okkar alla þætti ríkisvaldsins.
Þingræðisreglan tengir óneitanlega tvo arma ríkisvaldsins saman þ.e. löggjafarvaldið og framkvæmdavladið. Alþingismenn sem tilheyra meirihlutaflokkum á Alþingi gegna yfirleitt ráðherraembættum.
Umboðsmaður Alþingis er valinn af Alþingi og skal hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila sem fara með opinbert vald. Hann hefur ekkert raunverulegt vald. Vald hans byggir á þeirri virðingu sem hann nýtur. Vegna skiptingar ríkisvaldsins hefur umboðsmaður mikilvægu hlutverki að gegna að takmarka og tempra vald stjórnvalda. Vegna þingræðisreglunnar eru aðrar leiðir Alþingis vart raunhæfar. Ef ekki er meirihluti á Alþingi fyrir því að beita sér gegn ofurríki ríkisvaldsins fæst ekkert slíkt í gegn. Umboðsmaður er embættismaður sem er óháður pólitískri hentistefnu. Hann á að vera virtur fræðimaður sem tekið er tillit til. Hann er jafnframt vörður lýðræðisins eins og rakið hefur verið.
Með því að ráðast gegn honum er kippt fótunum undan valdi hans þ.e. virðingu. Þannig er ráðist á vörn okkar borgaranna og lýðræðinu nauðgað.
Ég hef áður nefnt það að það sem Árni telur Þorsteini Davíðssyni helst til tekna er að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra. Ekkert kemur fram um að slíkur maður þurfi að hafa lögfræðipróf. Hann er pólitískur starfsmaður sem mótvægi við ópólitíska embættismenn. Hann gæti pólitískra hagsmuna gagnstætt lögfræðilegum aðstoðarmönnum sem eru fastir embættismenn. Þannig er það aðal rök Árna að Þorsteinn gæti hagsmuna Sjálfstæðisflokksins. Það staðfestir það sem margan hefur grunað við fyrri stöðuveitingar í hæstarétt og héraðsdómstóla að Sjálfstæðisflokkurinn sé að raða varðhundum sínum í þessar stöður. Gelda einu öruggu stoð borgaranna til að tryggja sig gegn valdaráni stjórnvalda.
Löggjafinn vildi tryggja okkur fyrir slíku með umsagnarnefnd um veitingu dómaraembætta. Rök Árna fyrir að hunsa algjörlega álit nefndarinnar eru svo haldlítil að ég tel um lögbrot sé að ræða. Því áliti virðist ég deila með flestum lögfræðingum sem tjáð hafa sig opinberlega um málið. Maður sem brýtur af sér og viðurkennir ekki sök heldur ræðst á þá sem gæta eiga laga og réttar fær yfirleitt þyngri dóm en ella.
Vinur minn sagði: " Er hann [Árni] ekki búinn að vera. " Nei. Hann væri búinn að vera í hvaða siðaða landi sem er. Við látum slíkt gott heita.
það er fleira en fjármálin sem eru í ólestri hjá okkur Íslendingum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2008 | 13:43
Stíflan hækkuð
Stíflan hækkuð
Ég líkti hérna á síðunni vaxtahækkunum Seðlabanka við stíflu. Hún hlyti að bresta einhvern tíman.
Eins og Vilhjálmur Egilsson hefur haldið fram er stífla þessi byggð á ótraustum grunni. Alltaf er hún hækkuð í hverri rigningu svo haldið sé áfram með samlíkinguna.
Seðlabankinn reiknar með að það hætti að rigna og þá sjatni vatnið. Það er hugsanlegt. Það er líka hugsanlegt að það haldi áfram þangað til allt brestur.
Ég hef haldið uppi mikilli gagnrýni á þessa stefnu af því ég óttast að verið sé að taka áhættu með framtíð þjóðarinnar.
Einn hagfræðingur sagði að það tæki tugi ára að ná niður skuldum sem safnast hafa fyrir í þeirri ofgnótt lánsfjármagns sem verið hefur síðustu ár.
Hvernig sem fer þá kemur að skuldadögunum.
Krónan styrkist um 4,23% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2008 | 13:24
Samtrygging eða kapítalismi
Hún var kona um fertugt, fráskilin og tæp á heilsu með tvö börn á sínu framfæri. Hún átti engar eignir en borgaði leigu af tveimur herbergjum sem hún hafði með þrifum fyrir fjölskylduna í stóra húsinu sem hún bjó í. Allir í kringum hana voru ríkir. Flestir voru einhvers konar viðskiptamenn. Þeir höndluðu með hundruð milljarða á dag. Þeir tóku lán til að kaupa hlutabréf og eignir erlendis og þeir græddu fé. Sumir sögðu að þeir tækju of mikla áhættu en gróðinn var svo mikill og eiginfjárhlutfall hagstætt að hjáróma raddir þeirra sem vöruðu við heyrðust ekki.
Ríkisstjórn, Seðlabanki, háskólar, lærðir menn og gáfaðir spiluðu með. Viðskiptaveldin voru eins og spilaborg. Skuldir söfnuðust upp þar til enginn gat treyst gjaldmiðli þjóðar sem skuldaði svona mikið. Innstreymi fjár stöðvaðist. Viðskiptamennirnir hættu að geta borgað af lánum með nýjum lánum. Fjárfestingarnar lækkuðu í verði. Lítið varð eftir nema skuldir. Óhugnalegar skuldir. Það varð gengisfall og menn sögðu að krónan gæti ekki fallið meira hún var að nálgast níutíu krónur fyrir hvern dollar og hún hélt áfram að falla 110 kr. dollarinn og enn féll hann. Ríkisstjórnin varð að redda málum. Samtryggingin var góð þegar á þurfti að halda.
Fráskilda konan gat ekki lengur framfært börnum sínum. Allt var orðið svo dýrt. Sameiginlegur auður þjóðar farinn gjaldþrot þjóðar. Erlendir Seðlabankar bjarga með afarkostum.
Ekki var það konan sem fékk gróðann og velmegunina þegar allt lék í lyndi. Á hennar baki lentu skuldirnar eins og örðum landsmönnum. Þannig vilja þeir hafa það. Þeir hirði gróðann en skuldunum sé jafnt dreift á alla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2008 | 13:58
Vinna þeir fyrir launum sínum.
Nýleg frétt sagði að gjaldeyrisvarssjóður sem Seðlabankinn á að halda uppi sé í lágmarki. Hvað voru mennirnir að hugsa?
Aðgerðir þeirra að halda niður verðbólgu með því að dæla hingað inn erlendu lánsfé og þannig að lækka verð á erlendum gjaldeyri var álíka og að stífla læk. Það helst þurrt fyrir neðan þar til stíflan brestur - fyrirsjáanlegt flóð er nú komið. Innstreymi fjár að láni getur aðeins verið tímabundið. Bréfin voru til skamms tíma og stíluð upp á að ná skammtíma vaxtagróða og flýja í tíma þegar að fyrirsjáanlegu hruni kæmi.
Ef Seðlabankinn hefði aukið verulega varasjóð í góðærinu hefði verð á gjaldeyri farið eitthvað upp þ.e. hann hefði þá tekið af markaðnum gjaldeyri. Nú gæti hann ráðstafað honum til þess að hafa aðgengilegan gjaldeyri til að greiða niður skuldirnar sem hann vissi að myndu falla. Sveiflan hefði verið minni. Skammtíma árangur gegn verðbólgu hefði ekki verið eins mikil en langtímaáhrifin meiri.
Enn eitt dæmið um það hversu gagnslítið er að hafa afdankaða stjórnmálamenn við stjórnvölin. .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2008 | 17:03
Lausnin finnst í skilningi.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvaða hagsmuni Kínverjar hafa af því að halda Tíbet. Landið er fátækt fjallaland. Skilyrði til landbúnaðar þar eru ákaflega erfið fyrir og veðurfarssveiflur síðustu áratuga hafa gert þær verri.
Skýringin kom fyrir skömmu. Það er hernaðarlegt mikilvægi landsins sem skýrir þennan áhuga. Kínverjar hafa deilt við nágranna sína Indverja og Rússa og telja að Tíbet sé þeim nauðsynlegt. Með sömu rökum hefðu Bandaríkjamenn geta réttlætt yfirráð yfir Íslandi á tímum kaldastríðsins.
Fjöldi og hernaðarlegur og efnahagslegur styrkur Kínverja er slíkur að það þarf meira en fámenna fjallaþjóð í stóru landi til þess að stöðva þá í því sem þeir telja rétt Lausnin gæti verið sjálfstjórn Tíbeta án fullveldis eða óriftanlegur varnarsamningur þar sem Kínverjar bæði sæju um varnir Tíbet og fengju þar aðstöðu fyrir þær varnir sem þeir telja nauðsynlegar.
Pelosi ræddi við Dalai Lama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2008 | 16:47
Hvað er til ráða.
Þó svart sé framundan samkvæmt allri skynsemi þá er ljóst að fáir verða ríkir á skynsemi einni saman. Menn verð ríkir á bjartsýni. Þess vegna koma menn seint út úr efnahagslegri lægð. Þá ríkir svartsýni og allir halda að sér höfnum.
Eins og ég hef sagt þá eru skuldir okkar ógnvænlegar. Það setur okkur takmörk í fjárfestingum. Bankarnir eru spyrtir saman við ríkissjóð þar sem ríkisstjórnir í siðuðum löndum hlaupa undir bagga þegar hætt er við hruni slíkra stofnanna. Bankarnir okkar hafa hins vegar ekkert hagað sér eins og bankar í siðuðum löndum en það er nú önnur saga.
Ég held að við getum enn virkjað og selt orkuna jafnvel dýrar en hingað til - þrátt fyrir kreppuna í heiminum. Það er hugsanlegt að slíkar framkvæmdir verði til þess að fleyta okkur yfir versta hjallann. Þá spyr maður sig hvaða stjórnmálaflokkur getur staðið fyrir slíku. Eru það flokkarnir sem komu okkur í þennan hrikalega vanda eða eru það hinir sem vilja að dútl við hannyrðir í sveitum geri það.
Ég vil vernda náttúruna. Hver vill það ekki. Við lifum þannig lifi að ekki verður komist hjá því að fórna einhverju. Nú er ekki tíminn til að stöðva framþróun sem veitir mikla vinnu og miklar tekjur jafnvel þó það kosti nokkrar fórnir. - Skiljum þó Gullfoss eftir.
Spurningunni um hverjum sé treystandi læt ég ósvarað. Hlustið eftir því hverjir komi með hugmyndir sem líklegar eru til þess að auka útflutningsverðmæti okkar verulega.
20.3.2008 | 18:53
Davíð hrósar sigri
Davíð Oddsson reynir nú að telja fólki trú um að hávaxtastefnan hafi verið rétt. Hvað er verðbólga miðað við þá hryllilegu stöðu sem nú er komin upp. Skuldasöfnun er afleiðing hárra vaxta þó hún hafi átt að virka í þveröfuga átt. Þeir gátu séð þetta fyrir löngu og snúið ofan af vitleysunni. Þeir sem stjórna seðlabankanum hafa reynst algjörlega óhæfir. Spurningin er hvort þeir hafi ekki sýnt refsiverða vanrækslu í starfi. Hvers á annars að búast við af afdönkuðum stjórnmálamönnum.
19.3.2008 | 13:31
Hærra bensínverð í Evrópu
Bensínverðið hjá okkur hækkar með breyttu gengi. Bensínverð í Evrópu breytist eins þ.e. hækkar miðað við íslenskar krónur þó það breytist ekkert í evrum eða dönskum krónum. Breytingar á bensínverði upp á síðkastið má sem sagt rekja til breytingar á verðmæti krónunnar en ekki sveiflum á erlendum mörkuðum eins og oft áður. Þetta fer versnandi sjá næstu grein
Bensín dýrara í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 12:09
Tíuþúsund milljarðar
Ég er að reyna að skilja 10 þúsund milljarða, en það er sú tala sem lítil eyþjóð sem telur um 300 þúsund sálir skuldar 1013 lesið 10 í þrettánda veldi krónur. Þegar ég svo deildi þessu með mannfjöldanum hér á landi komst ég að því að litla fjölskylda sonar míns sem var að gifta sig um daginn skuldar 100 milljónir ef þessari upphæð yrði jafn dreift.
Ef við veltum fyrir okkur hvaða framleiðsluverðmæti standa á bak við þetta. Heildarframleiðsla okkar á rafmagni er um 2000 megawatt. Kárahnjúkar kostuðu um 110 milljarða og eru 690 megawatt. Ef allt væri nýtt hjá okkur og stofnkostnaður sá sami væri verðmæti allrar raforkuframleiðslu okkar 3-400 milljarðar. Ef við reiknum þá upphæð upp miðað við nýtt gengi má teygja verðmætið upp fyrir 500 milljarða. 10 þúsund milljarðar er svo 20 sinnum sú upphæð. Augljóst er að verðmæti virkjananna nemur aðeins broti af því sem hér er reiknað vegna viðhaldskostnaðar og gamalla raforkusamninga.
Við erum búin að temja okkur lífsmáta sem líkist frekar olíufurstum en smáþjóð í köldu og erfiðu landi. Þessi lifnaður okkar er ekki byggður á tekjum heldur tekinn að láni. Skuldirnar eru ekki bara á breiðu bökunum. Þær eru á litlum sem stórum fyrirtækjum og einstaklingum sem mega ekki við þeim samdrætti sem nú er. Það blasir ekkert við nema gjaldþrot, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Þá koma þeir ekki sem stýrt hafa þessu brjálæði með fúlgur inn í þjóðfélagið okkur til bjargar. Rotturnar flýja fyrst. Jafnvel maður sem talinn er einn af fimmhundruð ríkustu mönnum heims getur ekki einn bjargað okkur þó hann legði allt sitt í það verkefni. Hann getur ef til vill sett upp borð við höfnina og boðið fátækasta fólkinu súpu eins og Thor Jensen gerði í forðum.
Af hverju vissum við þetta ekki fyrr? Af hverju sagði enginn neitt? Af hverju gripu stjórnvöld ekki í taumana? Jafnvel þó ekki væri heimskreppa er ástandið skelfilegt. Stöðugt hefur verið talað við ráðamenn og greinendur banka. Þeir hafa velt sér fram og til baka í því hvort lendingin yrði hörð eða mjúk. Hvílík blekking. Hvílík blekking að vel hafi verið stjórnað, þjóðin rík og allt í lukkunnar velstandi. Ríkisstjórnir síðustu ára hafa leyft kókaínsniffandi þotuliði að rústa efnahagslegum grundvelli Íslendinga sem tók okkur 200 ár að byggja upp. Til að þeir geti nú örugglega sniffað áfram eftir að hafa misst einkaþoturnar verður tollgæsla minnkuð.
Þessir pótintátar hafa síðan skammtað sér kjör í ellinni sem er úr öllu samhengi við kjör annarra. Það sýnir andann heiðarleikann eða hitt þó heldur. Stjórnendur landsins eru alltaf óábyrgir og geta gert það sem þeim sýnist. Vörn okkar dómstólarnir eru fullir af leppum þeirra svona til öryggis. Réttur borgaranna til að rísa gegn stjórnvöldum leita til dómstóla um lögmæti gerða þeirra þegar þeir rústa þannig efnahagi heillar þjóðar er enginn.
Guð verndi okkur á erfiðum timum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.2.2008 | 17:46
Nútíma genahreinsanir
Vinur minn sagði við mig á kaffihúsi í dag að menn töluðu eins og heimurinn væri að farast. Hefur það ekki alltaf verið þannig? Spurði ég og tók nokkur dæmi. Við Íslendingar segjum; þetta reddast
Þetta leiddi síðan til annarar spurningar af minni hálfu. Hvað á mannkynið langt eftir ólifað. Vinur minn taldi að við værum sko ekki á vonarvöl og gætum brugðist við hvaða aðstæðum sem væru næstum því og lifað af sem dýrategund þó margir einstaklingar dæju. En hvað með úrkynjunina? Við verndum og hjálpum þeim sem eru með gölluð gen og þeir fjölga sér Þetta skiptir litlu fyrstu 500 árin eða svo en hvað eftir 10 þúsund ár?
Hitler sálugi og hans skoðanabræður vildu hreinsa mannkynið af óæskilegum genum. Eftir slíkar aðfarir má ekki minnast á neitt sem heitir genahreinsun.
Ég spyr tveggja spurninga.
a. Er genahreinsun óhjákvæmileg ef við hugsum í tugþúsundum ára í stað þess að álíta alltaf að heimurinn farist á morgun?
b. Erum við ekki byrjuð á genahreinsun með því að grennslast fyrir um arfgenga sjúkdóma í fóstrum og eyða þeim óæskilegu?
Svar við spurningu a) er nei ef við álítum að mannkynið gangi í gegnum þvílíkar hörmungar öðru hverju að náttúran sjái um hreinsanirnar. Til að svo megi verða hljóta hörmungarnar að verða af stærðargráðu sem er næstum því óhugsandi svona viðlíka á heimsvísu og móðuharðindin voru okkur Íslendingum. Jafnvel við slíkar hreinsanir þá ráð genin ekki hverjir lifa og hverjir deyja heldur efnahagur aðstandenda.
Svar mitt við spurningu b er að við séum búin að heimila atriði sem eiga eftir að leiða til genahreinsana og í raun eru byrjaðar.
Af framansögðu sést að ég tel að genahreinsanir séu óhjákvæmilegar þegar litið er þúsund ár fram í tíman eða meir. Ég tel að við séum byrjuð að setja línurnar og jafnvel byrjuð á slíku.
Mér finnst mjög óæskilegt að slíku sé laumað inn án vitrænnar umræðu eins og verið er að gera.
Genahreinsanir Hitlers voru byggðar á hrottaskap, stríddu gegn siðgæðisvitund fólks og var byggð á gervivísindum um yfirburði eins kynsstofns.
Öll genahreinsun er á mörkum þess sem okkar siðgæði leyfir og getur leitt til einsleitni fólks sem aftur gæti leitt til endaloka mannkynsins.
Genahreinsun sem nú fer fram er á valdi foreldra þ.e. þeim er heimilt að láta eyða fóstrum með ákveðna erfðavísa og litningagalla. Það að eyða fóstri stríðir á móti siðgæðisvitund fjölda manna í sjálfum sér og vitræn umræða um fóstureyðingar til genahreinsunar fer ekki hátt.
Það er stutt í það hægt verði að búa til fóstur í glasi, að megin stefnu til af genum foreldra en ákveðnum óæskilegum eiginleikum er breytt strax í upphafi þannig að einstaklingurinn og allir afkomendur hans verði lausir við meingen sem annar eða báðir foreldrar bera. Þetta lofar góðu við fyrstu sýn. Skoðum þetta nánar. Við tökum sem dæmi ætt þar sem sykursýki eða bilun í skjaldkirtli eru arfgeng vandamál. Er ekki sjálfsagt að losa síðari kynslóðir þessara ætta við þá sjúkdóma. Flestir svara því játandi. Sparnaður fyrir þjóðfélagið og þetta eykur lífshamingju allra eftirlifandi. Tökum þá önnur dæmi svo sem einhverja andlega sjúkdóma eða sértæka námsörðugleika. Þegar að slíkum vandamálum er komið er sverðið orðið tvíeggja. Allir mestu snillingar veraldarsögunnar hafa átt við eitthvað slíkt að etja. Eyðum við snillinni með göllunum. Foreldrar vilja væntanlega að barn þeirra lifi eðlilegu lífi og sé heilbrigt en óska þess ekki sérstaklega að það verði þekkt fyrir snilli sína næstu 2000 árin. Ef foreldrar mættu ráða eru líkur á því að slíkum eiginleikum verði eytt.
Það er ekki ætlun mín með þessum skrifum að svara spurningum varðandi genamengi mannsins aðeins að segja þetta. Við verðum að ræða hlutina hleypidóma laust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)