Bjartsýni

Ég hlustaði á Pétur Blöndal á Hrafnaþingi núna áðan. Ég veit ekki hvort hann hafi verið raunsær en hann var bjartsýnn og hann rökstuddi bjartsýni sína vel. Það verður minna um utanlandsferðir og eyðslu ýmis konar á næstunni, ef til vill næstu árin. Við skulum ekki hafa áhyggjur af því. Við getum notið lífsins án þess að fara í siglingar tvisvar á ári. Það sem kreppan færir okkur er tækifæri til endurskipulagningar. Hún veitir nýjum hugmyndum sem kafnað hafa í ofuráherslu á þá atvinnuvegi sem fyrir eru lífsvon.

 Gallinn við efnahagslífið íslenska er að okkur dettur eitthvað í hug og allt þjóðlífið snýst um það í framhaldinu. Þannig verður atvinnulífið einhæft. Þegar ein atvinnugrein vex okkur yfir höfuð eins og bankabissnissinn hefur gert þá dregur hún að sér hæfileikafólkið, vel menntað og spillir þannig fyrir öðrum sem geta ekki keppt við bankana um laun.

Fyrst lifðum við á landbúnaði, síðan tóku fiskveiðar við, nokkur stutt ævintýri í hliðarspor og loks bankarnir. Þegar fiskurinn var aðalatriðið réðst gengið af fiskverði og allir aðrir atvinnuvegir máttu blæða fyrir gengi sem hentaði þeim ekki - allt í nafni sjáfarútvegs.

Í framtíðinni eigum við að stefna að mikilli fjölbreytni í atvinnulífinu. Ál er gott en það getur líka orðið of stórt fyrir okkar atvinnulíf. Ef við getum selt orku til annars konar iðnaðar á jafn hagkvæman hátt þá eigum við að gera það vegna fjölbreytninnar.

Sparnaður er vinna. Þegar ég ákveð að spara í heimilisrekstrinum þarf ég að fara yfir alla þætti og reikna út hvað borgar sig. Þannig eigum við að fara yfir þjóðarútgjöldin. Getum við beitt opinberum aðgerðum til þess að hafa áhrif á fólki til sparnaðar. Getum við t.d. veitt ívilnun til þeirra sem keyra metan eða rafmagnsbíla sem nota innlenda orku? Hvað borgar sig í þeim efnum. Borgar sig að leggja meiri áherslu á strætó í kreppunni, lækka gjöldin og fjölga ferðum? Grundvallar hugsun mín í sparnaði heimilisins er að spara allt það sem veitir mér lítið miðað við kostnað til þess að hafa efni á því sem veitir mér meira. Þannig getum við hugsað sparnað þjóðarinnar. Hvað er mikilvægast fyrir okkur sem þjóð. Ég tel eitt af því mikilvægasta sé að enginn líði skort þ.e. allir hafi í sig og á og hafi húsaskjól.  

Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir um að virkja fólk sem missir vinnuna til hugmyndavinnu og úrvinnslu. Sumir eru hugmyndaríkir aðrir eru góðir í úrvinnslu hugmynda. Bankamenn eru margir góðir í því að skipuleggja fjárhagslegan grundvöll  og rekstur, nokkuð sem nauðsynlegt er til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Sprotahugsjónin sem Björk vinnur að er frábær og leið til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná það er gott Ísland, með fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli velmegun og velferð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já satt er orðið"batnandi manni er best að lifa"Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 2.11.2008 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband