12.4.2014 | 20:26
Heimska þjóð.
Við eigum auðvelt með að sjá heimsku annarra þjóða en áttum okkur síður á eigin heimsku. Heimska okkar sem annarra byggist ekki á meðfæddri takmörkun greindar heldur á skorti á upplýsingum og óskhyggju.
Reiði forheimskar fólk og reiði eftir hrun hefur forheimskað íslenska þjóð. Ein vitleysan sem menn apa hver eftir öðrum er að fall krónunnar valdi aukinni greiðslubirgði og þess vegna sé vísutölutrygging hræðileg. Hún mamma keypti dollar á rúmar 6. kr. einhvern tíman í fyrndinni. Ef hann væri reiknaður í upp á gamalli krónu myndi hann kosta milli 12 og 13 þúsund krónur. Svona taka menn dæmin til að sanna að vísitölutrygging sé ómöguleg.
Þetta eru bara tölur. Það sem skiptir máli er hvað einstaklingur er lengi að vinna fyrir einum mjólkurlítra eða sunnudagasteikinni.
Ég tók vísitölutryggt lán fyrir nokkrum áratugum og var það til 25 ára. Seinustu afborganir voru lítið lægri en upphaflega lánið var í krónum talið. Þetta skipti ekki miklu máli því launin mín höfðu hækkað umfram vísitölu.
Í hruni lækka launin í raun, þ.e. allt verðlag og afborganir hækka miðað við laun. Þá verða afborganir stærri hluti af mánaðarlaunum en áður. Er þetta vandamál bundið vísitölunni og íslensku krónunni?
Ef gengið er stöðugt minnka viðskipti fyrirtækja, framleiðslan verður dýrari og ósamkeppnisfærari. Annað hvort verða launin að lækka eða segja verður upp fólki. Oftast á hvorutveggja sér stað. Hvort sem launin lækka vegna atvinnumissi eða launalækkunar þá eru vandamáli með afborganir af lánum þau sömu.
Ef menn hafa krónuna og óvísitölutryggð lán er hætta á því að lán séu ekki greidd til baka eins og raunin var á áður en vísitölutrygging var tekin upp. Gott segja sumir. Þessir auðmenn sem eiga peningana mega vel missa þá. Gallinn er sá að þeir ríku geta ávaxtað peningana sína með öðrum hætti. Þeir peningar sem eftir verða eru úr launaumslögum verkafólks og eyðast upp. Lán verða af skornum skammti og aðeins fyrir vini þeirra sem ráða fjármálastofnunum sem keppast við að festa þá í einhverju sem heldur verðgildi sínu en skapar ekki endilega meiri hagnað fyrir heildina.
Ástæða þess að eignir stórs hluta landsmanna eyddist upp í hruninu eru sú að bankarnir fengu fólk með rangri upplýsingagjöf til að taka meiri lán en skynsamlegt var. Afleiðingin var ekki aðeins sú að einstaklingar tóku of mikil lán hver fyrir sig. Verra var að auknir peningar (sem teknir voru að láni) hækkuðu verð fasteigna á fjölmennustu svæðum landsins langt umfram kostnað.
Þegar síðan fasteignaverð hrundi voru lánin sem e.t.v. höfðu verið fyrir 80-90% af kaupverði hærri heldur en verðmæti fasteignarinnar. Það sem þeir höfðu lagt til við húsakaupin hvarf algjörlega.
Kaupverð fasteigna er jafn sveiflukennt í löndum með sterkan gjaldmiðil. Ef menn á Grikklandi keyptu eign fyrir hrun í Evrum er líklegt að lánin sem þó eru ekki vísitölutryggð séu nú mun hærri en sem nemur mögulegu söluverði eignanna. Launin hafa lækkað og þeir eru í sömu súpunni og Íslendingar.
Eitt af því sem menn gagnrýna við vísitölutryggð lán er að þau lækka lítið í upphafi, svo lítið að krónutalan hækkar þrátt fyrir afborganir. Auk þess að krónutöluvillan leikur menn hér grátt þ.e. þá eru menn hér að gagnrýna ákveðinn útfærslu vísitölulána sem er alls ekki nauðsynlegur hluti þeirra þ.a. að þau eru jafngreiðslulán. Jafngreiðslan er höfð til hagsbóta fyrir lántaka.
Til að skýra hvað jafngreiðslulán er þá ætla ég að taka dæmi um lán sem ekki er jafngreiðslulán.
Nú tekur maður lán sem er 20 milljónir með 6% vöxtum til 20 ára. Afborganir eru sem hér segir.
Ár | Vextir | Afborgun | Samtals. | Eftirstöðvar |
|
|
|
| 20.000.000 kr. |
1 | 1.200.000 kr. | 1.000.000 kr. | 2.200.000 kr. | 19.000.000 kr. |
2 | 1.140.000 kr. | 1.000.000 kr. | 2.140.000 kr. | 18.000.000 kr. |
3 | 1.080.000 kr. | 1.000.000 kr. | 2.080.000 kr. | 17.000.000 kr. |
4 | 1.020.000 kr. | 1.000.000 kr. | 2.020.000 kr. | 16.000.000 kr. |
5 | 960.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.960.000 kr. | 15.000.000 kr. |
6 | 900.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.900.000 kr. | 14.000.000 kr. |
7 | 840.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.840.000 kr. | 13.000.000 kr. |
8 | 780.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.780.000 kr. | 12.000.000 kr. |
9 | 720.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.720.000 kr. | 11.000.000 kr. |
10 | 660.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.660.000 kr. | 10.000.000 kr. |
|
|
|
| 1.000.000 kr. |
Lokagr. | 60.000 kr. | 1.000.000 kr. | 1.060.000 kr. | 0 kr. |
Samkvæmt þessu verður greiðslubyrðin 540 þúsund krónum lægri eftir 10 ár og loka greiðslan verður 1.140.000 kr. lægri en sú fyrsta.
Ef að líkum lætur þá hækkar þú í tign og færð hærri laun með tímanum. Jafngreiðslulán gera ráð fyrir því að þú greiðir alltaf sömu upphæðina út lánstímann. Þú tekur sem sagt lán fyrir hluta af greiðslunum í byrjun og greiðir það niður þegar vextirnir lækka. Sumum finnst þetta kostur. Gallinn er sá að þú tekur hærra lán af því það sem skiptir þig máli er að geta borgað fyrstu afborganir. Auk þess borgar þú meira í heildina en ella því að þú borgar lánið hægar niður í upphafi og greiðir því hærri vexti þá.
Heildar vextir eru 12.600.000 kr. ef ekki er um jafngreiðslulán að ræða en 14.874.000 kr. miðað við jafngreiðslu. (Bæði dæmin eru án verðbreytinga). Sá sem tekur jafngreiðslulánið greiðir 1.744.000 kr. á ári. (Í báðum tilfellum eru reiknaðar afborganir einu sinni á ári.) Afborganir af láni sem ekki er jafngreiðslulán eru því þyngri fyrstu 8 árin.
Í Bandaríkjunum eru lánin ekki vísitölutryggð. Bankarnir gátu engu að síður platað fólk. Fjarmálasnillingarnir hjá virtum stofnunum töldu mönnum trú um að þeir gætu grætt á því að taka lán út á húsin sín sem þeir áttu jafnvel skuldlaus. Þetta átti í raun að vera ókeypis auður. Sömu menn sýndu fólki fram á að það gæti fjárfest hlutabréfum og grætt heil ósköp. Nú er verið að bera þetta fólk út úr húsunum sínum. Virtar lánastofnanir eins og Bank of Ameríka sem var eins konar sparisjóður þeirra Ameríkumanna mat veðhæfi eigna langt umfram raunverulegt verðmæti þeirra og lánaði á þeim grundvelli 100% lán. Nú er verið að bera fólkið út.
Mönnum svíður að aðeins lántakendur þurfi að taka á sig áhættuna af hruni eins og hér varð. Fullyrðingin er að vísu ekki alveg rétt. Mikið af töpuðum kröfum komu niður á eigendum þeirra. Samt sem áður tel ég að taka megi tillit til þessara hugmynda án þess að varpa vísitölutryggingu fyrir róða. Menn hafa bent á það að Evrópureglur krefjast fyrirsjáanleika á greiðslubyrgði og því sé vísitölubinding ólögleg. Ég tel að aldrei sé um fullkominn fyrirsjáanleika að ræða. Það er hægt að auka fyrirsjáanleikann með því að hafa þak á vísitöluhækkuninni. Fari verðbólga yfir ákveðin mörk þá beri lánveitandinn áhættuna af því. Hann hefur meiri möguleika að tryggja sig fyrir því.
Það sem menn tala lítið um er að ávöxtunarkrafan þ.e. vextir af vísitölutryggðum lánum er allt of há. Ég tala ekki um þegar við bætist ríkistrygging á þeim. Eðlilegir vextir af ríkistryggðum bréfum ættu að vera nær núllinu, alla vega innan við 1% í stað 5-6% eins og var. Á töflunni hér á undan má sjá hversu mikið fer í vexti. Það munar miklu hvort vextir eru 1% eða 6%
Ef þeir væru 1% yrði vaxtabyrðin á 20 árum rúmar 2 milljónir í stað 14,8 milljóna af jafngreiðsluláni. Jafnvel þó ríkið tæki 2% fyrir ríkisábyrgðina þá yrðu heildargreiðslur 6,8 milljónir í stað 14,8 milljóna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.4.2014 kl. 10:29 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er góð færsla, Jón. Ég held að þessi heimska byggist að mestu leiti á óskhyggju. Enginn kvartaði yfir forsendubresti og heimtaði leiðréttingu þégar laun hækkuðu hraðar en lánin í góðærinu. Enda dytti engum heilvita manni í hug að biðja um að fá að greiða meira af lánunum en þeir þurfa að gera. Þegar dæmið snérist við hófst hins vegar grátkórinn og beðið var um "leiðréttingu".
Hörður Þórðarson, 13.4.2014 kl. 02:39
Máttlaus reiði skilar litlu. Það þarf að huga að framtíðinni og sjá til að glæpir gegnsýri ekki fjármálakerfið, ekki bara hér heldur alls staðar og þar sem við erum hluti af evrópusku efnahagssvæði þarf að bæta regluverkið þar. Við gætum gengið á undan og reynt að bæta regluverkið, ekki fyrst og fremst með þvi að bæta við eftirliti og viðurlögum, heldur með því að gera kerfið meira skilvirkt. T.d. láta endurskoðendur ekki fá greiðslu beint frá fyrirtækinu. Það er auðvitað óþolandi að fámenn klíka stóreignamanna komist upp með bankarán. Kaupa fyrst hlutafé bankans og nota svo aðstöðu sína til að ræna innistæðu fé bankans innan frá og láta svo skattgreiðendur borga upp hrunið. Gamaldags bankarán eru svipur hjá sjón miðað við þessi nútíma bankarán. Svo bætist við bankarán sem þú nefnir, einnig í formi rangrar upplýsingagjafar og innherjaviðskipta. Bæta þarf fjármálakennslu í skólum. 40 ára lán eru algestust, en það verður til þess að fólk kaupir 3 íbúðir en ekki eina. 25 ára lán eru dálítið þyngri, en þá minnkar vaxtakostnaður um helming og íbúðirnar sem keyptar eru þá bara tvær!
Sigurdur Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.4.2014 kl. 10:02
Þakk þessar mjög góðu athugasemdir. Ég er algjörlega sammála. Markaðurinn takmarkar sig ekki sjálfur. Það sannaði sig í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Lög og eftirlit er nauðsynlegur hluti svo kapítalismi virki til hagsbóta fyrir heildina.
Jón Sigurgeirsson , 14.4.2014 kl. 10:23
Akkúrat, Sigurður. Fámenn klíka komst upp með bankarán. Hvernig?
"Einkavæðing bankanna hófst í raun árið 1998 með einkavæðingu Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem síðar rann saman við Íslandsbanka 15. maí árið 2000. Í framhaldi af einkavæðingu FBA töldu menn sig hafa fengið nokkra reynslu af einkavæðingu banka og í framhaldi af því voru Landsbankinn og Búnaðarbankinn einkavæddir árið 2002. Íslenska ríkið seldi 45,8% hlut sinn í Landsbankanum þann 19. október 2002 fyrir 12,3 milljarði króna. Kaupandinn var eignarhaldsfélagið Samson sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar[3].Tæpum mánuði seinna eða þann 16. nóvember sama ár seldi ríkið 45,8% hlut sinn í Búnaðarbankanum á 11,9 milljarða króna. Kaupendurnir voru hinn svokallaði S-hópur en hann samanstóð af Eglu ehf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands[4]."
Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. [5] Í viðtali við DV sama ár var Davíð Oddsson spyrður út í þessa úrsögn Steingríms Ara, þar eð hann hafði sagt í sjónvarpsviðtali nokkru áður „...eitthvað á þá leið að [s]ér hefði skilist að ástæða þess að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðingarnefnd hefði verið „ein setning". Hvaða setning var það?“. Davíð svaraði þá:"
http://is.wikipedia.org/wiki/Einkav%C3%A6%C3%B0ing_bankanna_2002
Hörður Þórðarson, 14.4.2014 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.