30.5.2007 | 09:08
Spilling stjórnmálamanna
Eins og allir muna reiddist Jónína Bjartmarz því mjög þegar Helgi Seljan hélt því fram að afgreiðsla Alþingis á ríkisborgararéttindum til handa tengdadóttur hennar hafi verið óeðlileg. Hún ásakað Helga um dylgjur og óheiðarleg vinnubrögð.
Peningar og völd eru seglar á spillingu. Við höfum menn hér sem eru meðal þeirra ríkustu í veröldinni og einstakir menn fara með fjármuni sem eru af stærðargráðu fjárlaga en ekki einstaklinga. Við lifum í litlu samfélagi þar sem vinargreiðar hafa verið aðalsmerki fremur en undantekningar. Slíkir greiðar eru góðir þegar ráðstafað er eingöngu eigin tíma og peningum. Þegar ráðstafað er eigum annarra eru þeir ein mynd spillingar. Slík spilling er ósanngjörn og grefur undan þjóðfélagsbyggingunni og því jafnræði sem við viljum hafa.
Alþingismenn skammta sér sjálfum ýmis fríðindi. Skemmst er að minnast lífeyrisins sem ráðherrarnir skömmtuðu sér og er úr öllum tengslum við raunveruleika annarra launþega. Stjórnmálamenn tala um að þeir beri stjórnmálalega ábyrgð á gerðum sínum. Það er eins og klingi í eyrum mínum slík klisja frá Jónínu Bjartmarz. Pólitísk ábyrgð er að almenningur hafi eftirlit með gerðum manna. Þeirra tæki til upplýsingaölfunar eru blaðamenn. Ef þeir mega ekki opna umræðu um mál sem eru grunnsamleg en ekki sönnuð sekt geta þeir ekki rækt þetta hlutverk og stjórnmálamennirnir mega valsa um eftirlitslaust.
Þetta hef ég svo sem rætt áður. Ég ætlaði hins vegar að líta til skömmtunar flokka á Alþingi á fjárstuðningi ríkissjóðs við sömu flokka. Ég ætla ekki að fjalla um skiptinguna og það að flokkar sem koma nýir inn fái ekkert.
Eins og ég hef rætt hér að ofan er það mjög slæmt þegar aðilar geta hyglað sér og sínum af annarra fé. Það geta hins vegar verið málefnaleg rök fyrir því. Það er ekkert annað vald en Alþingi sem getur ráðstafað slíkum fjármunum nema þá helst þjóðin sjálf. Það er vandkvæðum bundið að fela það þjóðinni og þá spyr ég: Voru málefnaleg rök fyrir þessari ákvörðun. Stjórnmálamennirnir segja að þeir verði þá ekki háðir auðfyrirtækjum og mönnum. Það eru í mínum huga lýðræðisleg og málefnaleg rök. Þar sem vart verða slíkar ákvarðanir bornar undir þjóðina í hvert skipti getur verið um fullkomlega eðlilega ákvörðun að véla. Ekki eru að heyra háværar raddir gegn þessu eins og gegn lögum um eftirlaun ráðherra á sínum tíma.
Þá spyr ég: Ná lögin tilgangi sínum? Ég efast um það. Ástæðan er sú að þau leysa flokkinn undan þrýstingi auðsins en ekki einstaklingana sem bjóða sig fram í prófkjöri. Prófkjör er í sjálfu sér mjög lýðræðisleg aðferð til að velja menn á lista en jafnframt mein gallað. Allt of dýrt er fyrir einstaklinga að fara í gegnum slíkt. Þá eru ekki samræmdar reglur á milli flokka. Hætta er á að ákveðin landsvæði eða menn fylgjandi ákveðnum skoðunum geti náð óeðlilegu fylgi með því að menn frá því svæði eða hliðhollir viðkomandi sjónarmiði kjósi í prófkjörum margra flokka.
Í þýskalandi eru atkvæðaseðlarnir tveir. Annars vegar eru nöfn manna og geta menn kosið menn af ólíkum listum og númera þá 1, 2, 3 ..... Hins vegar er stefna kosins líkt og hér, þ.e. ákveðinn listabókstafur. Með þessu er prófkjör óþarft. Flokkarnir stilla upp ákveðnum fjölda einstaklinga sem eru tilbúnir að fara í framboð. Þeir sleppa við prófkjör og kosningavél viðkomandi flokks sér um kynningarnar. Taka verður fyrir auglýsingar einstaklinga á listunum. Þeir mega hins vegar koma sér á framfæri með hverjum þeim hætti sem kostar ekki fé svo sem vinnustaðaheimsóknum, viðtölum við fjölmiðla og greinaskrifum. Þá auglýsa þeir flokk sinn í leiðinni og kynna sínar áherslur. Ef þessu væri þannig farið þá gætu rökin um fé til flokkanna til að koma í veg fyrir spillingu haldið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Facebook
Athugasemdir
Orð i tima töluð/Heir fyrir þessari grein/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 30.5.2007 kl. 11:02
Hvað segi ég hér á þinni vefsíðu? Sjaldan hef ég kynnst eins miklum vitleysingum og gróðapungum eins og þeim sem telja sig vera formenn réttætis og laga..þegar þeir finna peningalykt er eins og þeir verið sturlaðir og gleymi öllu sem viðkemur lögum og reglum og mannlegu réttlæti. Nokkrir þeirra haft af mér fjármagn með lygum og lögleysum. En manni er hollast að læra af lífinu og sjá að ekki eru allir eins þó þeir stundi sömu vinnuna. Gera það bara á mismunandi forsendum. Lifi heiðarlegir lögfræðingar!!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 31.5.2007 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.