26.10.2007 | 01:49
Starfskraftar allra nýttir
Hvað er að vera fatlaður? Er það ekki að hafa einhverjar takmarkanir? Jú að sjálfsögðu og við erum þá öll fötluð. Hver hefur annars ekki sínar takmarkanir? Menn fá bætur ef þeir eru 75% öryrkjar. Blindur maður er 75% öryrki og þeir halda því sjálfir fram að ekkert sé blindum ómögulegt annað en aka bíl. Jafnvel er það ekki rétt heldur því þegar upp á jökul er komið þá eiga blindir ekkert erfiðara með að aka bíl en sjáandi. Það vita allir að sá sem er 75% öryrki getur miklu meira en 25% af því sem heilbrigður maður getur. Þetta eru bara tölur. Ég hef slegið því fram að það sé vinnumarkaðurinn sem er fatlaður en ekki einstaklingarnir. Allir einstaklingar sem eru með ráði og rænu hafa eitthvað að gefa sem er einhvers virði fyrir aðra. Markaðurinn hefur ákveðna þörf fyrir starfsfólk og velur það sem stjórnendur halda að skapi mest á því sviði sem fyrirtækið starfar. Ef miðað er við slíka skilgreiningu þá hefur fötluðum fækkað þegar atvinnuástandið er svona gott eins og það er hér á landi. Að sjálfsögðu má finna að þessari skilgreiningu en hún er ekkert verri en það að telja mann öryrkja í einverri prósentölu.
Við skulum taka sem dæmi ofurgáfaðan mann sem ekki getur hreyft neitt nema andlitsvoðvana. Einn slíkur er nú mesti stjörnufræðingur nútímans. Er hann 75% fatlaður. Hann getur miklu meira á einu sviði en aðrir menn en hefur takmarkanir á öðru. Hversu mikils má meta slíka snilli sem hluta af getu manna. Er þeir sem ekki hafa hana öryrkjar?
Við tókum upp stefnu fyrir nokkrum um rétt foreldra fatlaðra barna að senda þau í almenna skóla í stað sérskóla áður. Það gleymdist að vísu að auka þurfti stuðning við kennara svo þeir gætu ráðið við þetta hlutverk en það er vonandi að breytast. Þetta er kallað inclusion á erlendu máli og á skólinn þá að miða kennslu sína við þarfir einstaklinga en ekki miða við ákveðið meðaltal sem mjög stór hópur nemanda með sérstaka takmarkanir eða sérstaka hæfileika fellur utan við. Þetta er byrjunin. Vonandi heldur þetta áfram í gegnum þjóðfélagið og fyrirtækin finna not fyrir hæfileika fleiri einstaklinga. Eins og ég hef sagt, þá hefur eftirspurn eftir vinnuafli opnað augu atvinnurekenda fyrir þessum möguleikum. Bætur hins opinbera mætti aðlaga að þessu og þeir sem ekki standast lágmarkskröfur markaðarins fái stuðning. Þá má höfða til þjóðfélagslegrar skyldu fyrirtækja en slíkt er byrjað að gera í auknu mæli víða erlendis.
Sumir af þeim sem hafa sértæka námsörðuleika svo sem lesblindu afla sér ef til vill ekki langskóla menntunar. Þeir eru oftast með sérstakar gáfur. Mestu snillingar veraldarsögunnar hafa fallið undir fötlunarhugstakið, verið geðveikir, líkamlega fatlaðir eða haldnir sértækum námsörðugleikum. Þeir hafa lent í þeim aðstæðum að geta nýtt hæfileika sína. Það er hins vegar enn fleiri sem bíða. Við þurfum að finna starfskröftum þeirra farveg sem nýtir þá sem best.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook