16.2.2007 | 14:52
Sækjum þróunaraðstoð til Noregs
Ég tek mikið af myndum og átti meðal annarra myndir af blindum börnum og unglingum sem birst höfðu opinberlega. Af þvi tilefni leitaði til mín sérkennari hér á landi sem ættuð er frá Sviss en hefur búið hér í nokkur á og öðlast hér ríkisborgararétt. Tilefni heimsóknarinnar var að fá myndir til að sýna með fyrirlestri sem hún kemur til með að halda í þekkingarmiðstöð blindra í Noregi.
Hún átti með réttu ekki orð til að lýsa því hvað Íslendingar eru aftarlega á merinni hvað varðar kennslu og þjónustu fyrir blinda. Tæplega 170 börn hér á landi falla undir skilgreiningar Blindrafélagsins sem eru viðmiðunarreglur víða þ.e. hafa undir 30 % sjón með bestu hjálpartækjum. Stór hluti þessara barna getur ekki lært svartletur eins og þeir sem sjá lesa. Til að þau verði læs og skrifandi verða þau að læra blindraletur sem er samsett úr tveimur dálkum af punktum yfirleitt með þremur þunktum í hvorum. Það er skemmst frá því að segja að nær engin slík kennsla fer fram. Aðeins einn sérhæfður blindrakennari er starfandi og engin þekkingarmiðstoð sem getur stutt almenna kennara í kennslu við blinda.
Þegar þjónusta við fullorðna blinda er skoðuð tekur varla betra við. Einn umferliskennari þ.e kennari sem kennir blindum að athafna sig og ferðast um er starfandi og er að hætta. Hann þjónar þeim 1400 mans sem teljast undir sömu viðmiðunarmörkum.
Ef menn geta ekki lesið, hvernig bjarga menn sér? Með aðstoð tölvu er t.d. Hægt að skanna inn bréf og láta breyta myndinni sem þannig myndast í tölvuletur sem talgervill les. Á fundi í Blindrafélaginu kom m.a. fram að nýblindri konu á miðjum aldri var synjað um talgervil af því fjárveitingar voru uppurnar og eldra fólki er einfaldlega synjað vegna forgangs þeirra yngri. Þeir sem stunda skólanám fá yfirleitt þessi hjálpartæki. Þá eru styrkir til tölvukaupa mjög skornir við nögl á þeim forsendum að tölvur teljist til almennra tækja sem allir eiga að geta veitt sér. Það er að vísu rétt að margar heimilistölvur eru til hér. Það er hins vegar nánast útilokað að blindur maður geti deilt tölvu með öðrum, sérstaklega ekki unglingum sem eitthvað kunna fyrir sér. Blindi maðurinn hefur sára lítla möguleika að laga það sem fer úrskeiðis því slíkt er svo sjónrænt. Þar að auki er blindi maðurinn miklu háðari því að hafa tækin í lagi og er því litð svo á að hann verði að hafa sér tæki fyrir sig og eru því tölvukaup blindra og sjónskertra yfirleitt greidd að fullu á Norðurlöndum.
Kennsla blindra barna er mjög sérhæfð. Gera þarf sérstakar upphleyptar myndir fyrir þau ganga verður um með þeim og sýna þeim hvern hlut í umhverfinu og taka verður tillit til fötlunar þeirra við allar útskýringar. Þá þarf að beita sérsniðnum aðferðum í ýmsum fögum svo sem stærðfræði, eðlisfræði o.þ.l.
Meðan aðeins er einn blindrakennari sem sinnir einu barni af nærri 170 í skólakerfinu þá sviptum við blind börn þeim rétti sem þau hafa samkvæmt lögum jafnréttisákvæðum og félagsákvæðum stjórnarskrár að mennta sig.
Meðan gamallt fólk sem verður blint fær enga aðstoð eða kennslu þá lokum við það inni, ekki aðeins í bókstaflegri merkingu heldur einnig hvað varðar aðgang að samfélaginu.
Nýlega var lagður niður sérhæfður skóli fyrir blinda. Það var gert á grundvelli þess að fatlaðir áttu ekki að vera einangraðir frá heilbrigðum börnum. Þetta leit flott út á pappírnum. Það var hins vegar sleppt þeim mikilvæga hluta að legga fé til að stiðja skólana til að geta annast þetta hlutverk og koma upp þekkingarmiðstöð sem skólar geta leitað til um stuðning og kennslu.
Þegar að þessi kona hafði samband við yfirmann þekkingarmiðstöðvarinnar og sagði upp og ofan frá því sem hún ætlaði að segja þá sagði hann að Noregur veitti þróunaraðstoð og miðað við þetta þá væri Ísland verr sett en þau lönd sem þeir væru að styrkja Ísland gæti þvi sótt um.
Það var grundvallar stefna gamla sjálfstæðisflokksins sem hvar í einhverja öfga hægristefnu að styðja menn til sjálfsbjargar. Blindir Íslendingar hafa stjórnað fyrirtækjum eru alþingismenn, verkfræðingar, lögfræðingar nuddrar og starfa við símvörslu svo dæmi séu tekin. Blindir geta menntað sig og stundað störf sem krefjast menntunar. Ef þeir njóta ekki menntunar eru möguleikar þeirra mjög fábrotnir. Sækjum því um þróunaraðstoð og setjum í þetta það fé sem vantar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.