Af hverju ekki Ólaf sem forseta

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í fyrsta skipti fékk hann minnihluta atkvæða. Hann hafði fortíð sem útilokaði hann sem sameiningartákn þjóðarinnar. Þeir sem ekki hafa aldur til að muna svo langt aftur eða eru búnir að gleyma geta tekið hvern þann stjórnmálamann sem er sem hefur aðrar lífskoðanir en þeir og spurt sjálfan sig að því hvort hann geti orðið sameiningartákn þjóðarinnar. Ástæðan fyrir því að hann hlaut kosningu var einfaldlega sú að atkvæði andstæðinga hans dreifðust á fleiri frambjóðendur og þess galla í kosningakerfinu að ekki sé kosið um tvo efstu. Ef svo hefði verið hefði Ólafur aldrei náð kjöri.
Nokkrir af þeim sem styðja hann nú muna ekki lengra aftur en til þess tíma þegar hann bjargaði okkur frá þeirri vitleysu ríkisstjórnarinnar sem voru Icesafe samningarnir. Ég ætla þess vegna að fara yfir feril beitingar synjunarréttar.
Enginn forseti Íslands hefur beitt þessu ákvæði. Þegar ég var í lagadeildinni var því haldið fram að hugsanlega mætti beita því við mjög afbrigðilegar aðstæður. Ég lít svo á að slíkar aðstæður hafi myndast við hrunið og gagnrýni ekki synjun hans við nefndum lögum.
Þegar hann beitti fyrst þessu ákvæði voru ekki uppi slíkar aðstæður. Þá hafði þingið samþykkt lög sem áttu að minnka áhrif þeirra sem stálu bönkunum innanfrá á fjölmiðla. Með gífurlegum áróðri tókst bankaræningjunum að snúa almenningsálitinu sér í hag og fengu þeir síðan forsetann í lið með sér til að stöðvað þinglega niðurstöðu þegar engar sérstakar eða óvanlegar aðstæður voru í þjóðfélaginu. Með þessu gerði Ólafur næstum útilokað fyrir stjórnvöld að berjast gegn bankaþjófunum. Í framhaldi af þessu varð forsetinn fremstur í flokki þessara manna og talaði máli þeirra út um heiminn.
Sá forseti sem þetta gerði verður aldrei sameiningartákn fyrir Íslenska þjóð. Hvort sem þú lesandi góður styður hann eða ekki hlýtur þér að vera þetta ljóst. Því miður er hætta á því að hann komist að af sömu ástæðum og áður. Andstæðingar hans dreifa atkvæðum sínum á marga frambjóðendur. Hann sigrar ekki vegna þess að hann sé þess verður heldur vegna gallaðs kosningakerfis.
Mér finnst sorglegt að margir glæsilegir frambjóðendur bjóði sig nú gegn honum. Ég vildi sjá eina glæsilega konu í framboði, konu sem er óumdeild, vel menntuð og hefur örugga en alþýðlega framkomu og getur sameinað okkur á ný eftir erfiða tíma. Ég vildi óska að menn kæmu sér saman um eina slíka í stað þess að dreifa kröftum andstæðinga Ólafs. Við getum það með því að velja öll þegar í kjörklefan er komið þann frambjóðenda sem líklegastur er að fella Ólaf samkvæmt skoðanakönnunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Forsetaembættið sinnti dyggilega því hlutverki að hjálpa íslenskum fyrirtækjum á erlendri grundu á uppgangsárum. Á þeim tíma virtist öll þjóðin standa þéttingsfast að baki hugmyndarfræði um algjöra yfirburði íslendinga í viðskiptum og gagnrýnisraddir fátíðar. Í raun var það svo að þegar danskur banki bar upp varnaðarorð árið 2006 var málsvörn okkar Íslendinga sú að Danir væru hreinlega öfundsjúkir. Vissulega hefði verið óskandi ef forseti hefði á sínum tíma, einn á móti straumnum, séð hlutina með sömu augum og við sjáum nú í baksýnisspeglinum. Sjálfur tel ég reyndar ólíklegt að slíka spádómsgáfu sé að finna hjá öðrum frambjóðendum.

Hlutverk forseta er takmarkað og því virðist mér nokkuð einfalt að mæla árangur í starfi. Menn geta haft ýmsar skoðanir á Icesave langhundinum, en hitt er þó alveg ljós að þeir umframvextir sem Íslendingar væru með óafturkræfum hætti búnir að greiða í vaxtagjöld vegna fyrsta samningsins næmu nú 1-2 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Vil ég hvetja þá sem hafa hug á því að "fella núverandi forseta" í kjörklefanum að millifæra samsvarandi fjárhæð inn á vel valið góðgerðafélag og sýna þannig hug sinn í verki. Þá fyrst myndi gagnrýni á störf forseta, réttmæt eða óréttmæt, láta gott af sér leiða.

Ziggy Jonsson (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 03:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Áður en við gagnrýnum forsetann fyrir að vinna að útrásinni fyrir hrun, verðum við að skoða hvernig tíðarandinn var hérna. Þú sem minnist ársins 1996 ætti að vera auðvelt að hugsa til áranna 2006 - 2008 og hvernig þjóðfélagið var þá. Þeir örfáu sem höfðu kjark til að gagnrýna útrásina voru litnir hornauga og því miður voru allir fjölmiðlar vel flæktir í vef þeirra sem réðu landinu, fjármálaaflanna. Það er hætt við að ef forsetinn hefði tekið sér sæti gegn þessu ástandi, þá hefði honum vart verið vært.

Það er gott að vera eftirá spámaður, þeim ratast oftar sannar á orð en þeim sem reyna að spá um framtíðina. Vissulega hefði verið gott að vita þá það sem við vitum nú. En því miður dugir sú vitneskja þó ekki öllum. Núverandi stjórnvöld virðast lítið hafa lært.

Það er hverjum degi ljósara að hver sá sem hefði verið forseti á uppgangsárum útrásarguttanna, hefði hagað sér á svipaðann hátt. Kannski með einhverjum blæbrigðum, en að eðli til á nákvæmlega sama hátt. Þó erftirá spámenn haldi öðru fram, eru þeirra orð jafn marklaus og ósögð orð!

Gunnar Heiðarsson, 8.4.2012 kl. 10:01

3 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Athugasemd vegna Gunnars.

Það er mikið rétt hjá þér nema að því leytinu að enginn forseti annar hefur synjað lögum samþykkis. Það er eins og ég segi réttlætanlegt þegar stjórnvöld ætla að gera þjóðina gjaldþrota en ekki þegar hún vill auka hlutleysi fjölmiðla. Þakka þér annars fyrir athugasemdina.

Jón Sigurgeirsson , 10.4.2012 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband