31.10.2007 | 13:25
Allt í hægagangi
Nú eru æsifréttir í hvíldarstöðu og anda djúpt fyrir næsta sprett. Það er eins og ég spáði að REI málið gengur í gegnum umræðuna án þess að menn komist að neinni niðurstöðu. Nú hefur Umboðsmanni verið svarað. Hann kemur væntanlega með eitthvað álit og þá segja menn það er alveg rétt hjá honum en málið er búið og gert - við höfum gert bindandi samninga.
Menn hafa gert áhættusamninga um milljarða ráðstöfun á opinberum eignum án þess að á baki liggi pólitísk umræða, jafnvel ekki innan flokkana sem réðu og nýir flokkar taka við og halda málinu áfram, skipa aðal andstæðinginn i rannsóknarnefnd og ráðleggja henni svo smátt og smátt að hafa sig hæga.
Ég tengi þetta umræðunni um ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir lög um fjölmiðla á sínum tíma. REI málið og önnur slík er orsökin fyrir því að almenningur finnst sér misboðið og honum finnst hann standa varnarlaus gagnvart hegðun sem hann telur siðferðilega ranga eða jafnvel ólöglega. Hann veit að ef einhver er dregin til ábyrgðar þá er það undirsáti sem litla ábyrgð ber. Stjórnmálamenn eru alltaf stykk frí.
Það er þess vegna sem forsetinn skynjar að gjá hafi myndast á milli valdhafa og þjóðarinnar. Þjóðin hefur ekki í önnur hús að venda - það eru allir flokkar jafnir í þessum efnum - eins konar samtrygging svikarana.
Hvað getum við gert. Hver flokkur hefur sitt bakland grasrótina sem er undirstaða valanna. Það er þar sem umræðan þarf að fara af stað um raunverulega ábyrgð. hlutlausar rannsóknir og raunverulega niðurstöðu í svona hitamálum sem þessu. Ef REI gæti nú komið slíku til leiðar væri vel. Það fer hins vegar eins og önnur slík mál. Því er þvælt áfram þar til allir eru orðnir leiðir og almenningur situr eftir með ónotatilfinningu í brjósti og glataða trú á stjórnvöldum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef þá staðföstu trú að þegar stjórnmála og embættismenn eru orðnir svo spilltir að þjóðin ber ekki lengur að standa undir því, taki ábyrgir einstaklingar málin í sínar hendur. Við hofum jú Alþjóða og Evrópustofnanir sem við getum snúið okkur til að ná réttlæti. Málaflokkum fer ört fjölgandi sem tekin eru fyrir til verndar almenningi !
Er ekki komin tími til að stofna samtök sem berst fyrir réttlæti einstaklinga, þar sem stjórnmálamenn eru hættir að starfa fyrir almenning.
Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 31.10.2007 kl. 16:33
Þarna er gripið á einni mestu meinsemd okkar samfélags. Engin mál eru krufin til mergjar í leit að hlutlægri niðurstöðu. "Að fara ofan í mál" hefur eina merkingu sem er að finna leið framhjá aðalatriðum því ævinlega eiga einhverjir ósnertanlegir þar hagsmuni, annaðhvort pólitíska eða praktiska.
Öll umræða verður sýkt af orðhengilshætti og ómerkilegum kjaftagangi sem drepur á dreif öllum aðalatriðum. Og að lokum gefast allir upp á því að komast til botns í málinu sem að lokum er svæft.
Einstaklingur sem er órétti beittur af kerfinu er í flestum tilfellum jafn örbjarga og fluga sem dottið hefur ofan í blekbyttu.
Lífeyrisgjöld launþega hverfa inn í eitthvert svartamyrkur lífeyrissjóðanna og aldraðir einstaklingar sem hafa greitt inn í sjóð allt frá stofnun hans fá ekkert að vita um stöðu sína. Þar er á ferðinni eitthvert guðlegt yfirvald sem tekur við peningum og greiðir síðan einhverja upphæð við tiltekin aldursmörk. Eftir hvaða reglum veit enginn. Þessum sjóðum virðist vera fengin einhver stjórn af allt öðrum en þeim sem eiga féð!
Er hægt að niðurlægja fólk með hroka sem tekur þessu fram?
Það styttist í að þokkalega heilsuhraust gamalmenni fari að draga saman spýtur og koma þeim fyrir á Austurvelli. þar munu einhverjir banghagir úr hópnum timbra saman brúklegum gálga.
Síðan verður blásið í lúðra og samfélag aldraðra stormar niður Laugaveginn með nokkrar brennivínsflöskur og lipra nælonkaðla.
Göngunni lýkur á Austurvelli. Þangað leiðum við nokkra af okkar "velunnurum."
Svo gerum við okkur dagamun.
Árni Gunnarsson, 31.10.2007 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.