21.12.2007 | 15:12
Óviss framtíð
Áður vorum menn hræddir við allsherjar eyðingu lífs í kjarnorkustríði. Enn hræðast menn kjarnorkuna en trúa á "minni" stríð aðeins eytt einni þjóð en ekki öllu mannkyninu. Menn sofa því rólega og hugsa ekki hér.
En það er svo sem af nógu að taka hvað ógnir varða. Nú er það hitnun jarðar. Vinur minn sagði að það væri viðbrögðin við hitnuninni sem væru ógnin.
Bæði hitnunin sjálf og viðbrögðin við henni eiga eftir að gjörbreyta efnahag og lífsháttum manna víða um heim. Svæði sem hafa verið sælureitir verða of heitir og aðrir sem hafa verið of kaldir verða byggilegir. Lönd sem hafa verið forðabúr breytast í eyðimerkur og önnur og ný verða tekin til ræktunar. Þetta hefur gífurlegar efnahagslegar afleiðingar og þrýstir á um mikla fólksflutninga sem erfitt verður að sporna við. Í þessum breytingum verða sumir undir og aðrir auðgast. Þeir sem verða undir svelta og deyja. Þær þjóðir sem telja sig hafa ráð á orkufrekum iðnaði og samgöngum knýja vél efnahagsins með jurtaeldsneyti í stað olíu sem þegar er byrjað að hækka matvælaverð.
Það þarf ekki að líta á þetta sem hörmulega framtíð. Það verða hörmulegir tímar fyrir suma og það eru hörmulegir tímar víða. Þeir verða ef til vill víðar. Nú þegar er verið að drepa heilu þjóðirnar vegna aukinna þurrka og stækkun eyðimerkur svo sem í Darfur. Slík dæmi hljóta að verða fleiri. Við sem búum í vestrænum þjóðfélögum höfum miklu meiri möguleika og þar að auki er stór hluti okkar landa utan áhættusvæða. Við erum jafnvel í þeirri stöðu að aðstæður batni hjá okkur frekar en hitt.
Við getum keppst við að halda okkar hlut á kostnað annarra sem ekki eru svo lánsamir. Í auði okkar felst þá dauði annarra en það gerir hann í dag að einhverju leyti. Barasta í útlöndum svo það skiptir okkur ekki miklu máli. Við erum líka svo fá að okkar auður vegur lítið í heildinni.
Við getum líka opnað markaði okkar og aukið fríverslun við fátækar þjóðir, aðstoðað þær við uppbyggingu framleiðslu, bæði matvæla og iðnvara aukið menntun þeirra og aðstoðað þær við að nýta þær auðlindir sem eru í löndum þeirra. Þá gætum við haldið áfram að njóta lífsins með betri samvisku.
Nú eru menn að ganga til friðar. Það sem Íslendingar geta lagt til friðar er það sem bætir kjör þeirra sem þurfa. Misskipting er mesta ógn við fríð í heiminum í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.