4.6.2008 | 11:36
Þjóðfélag ríka fólksins
Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur tíðum haldið því fram að almenningur sé betur settur ef nokkrir milljarðamæringar búa hér á þeirri forsendu að við höfum af þeim tekjur. Honum hefur orðið að ósk sinni þó margir Íslenskir auðmenn kjósi að búa í Lundúnum eða í annarri stórborg.
Hagfræðingar sem hann byggir kenningar sínar á miða við að hámarka gróðann. Ég ætla ekki að draga úr því að gróði er undirstaða okkar lífs. Gróði sem sprottinn er af vinnu og hyggjuviti en ekki óheiðarleika er af hinu góða.
Það er nauðsynlegt til að virkja menn til góðra verka að hafa umhverfi sem styður frumkvæði manna og verðlaunar þá sem vel standa sig. Einstaklingsfrelsi og einfalt regluverk fyrirtækja er e.t.v. undirstaðan. Ég er því að nokkru leyti sammála Hannesi hvað það varðar.
Ég er ósammála honum í því að það sé okkur hagkvæmt að hafa hér mikla misskiptingu auðsins. Þar sem ég vil hafa umhverfi þar sem menn njóta ávaxta erfiðis síns vil ég misskiptingu. Ég tel hins vegar mikilvægt að halda henni innan ákveðinna marka. Rök mín eru þessi:1. Þegar misskipting er orðin það mikil að annars vegar eru eignarmenn sem eiga nánast allt og hins vegar sára fátækt fólk sem á varla ofan í sig og á þá verður umhverfið fjandsamlegt, sérstaklega fyrir auðmennina. Það var úr slíku umhverfi sem hugmyndir Karls Marx spruttu. Þannig hefur Ísland ekki verið áratugum saman fyrr en nú seinustu árin.
2. Ríkir menn hækka verð á ýmsu. Jafnvel þó laun þeirra fátæku hækki eitthvað þá verður fleira þeim ofviða vegna hækkandi verðs.
3. Það er erfiðara að vera fátækur í ríku landi en fátæku jafnvel þó sá sem er fátækur í ríka landinu sé hundrað sinnum ríkari en sá fátæki í fátæka landinu. Þetta hafa athuganir sýnt. Það sem við köllum eðlilegan hluta daglegs lífs er ekki á möguleiki fyrir fátæka einstaklinga í fátækum löndum og þeim dettur ekki í hug að keppa að því frekar en við keppum að því að komast til tunglsins. Í ríka landinu telst þetta til sjálfsagðra hluta og er því erfitt fyrir fátækasta fólkið að þurfa að neita sér um það.
Það er sem sagt álit mitt að bæði verði auðmenn og almenningur betur settur ef auðnum er jafnað með velferðarkerfi jafnvel þó að fæli einhverja auðmenn frá að búa hérna. Ég tel að það verði betra að búa hér og vera aðeins fátækari og lifa við meiri jöfnuð en nú er orðinn í þjóðfélaginu.
Jöfnun er jafnvægisæfing milli þess að halda nægri atvinnu þ.e. laða nægjanlegan fjölda fyrirtækja hingað og þess að bilið milli ríkra og fátækra verði ekki of mikið. Ég tel að þessu jafnvægi hafi verið raskað. Við það hefur skapast mikil spenna sem er að leysast upp og almenningur borgar herkostnaðinn.
Markmið okkar Hannesar eru að því leyti ólík að hann vill hámarka gróðann en ég vil hámarka hamingjuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.