5.7.2007 | 00:11
Rannsóknir á grunnslóð
Í fréttum 4. júlí var viðtal við kafara sem fylgst hafði með þróun gróðurs á grunnslóð hér við land svo árum skipti. Birtar voru myndir af þróuninni - myndir sem voru áratuga gamlar og svo sami staður nú nýlega. Það sem hafði verið gróðursæll blettur var orðin eyðimörk. Það eru ýmsar breytingar að eiga sér stað í umhverfi okkar sem við skiljum ekki. Við sjáum breytingarnar í plöntu og dýralífi í næsta nágrenni okkar en fylgjumst lítt með því umhverfi sem sjórinn hylur. Þetta umhverfi er uppeldisstaðir nytjafiska okkar og sjávarútvegur er enn mjög mikilvægur efnahag okkar þó fleiri stoðum hafi verið skotið undir efnahagslífið nú en áður voru.
Fréttir af rannsóknum á grunnslóð hafa svo sem áður heyrst. Það hefur áður komið fram að þessi mikilvægi hluti umhverfis okkar sé nánast ekkert rannsakaður. Það er ekki eingöngu nytjafiskar sem eru í hættu. Gætu þessar breytingar haft áhrif á viðkomu sandsíla og þannig haft áhrif á viðkomu fugla. Lífríkið er ein keðja og ógnanir við þessa keðju geta haft mjög víðtæk áhrif. Mér finnst að eytt hafi verið aurum í óskynsamlegri hluti en þá að rannsaka þennan hluta umhverfis okkar. Rannsaka viðkomu einstakra tegunda svo sem ígulkera sem kafarinn taldi að væru orsakavaldur í gróðureyðingu á grunnmiðum. Getum við gert eitthvað til að breyta óæskilegri þróun?
Er það mengun, aukinn hiti eða ofveiði á steinbít sem orsakar þessa plágu. Ég hef enga þekkingu á því. Mér finnst málið of graf alvarlegt til þess að láta það kyrrt liggja. Það gæti verið að kafarinn hefði rétt fyrir sér og það væri fleira en hvalir og fiskimenn sem ógnuðu fiskstofnum okkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.