19.3.2008 | 12:09
Tíuþúsund milljarðar
Ég er að reyna að skilja 10 þúsund milljarða, en það er sú tala sem lítil eyþjóð sem telur um 300 þúsund sálir skuldar 1013 lesið 10 í þrettánda veldi krónur. Þegar ég svo deildi þessu með mannfjöldanum hér á landi komst ég að því að litla fjölskylda sonar míns sem var að gifta sig um daginn skuldar 100 milljónir ef þessari upphæð yrði jafn dreift.
Ef við veltum fyrir okkur hvaða framleiðsluverðmæti standa á bak við þetta. Heildarframleiðsla okkar á rafmagni er um 2000 megawatt. Kárahnjúkar kostuðu um 110 milljarða og eru 690 megawatt. Ef allt væri nýtt hjá okkur og stofnkostnaður sá sami væri verðmæti allrar raforkuframleiðslu okkar 3-400 milljarðar. Ef við reiknum þá upphæð upp miðað við nýtt gengi má teygja verðmætið upp fyrir 500 milljarða. 10 þúsund milljarðar er svo 20 sinnum sú upphæð. Augljóst er að verðmæti virkjananna nemur aðeins broti af því sem hér er reiknað vegna viðhaldskostnaðar og gamalla raforkusamninga.
Við erum búin að temja okkur lífsmáta sem líkist frekar olíufurstum en smáþjóð í köldu og erfiðu landi. Þessi lifnaður okkar er ekki byggður á tekjum heldur tekinn að láni. Skuldirnar eru ekki bara á breiðu bökunum. Þær eru á litlum sem stórum fyrirtækjum og einstaklingum sem mega ekki við þeim samdrætti sem nú er. Það blasir ekkert við nema gjaldþrot, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Þá koma þeir ekki sem stýrt hafa þessu brjálæði með fúlgur inn í þjóðfélagið okkur til bjargar. Rotturnar flýja fyrst. Jafnvel maður sem talinn er einn af fimmhundruð ríkustu mönnum heims getur ekki einn bjargað okkur þó hann legði allt sitt í það verkefni. Hann getur ef til vill sett upp borð við höfnina og boðið fátækasta fólkinu súpu eins og Thor Jensen gerði í forðum.
Af hverju vissum við þetta ekki fyrr? Af hverju sagði enginn neitt? Af hverju gripu stjórnvöld ekki í taumana? Jafnvel þó ekki væri heimskreppa er ástandið skelfilegt. Stöðugt hefur verið talað við ráðamenn og greinendur banka. Þeir hafa velt sér fram og til baka í því hvort lendingin yrði hörð eða mjúk. Hvílík blekking. Hvílík blekking að vel hafi verið stjórnað, þjóðin rík og allt í lukkunnar velstandi. Ríkisstjórnir síðustu ára hafa leyft kókaínsniffandi þotuliði að rústa efnahagslegum grundvelli Íslendinga sem tók okkur 200 ár að byggja upp. Til að þeir geti nú örugglega sniffað áfram eftir að hafa misst einkaþoturnar verður tollgæsla minnkuð.
Þessir pótintátar hafa síðan skammtað sér kjör í ellinni sem er úr öllu samhengi við kjör annarra. Það sýnir andann heiðarleikann eða hitt þó heldur. Stjórnendur landsins eru alltaf óábyrgir og geta gert það sem þeim sýnist. Vörn okkar dómstólarnir eru fullir af leppum þeirra svona til öryggis. Réttur borgaranna til að rísa gegn stjórnvöldum leita til dómstóla um lögmæti gerða þeirra þegar þeir rústa þannig efnahagi heillar þjóðar er enginn.
Guð verndi okkur á erfiðum timum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Facebook
Athugasemdir
Gott innlegg!
Nú skulum við vona að þessi lægð í efnahagnum sé tímabundin. Það er þannig með markaðinn að hann er eins og veðrið eða hafið, öldugangur og spurning hvort fréttnæmt sé af öldugangi nema um fárviðri sé að ræða. Einnig hafa fjölmiðlar fixerað athyglina einum um of á braskið og gleymt alls kyns mannlegum þáttum sem líka eru forsíðufréttir, jafnvel enn meiri fréttir en að einhver kauphöll hækki eða lækki. Ég bara vona að húsnæðisverð lækki nóg svo ég geti komist í að kaupa kofatetur á elsku skerinu í miðju Atlantshafi.
Ólafur Þórðarson, 19.3.2008 kl. 14:57
Ótrúlega góður pistill og harður sannleikur held ég.
Það hefur víst þurft að halda vel undir þá suma sem koma út úr einkaþotunum.
Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 16:03
þetta eru orð í tíma töluð og sönn,hefði ekki getað orðað þetta svona vel/Kveðja Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 20.3.2008 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.