24.3.2008 | 13:24
Samtrygging eða kapítalismi
Hún var kona um fertugt, fráskilin og tæp á heilsu með tvö börn á sínu framfæri. Hún átti engar eignir en borgaði leigu af tveimur herbergjum sem hún hafði með þrifum fyrir fjölskylduna í stóra húsinu sem hún bjó í. Allir í kringum hana voru ríkir. Flestir voru einhvers konar viðskiptamenn. Þeir höndluðu með hundruð milljarða á dag. Þeir tóku lán til að kaupa hlutabréf og eignir erlendis og þeir græddu fé. Sumir sögðu að þeir tækju of mikla áhættu en gróðinn var svo mikill og eiginfjárhlutfall hagstætt að hjáróma raddir þeirra sem vöruðu við heyrðust ekki.
Ríkisstjórn, Seðlabanki, háskólar, lærðir menn og gáfaðir spiluðu með. Viðskiptaveldin voru eins og spilaborg. Skuldir söfnuðust upp þar til enginn gat treyst gjaldmiðli þjóðar sem skuldaði svona mikið. Innstreymi fjár stöðvaðist. Viðskiptamennirnir hættu að geta borgað af lánum með nýjum lánum. Fjárfestingarnar lækkuðu í verði. Lítið varð eftir nema skuldir. Óhugnalegar skuldir. Það varð gengisfall og menn sögðu að krónan gæti ekki fallið meira hún var að nálgast níutíu krónur fyrir hvern dollar og hún hélt áfram að falla 110 kr. dollarinn og enn féll hann. Ríkisstjórnin varð að redda málum. Samtryggingin var góð þegar á þurfti að halda.
Fráskilda konan gat ekki lengur framfært börnum sínum. Allt var orðið svo dýrt. Sameiginlegur auður þjóðar farinn gjaldþrot þjóðar. Erlendir Seðlabankar bjarga með afarkostum.
Ekki var það konan sem fékk gróðann og velmegunina þegar allt lék í lyndi. Á hennar baki lentu skuldirnar eins og örðum landsmönnum. Þannig vilja þeir hafa það. Þeir hirði gróðann en skuldunum sé jafnt dreift á alla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Jón, takk fyrir frábærann pistil, orð í tíma töluð. En hvað er til ráða? Öll munum við blæða þar sem ríkisstjórnin aðhefst ekkert. Þeir sem hirtu gróðann hafa komið sér vel fyrir í útlöndum þar sem þeir geyma sand af seðlum í þarlendum bönkum. Þá mun ekkert skorta.
kkv.
Ásgerður Jóna Flosadóttir
Ásgerður Jóna Flosadóttir, 24.3.2008 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.