Framleiðum alla þá orku sem við getum.

Sumir sérfræðingar segja að nóg sé til af olíu og aðrir að hún fari ört þverrandi. Allir eru þó sammála um að þær vinnsluaðferðir sem beita þarf til að ná þeim olíudropum sem eftir eru eru mun dýrari en þær sem stuðst hefur verið við hingað til. Tími ódýrrar olíu er liðinn þó verðið eigi eftir að lækka eitthvað frá því sem nú er.

Með þá staðreynd í huga að enginn annar orkugjafi getur umsvifalaust tekið við af olíunni og ferðamannaiðnaður byggir á ódýrum fargjöldum milli landa er þá besti kostur okkar Íslendinga að veðja á þá iðju sem framtíðaratvinnuveg okkar.

Við höfum baðað okkur í lúxus sem ódýra olían hefur veitt okkur. Það er ekki víst að við getum það um ókomna tíð.

Við verðum að draga úr því eða neita okkur um það sem kostar mikla jarðefnaorku. Þar má nefna að aka um á orkufrekum bilum, skjótast stöðugt milli landa af litlu tilefni, jafnvel á milli landshluta. Því fyrr sem við tileinkum okkur breyttan hugsunarhátt því betra.

Í heimi með þverrandi orku koma lönd misvel út. Sum þeirra sleppa nærri alveg við áföll og önnur ráða ekki við að brauðfæða íbúana. Við sjáum nú hvaða áhrif hækkandi matvælaverð hefur. Matvælaaðstoð til handa hungruðum heimi hefur sama fjármagn og áður en maturinn kostar meira. Það þýðir aðeins eitt; færri fá mat. Það er talað um að fjögurhundruð milljónir manna til viðbótar komi til með að svelta. Framleiðsla og flutningur matvæla kostar orku og matvæli má nota sem orkugjafa. Verð á matvælum er þannig nátengt orkuverði.

Þegar við veljum okkur hvaða leið við förum í framtíðinni verðum við að gera okkur grein fyrir þessu. Þegar olían hækkar verða ferðir dýrari. Er þá skynsamlegt að stóla eingöngu á ferðamannaiðnað?

Þegar olían hækkar þá hækkar orka okkar líka . Mér finnst því skynsamlegt að beina sjónum okkar að því að framleiða orku allstaðar þar sem það er mögulegt. Erlendis eru skattafríðindi til handa þeim sem framleiða orku. Af hverju eru ekki vindorkuver á rokrasgatinu Íslandi. Vindorkuver gætu verið hagkvæmur kostur með vatnsaflsvirkjunum. Þegar mikill er vindurinn er safnað í lón vatnsaflsvirkjana og vatnið notað í logni.  Enn er orka ódýr á Íslandi og ef til vill þarf að liðka fyrir vindorkunni með skattaívilnunum eins og víða erlendis. Vindorkuver þarf ekki að vera stór mylla sem yfirtekur landslagið. Hún getur verið smátæki á húsum til að fullnægja hluta orkuþarfar þess.

Í fréttum hefur verið sagt frá tilraunum með ódýrari hvata við rafgreiningu á vetni. Menn hafa hugsað sér að nýta afgangs jarðhita við vinnslu bíódísils og þannig auka nýtni við vinnsluna. Afgangs jarðhita má einnig nota við eimingu alkahóls sem eldsneytis. Allt er þetta á tilraunastigi enn. Við getum siglt á toppi öldunnar eða lent í öldufaldinum. Rannsóknir á þessu  verða ekki gerðar án þess að veita í þær miklu fjármagni - frá ríkinu.

Ef borin eru saman Evrópulönd annars vegar og Bandaríkin hins vegar er ljóst að Evrópulönd eru mun lengra komin í nýtingu orkunnar en Bandaríkin. Í Bandaríkjunum viðgengst sóun í mun meira mæli en í Evrópu. Þegar svo kreppir að í orkumálum eru Bandaríkjamenn mun verr settir. Hvort viljum við vera undirbúinn og nýta vel orku og efni ef til vill þróa hér tækni sem við getum selt öðrum eða  vera sóarar sem þurfa á endanum að kaupa rannsóknir annarra dýru verði.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband