Færsluflokkur: Dægurmál

Eftir góða þjóðhátíðarhelgi

Ég fór út á land um helgina og gisti á tjaldstæðinu við Vík í Mýrdal. Þar átti að vera þurrt en var bæði úði og nokkuð hvasst þegar við komum þangað. Við vorum með hjól með okkur og það var bara gaman að reyna hjóla á móti vindinum sem var að vísu ekkert ofsarok en reyndi mátulega á okkur þegar vætunni var bætt við.

Ég er nýlega búinn að uppgötva hversu frábært er að vera Íslendingur. Að vísu dregur úr áhuganum í allri vætunni, klakanum og rokinu og dimmunni yfir svartasta skammdegið en þó endurnýjast maður allur þegar fer að vora. Maður hagar sér eilítið eins og kýrnar sem sletta úr klaufunum þegar þeim er sleppt út í fyrsta skiptið.

Ég hef velt því fyrir mér að búa erlendis a.m.k. yfir dimma tíma ársins sem fer verulega í mig en alltaf komist að þeirri niðurstöðu að best sé hér að búa.

 Sólin og Danski kúrinn hefur læknað bæði sál og líkama og nú einbeiti ég mér að sundi, hjólreiðum og því um líku.

Ég hugsa ekkert til þess að bráðum kemur nýr vetur og nýtt hýði til að leggjast í. Finna afsakanir til að fara ekkert út. Það er svo vont veður og þegar glætan kemur þá er rútínan farin og ekkert verður að góða ásetningnum. Ég veit það að eftir það kemur nýtt vor með nýjum ásetningi.

Ég verð að reyna að halda heilsu því ekki er víst að velferðarsvið sveitarfélagsins sinni mér þó lífið liggi við og ég verði hægfara étinn af fuglalifrum.

 

 

 


Karrý on

 

Já það er karrý sem er umræðuefni þessa pistils. Sum okkar hafa tröllatrú á náttúrulækningum og helst flestum sem ekki eru menntaðir í venjulegri læknisfræði.

Í nútíma þjóðfélgi þá trúum við á vísindin. Við gerum þær kröfur til þeirra að þau leysi öll okkar vandamál. Læknisfræði er hluti af vísindunum og læknar mega ekki vera mannlegir og gera mistök enda kostar það stundum okkur sjúklingana lífið. Það er líklega þess vegna sem mér datt ekki í hug að læra læknisfræði enda með afbrigðum mannlegur að þessu leiti.

Að sjálfsögðu eru "gervilæknarnir" ekki fullkomnir. Við gerum heldur ekki kröfu til þeirra að þeir séu það. Þegar einhver læknast sem fer til slíks þá er það undur og stórmerki en ef lækni tekst vel upp er það bara af því honum tókst að vinna vinnuna sína skammlaust í það skiptiðþ

Læknavísindin teygja sig alltaf öðru hvoru yfir í óhefðbundnar lækningar. Það eru komnir áratugir síðan ég las það að læknanemar í bandaríkjunum væru ekki aðeins valdir eftir námsframistöðu heldur einnig eftir mannlegum þáttum í líkingu við óhefðbundna lækna. Slík atriði hafa áhrif. Ætli það sé ekki af slíkum ástæðum sem var spurt út í Barbapabba á inntökuprófi hér á landi.

Nú er verið að rannsaka fyrirbrigði sem hefur veirið notað til lækninga í yfir fimmþúsund ár og við höfum líka étið í langan tíma. Það er Karrý. Í nýjasta hefti Scientific American er fjallað um þetta töfralyf. Það á að auka minni gamalmenna - hafa læknandi áhrif á sum krabbamein, Alzheimar og elliglöp svo eitthvað sé talið. Ég var búinn að ákveða að éta karrý í hvert mál það sem eftir var lífsins. þeir eyðilögðu það að vísu. Þeir sögðu að slíkt lyf sem hefði svo víðtæk áhrif gæti einnig valdið einhverju sem ekki væri eins æskilegt. Ætli maður éti karrý aðeins eftir læknisráði í framtíðinni.

Hér er meðalhófið best eins og oftast.


Björgum heiminum

JarðgerðUmhverfissinnar eru margir uppteknir af einum litlum drullupolli þegar allt vatnið er að mengast. Tökum sem dæmi að berjast hatramri baráttu og virkja helstu áhrifamenn í þjóðfélaginu til að berjast gegn því að fáeinum hvölum sé slátrað þegar allt lífríkið er í hættu vegna  mengunar. Það að taka á vandamálunum er of stórt og því er ráðist á einhverjar smá misfellur og þær helst sem eru í annarra garði. Þú villt ekki vera hataður heima hjá þér. (Þess vegna dáist ég af hvalaverndunarsinnunum íslensku).

 Við getum verið á móti virkjunum í Þjórsá eða við Kárahnjúka.  Ég er hvorki með ná á móti virkjunum. Ef þær eru notaðar rétt þá geta þær verið uppspretta mengunarlausrar eða -lítillrar orku sem kemur á móti notkun á þeim orkugjöfum sem eru að bylta öllu lífríki jarðar með því að valda ófyrirsjáanlegum hitabreytingum. Það er ljóst að við slíkar hamfarir eiga fjöldi tegunda eftir að líða undir lok.

Ég er talsmaður mengunarskatts. Ekki til þess að auka tekjur ríkisins heldur til þess að flytja fé á milli: - til  þeirrar starfsemi sem er umhverfisvæn og frá þeirri mengandi. Ef hver og einn greiðir t.d. af eldsneytiskaupum sínum fyrir ræktun trjáa sem binda mengunina  þá eykst með þvi atvinna í sveitum án þess að um beina ríkisstyrki sé að ræða. Olíufélögin gætu boðið út ræktunina. Vottunarstofur staðfesta að landið sem rækta á sé staðsett þannig að nægur vöxtur verði á trjágróðri þar og fylgjast síðan með vextinum og mæla þannig bindinguna.

Að sjálfsögðu yrði að koma upp heilmiklu eftirliti en það er svo sem ekkert örðuvísi en með annarri skattlagningu. Peningarnir ættu samt helst ekki að blandast í ríkiskassann.

Ég er talsmaður þess að Íslendingar reyni að vera í fararbroddi í þessum efnum.  Því hefur verið haldið fram að þeir sem riðja brautina græða að lokum vegna sölu á þeirri tækni sem til verður. Evrópa er í startholunum Bandaríkin draga lappirnar. Þó við séum aðeins agnarsmá í stórum heimi  þá hefur íslenskt efnahagslíf sýnt að það er sveigjanlegt og fljótt að bregðast við - jafnvel yfirburðargott að þessu leyti.

Ef við tökum upp stefnu sem er umhverfisvæn á heimsvísu, þá getum við ná yfirburðarstöðu á einstökum sviðum umhverfisþróunar sem gæti átt eftir að skapa hér mikinn auð.

Í stað þess að deila um einstaka fossa eða jarðhitasvæði þá ættum við að kortleggja möguleikana sem eru sýnilegir í augnablikinu, gera hressilega áætlun um nýtingu þeirra í umhverfisvæn verkefni (sem álframleiðsla getur verið) og forgangsraða virkjunarkostunum þar sem þjóðin fær að sjá möguleikana, fórnarkostnað og vinningsmöguleika. Sérfræðingar verði fengnir til að meta fjárhagsleg og umhverfisleg áhrif og þjóðin látin velja.

Við erum með sterka menn á báðum endum - virkjunarsinna og umhverfissinna. Náum sæmilegri sátt.

En í öllu falli gerum eitthvað róttækt strax.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband