Siðlausir Gunnarar.

Gunnar Birgisson veitti dóttur sinni verkefni sem hann hafði umsjón með á hennar sviði, bæði sem bæjarstjóri Kópavogs og stjórnarformaður LÍN.

Viðbrögð stjórnmálamanna við þessu eru vægast sagt hógvær. Beðið er eftir einhverri endurskoðun sem undirmenn Gunnars sjálfs eru að framkvæma. Hvað á að rannsaka veit ég ekki.

Gunnar líkir því að gerð er athugasemd við þetta við árás stjórnarandstöðu á Ólaf Thors. Hins vegar er það almennt talið af þeim sem eru skyldir Ólafi að fjölskyldufyrirtækið og ættingjar Ólafs hafi liðið fyrir þátttöku hans í stjórnmálum en ekki öfugt. Ég hef ekki heyrt fyrr að hann hafi verið siðblindur eins og Gunnar bæjarstjóri eða legið undir slíku ámæli.

Ég segi að Gunnar Birgisson sé siðblindur. Ég tel það vera siðblindu af versta tagi að telja að ekkert ámælisvert sé við það sem hann hefur þó játað að hafa gert.

 Við skulum segja sem dæmi að dóttir Gunnars hafi verið leigubílstjóri þegar þeir höfðu fasta verðskrá. Gunnar hafi síðan  aðeins skipt við hana eða aðallega skipt við hana vegna leigubílaferða fyrir bæjarstjórnina. Bærinn hefði ef til vill ekki tapað fé á þessu en leigubílstjórar hefðu ekki setið við sama borð. Það er grundvallar regla í stjórnsýslu að menn eiga að njóta jafnréttis gagnvart henni óháð skyldleika við ráðamenn. Sú regla myndi hafa verið brotin.

Nú er ekki föst gjaldskrá hjá þeim sem veita þá þjónustu sem dóttir Gunnars veitti. Með því að veita verkefnum til hennar getur verið um það að ræða að mögulegt hefði verið að fá verkefnin gerð ódýrar annars staðar. Sá mismunur sem þannig er fenginn er þannig tekinn úr bæjarsjóði og veitt til nákominna. 

Nú skulum við segja að önnur sveitarfélög hafi fengið sömu þjónustu fyrir sama eða hærra verð eftir verðkönnun  og þannig hefði bæjarsjóður ekki orðið fyrir tjóni. Eftir sem áður þá rýrar slíkir starfshættir ráðamenn trausti.

 Nú er íslenskt samfélag í rúst m.a. af því að stjórnendur banka lánuðu ótæpilega til eigin fyrirtækja og sátu þannig beggja vegna borðsins. Eigum við að halda uppteknum hætti eða eigum við að siðvæða íslenskt samfélag.

 Gunnar í Krossinum kom fram á fundi og virtist vera að veita sína blessun og þess guðs sem hann telur sig umboðsmann fyrir á gerðum nafna síns.  Það er ekki sá guð sem séra Gunnar Árnason kenndi mér að trúa á í Kópavoginum í æsku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband