27.6.2007 | 00:34
Þjóðvegahátíðir á hverjum degi
Ein þjóðhátíðin var kölluð þjóðvegahátíð af því að umferðarmálin voru svo illa skipulögð. Nú eru slíkar hátíðir á hverjum degi. Þegar ég var á heimleið frá helgardvöl fyrir austan fjall byrjaði biðröðin - eftir að komast inn á hringtorgin við Rauðavatn - við Þrastalund. Umferðin silaðist áfram á um 20 km hraða þaðan frá og alla leið að hringtorgunum. Umferðin hefur ekki verið að aukast svo mikið. Svona var þetta áður en tappinn var tekinn á mótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Þegar ein gatnamót eru löguð er öðrum bætt við. Heilt hverfi hefur verið reist í Norðlingaholti og bætt við hringtorgi á veg sem þegar var of mikil umferð á til að hann þoldi slíkt. Umferðarmannvirki á Íslandi virðast hönnuð miðað við umferð sem var en ekki þá sem verður. Íslenskir hönnuðir virðast ekki hafa neina burði til að hanna þau umferðarmannvirki sem þarf. Þeir sem sjá um skipulagsmál hér í borginni virðast gersneyddir getu til að sjá fram í tíman. Tökum dæmi. Nú er búið að reisa gífurlega byggingu á mótum Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar. Það er augljóst að í náinni framtíð verður að gera gatnamótin þarna mislæg. Mikið byggingarland er á Álftanesinu bæði Garðabæjarmegin og Álftanesbæjar megin. Svo er um öll önnur mislæg gatnamót síðari ára. Umferðarljós verða fleiri og leiðirnar bæði hættulegri og torfarnari eftir að hundruðum milljóna hefur verið sóað í brýr. Ástæðan: Engin fyrirhyggja skipuleggjenda.
Þá hefur gengið sú fyrra að almennileg hönnuð mannvirki með greiðum samgöngum kalli á "Ameríska bílaborg". Íslendingar eru ekkert með færri bíla á mann en Bandaríkjamenn. Eina sem sker okkur úr er að þeir kunna að hanna og skipuleggja en við ekki. Það sem á vantar til að gera Reykjavík að bandarískri bílaborg sem Dagur B. Eggertsson notar sem skammaryrði er ekki bílafjöldinn. Eini munurinn á Reykjavík og amerískri borg er að hér hafa menn enga framtíðarsýn og umferðarmannvirkin komast ekki fyrir vegna nýlegra skipulagsmistaka. Draumur Dags er um fleiri slík mistök eins og þau að eyða hundruðum milljóna í breytingar á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem gerðu ekkert gagn og hafna mislægum gatnamótum.
Á hraðbrautum eru sjaldan slys þó þau verði mjög alvarleg þegar þau eiga sér stað. Það er vegna þess að mannvirkin eru hönnuð rétt. Þar er mjög mikill umferðarhraði og umferð oft mjög mikil. Þeir sem ekki vilja vel hönnuð umferðarmannvirki vilja fórna á altari heimskunnar lífi og peningum.
Ég er ekki verkfræðimenntaður og ég sé mörg tækifæri á einföldum breytingum sem gætu liðkað fyrir umferðinni. Lengingar af- og aðreina, hringtorg o.þ.l. Ég hef orðað slíka möguleika sem mér hafa verið ljósir í mörg ár og síðan hafa verið framkvæmdir og bótin er augljós.
Í umræðu við vini mína þá hafa þeir spurt: Aka þessir menn ekki í bíl. Skoðun sem Dagur hefur þorað einn að orða - skoðun um skipulagsleysi og heimsku virðist vera í kolli fleiri. Mér finnst að það ætti að birta nöfn þessara heimsku hönnuða enda eru mannslíf í húfi.
Reykjavík hefur verið hönnuð með það í huga að við erum fá í stóru landi og nóg svæði til að byggja á. Það kostar samgöngur. Almenningssamgöngur hafa einfaldlega ekki veri samkeppnisfærar við einkabilin ef borið er saman verð og þjónusta. Slæm umferðarmannvirki auka ekkert strætóferðir því almenningsvagnar eru í sömu súpunni og einkabíllinn. Við bætast krókar sem strætó fer og öll stoppin og bið eftir vögnum, vagnaskiptin og útkoman verður gjörsamlega ónothæft kerfi. Þá hafa aðrar þjóðir gefist upp á þessu lögmáli heimskunnar og séð að það gengur ekki upp.
Ef við höfum ekki íslenska hönnuði - fáum þá ameríska.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála þessari grein þinni Jón/þetta er ekki hægt lengur,svona getum við talað sem höfum ekið mikið í USA og þetta er það sem þarf,að láta amerísku bara gera þetta/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 27.6.2007 kl. 12:18
Það eru mörg mistökin í Íslensku vega og gatnakerfi. Eitt af þeim verstu eru hversu mörg gatnamót eru í raun óþörf þar sem hægt væri með auðveldum hætti að leggja götu meðfram aðalgötunni að næstu gatnamótum. Þannig er þessu háttað með hringtorgin við Rauðavatn. Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna þarf að vera hægt að keyra báðu megin inn í Norðlingaholtið. Þar að auki er nýrra hringtorgið algerlega fáránleg hönnun, sérstaklega með tilliti til stórra bíla. Maður snýr næstum því við þegar maður keyrir inn á það af Suðurlandsveginum. Því miður mun tvöföldun Suðurlandsvegar gera lítið gagn þegar svona tappar eru á báðum endum.
Helgi Jónsson, 1.7.2007 kl. 02:53
Þetta er eins og talað út úr mínum munni Helgi
Jón Sigurgeirsson , 1.7.2007 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.