Hungur í heiminum. Erfðabreytt matvæli.

Stríð í heiminum eru sögð milli trúarskoðana og menningarheima. Í flestum stríðum er þó grunnurinn baráttan um brauðið. Í sumar var uppskerubrestur í Rússlandi á hveiti og hefur hann áhrif á framboð á heimsvísu, verð hækkar upp úr öllu valdi. Þetta skiptir okkur vesturlandabúa nokkru. Við þurfum ef til vill að minnka eitthvað munaðinn á móti. Annars staðar munu menn deyja.

 Eiginleikar allra lífvera ráðast af sömu efnaklösunum sem nefnd hafa verið DNA. Þó snúið sé upp á efnið eins og hringstiga getum við hugsað okkur að það sé langur hali af efnum kölluðum bösum. Basarnir eru af fjórum mismunandi tegundum. Fjórir basar geta raðast á mjög mismundandi vegu og má segja að hver möguleiki sé eins og stafur í stafrófi. Við höfum líka tæki sem lesa í þetta stafróf og þannig fæst formúla fyrir lífveru.  Aðal atriðið í þessum skrifum er ekki hvernig þetta á sér stað nákvæmlega heldur það að þessi formúla fyrir skráningu eiginleika milli kynslóða er eins bæði í jurtum og dýrum. Mönnum hefur tekist að flytja eiginleika frá einni lífveru til annarrar. Þær lífverur sem þannig eru gerðar eru kallaðar erfðabreyttar. 

 Í a.m.k. 10 þúsund ár höfum við leikið okkur með erfðaefnið. Í stað þess að flytja eiginleika milli ólíkra tegunda höfum við flutt það milli náskyldra tegunda eða innan sömu tegundar. Með því að leita uppi kvæmi sem ríkust eru af þeim eiginleikum sem við óskum okkur og para þau saman fáum við afkvæmi með æskilegum eiginleikum. Við erum að velja úr erfðamenginu. Munurinn á þessu og erfðabreytingum er að í síðara tilfellinu geta menn farið út fyrir erfðamengi tegunda og farið á milli jurta og dýraríkis í leit að genum. Fræðilega er þannig hægt að flytja alla eiginleika á milli lífvera þó í reynd hljóti margir eiginleikarnir vera þess eðlis að lífveran getur ekki lifað. 

Allt fikt með erfðaefni getur verið hættulegt. Við höfum dæmi um það að með kynblöndun hafi myndast lífverur sem hafa slæm áhrif á umhverfið. Þetta á sérstaklega við þegar lífverur eru fluttar heimshorna á milli og blandað saman. Dæmi um þetta er blöndun afrískra býflugna við evrópskar í Suður Ameríku og úr varð mjög árásargjörn ofurfluga. Við getum hugsað okkur að tóbaksframleiðendur rækti upp tóbaksplöntur sem eru mun eitraðri en þær sem þeir rækta í dag. Engin getur haldið því fram að það sé gott þó eiginleikarnir finnist í náttúrunni. 

 Ástæðan fyrir því að menn velja núna að blanda saman ólíkum tegundum með erfðatækni er einfaldlega sú að þá margfaldast möguleikar á því að fá lífveru með æskilegustu eiginleikana. Það er að sjálfsögðu einnig ljóst að þá margfaldast möguleikarnir á því að fá fram eiginleika sem eru óæskilegir eða jafnvel hættulegir umhverfinu eða mönnunum. 

 Á síðustu öld var hafin ræktun á mink á Íslandi. Hann er dýr sem á sína náttúrulegu óvini í sínum heimkynnum. Hér fundust engir slíkir. Hann slapp út í náttúruna og hafa menn reynt að útrýma honum síðan. Menn hafa misjafnt álit á lúpínu hér á landi og veður hún víða yfir gróður sem okkur er kær. Þetta eru tvö dæmi um nýjar "ofur" lífverur í okkar vistkerfi. Erfðabreyttar lífverur geta fengið eiginleika sem gera þær sterkari en lífverur sem fyrir eru þannig að náttúrulegir þættir sem halda lífverunni í skefjum vinni ekki á henni.  Slíkt getur skapað svipuð eða verri vandamál og dæmið um minkinn og lúpínuna. 

 Erfðabreyting lífvera er ekki eitt fyrirbrigði sem mann geta sagt að sé annað hvort hættulaust eða stór hættulegt. Við getum bæði búið til matjurtir sem eru næringarríkari og hollari og eins matjurtir sem eru óhollar. Við gætum þess vegna ræktað nikontínframleiðslu í hveiti.  Heimurinn er  ein matarkarfa. Það er  ekki skammtað jafnt úr henni. Auðugar þjóðir geta veitt sér þann munað að hafna erfðabreytingum á matvælum. Fjöldi manna á jörðinni eykst stöðugt og meðan svo er verður annað hvort matvælaframleiðslan að aukast eða fleiri deyja úr hungri. Vísindamenn segja að með eldri tækni verði matvælaframleiðslan ekki aukin i þeim mæli sem nauðsynlegt er. Jafnvel geta veðurfarsbreytingar minnkað hana til muna. Erfðabreytt matvæli eru þannig spurning um líf eða dauða og við getum ekki hafnað henni. 

Af framansögðu dreg ég þá ályktun að við höfum tveggja kosta völ. Velja erfðabreytt matvæli og taka ákveðna áhættu eða hafna þeim og drepa milljóna hundruð manna. Ég veðja á framtíð erfðabreyttra lífvera en jafnframt tel ég ljóst að mistök verði gerð með kostnaðarsömum afleiðingum. Við getum minnkað líkur á slíku með ströngu eftirliti og varkárni. Þó ég telji það þá er önnur siðferðileg hlið slíkra erfðatækninnar, hlið sem er vandamál víða, þ.e. einkaréttur ríkra þjóða á tækninni. Þjóðir sem ekki búa yfir erfðatækni eða eiga þær afurðir sem þannig eru til komnar verða háðar tækniþjóðunum með mat. Bandaríkin hafa lokað fyrir matarsölu til Sovétríkjanna sálugu þ.e. þau hafa notað mat sem pólitíska þvingun. Mörgum finnst  það skelfileg tilhugsun. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vegna landfræðilegrar einangrunar Íslands tel ég fráleitt að taka nokkra áhættu í þessum efnum á okkar hreina landi.  Að öðru leyti finnst mér það eiginlega sjálfsagt mál að auka framleiðni á hverja ræktunareiningu til þess einmitt að seðja hungur í þróunarríkjum.

En aldrei megum við gleyma þeirri skyldu okkar sem er þó ríkust og er sú að auka þekkingu þessara þjóða á eigin landi. eigin möguleikum og þó ekki síst því að auka skilning þeirra á hættunni á fjölgun umfram fæðuframleiðslu.

Árni Gunnarsson, 27.8.2010 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband