Ekki varanleg stéttaskipting

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur reiknað út að kaupgeta tekjulægstu Íslendinganna hefur aukist þó hún hafi ekki aukist jafn mikið og þeirra ríku. Þeir fátækustu hafa nú 2,8 % meiri kaupgetu en áður en þeir ríkustu mörg þúsund sinnum meiri. Þetta finnst honum hið besta mál. Betra er að hafa þessa ríku hérna en að þeir færu með auð sinn út.

Ég er alveg sammála Hannesi að svo fremi sem milljarðamæringar misnoti ekki auð sinn til illra verka er mjög gott að þeir geymi auð sinn hér. 2000 ríkustu Íslendingarnir skipta engu máli í því sem ég fjalla um. Við getum litið fram hjá þeim. Án þess að hafa nákvæmar tölur þar um þá óttast ég að þó þeir væru ekki með í dæminu þá hafi dregið í sundur með fátækustu einstaklingunum og miðtekjufólkinu. Það er miður.

Ástæður fyrir því að þetta bil má ekki vera of mikið er nokkrar.

1. Ef bilið er mjög mikið myndast tvær þjóðir í landinu. Þeir fátæku upplifa reglur samfélagsins sem reglur “hinnar” þjóðarinnar sem þvingaðar eru upp á þá. Það eykur tilhneigingar til andþjóðfélagslegrar hegðunar. Þessi þróun er löngu byrjuð.

2. Ríkidæmi er afstætt. Bæði er það tilfinningin um ríkidæmið og líka möguleikarnir.  Ýmislegt sem er takmarkað verður dýrara þegar fjöldinn sem hefur meðaltekjur auðgast. Dæmi: Flestir gátu átt hest fyrir áratug. Með auknum peningum meðaljóna þá verður beitiland  og hesthúspláss og ýmislegt varðandi reiðmennsku mun dýrara. Alls kyns veiðileyfi, jarðnæði og fleira sem ekki telst til daglegrar neyslu verður dýrara. Það þýðir að sá fátæki getur veitt sér minna eftir því sem meðaljóninn verður ríkari.

3.  Þegar ég var að alast upp komust menn ágætlega af án bíls. Kaupmaðurinn á horninu hafði flest það sem mönnum vanhagaði um. Vörurnar voru aðeins dýrari en það sparaðist margfellt á því að þurfa ekki að reka bíl. Með auknum tekjum meðaljónsins hafa hverfaverslanir dáið drottni sínum og engin kemst af án bíls.

Þessi dæmi sýna að það sem skiptir máli þegar metið er hvort sá fátæki er betur eða verr settur á einu tímabili en öðru er ekki eingöngu samanburður á tekjum hans á öðru tímabilinu í samanburði við hitt heldur einnig samanburður á tekjum hans miðað við meðaljóninn.

Í samanburðinum má heldur ekki gleyma hversu mikið af mikilvægri þjónustu er ókeypis eða niðurgreidd og hvernig þjóðfélagið jafnar möguleika barna til þess að “fara á milli stétta” þ.e. hvort ákveðin hluti þjóðfélagsins verður dæmdur í einhvera stétt mann fram af manni.

Tökum vel á móti heiðarlegum fjármagnseigendum en gætum bilsins á milli meðaljónsins og þess fátæka með góðum persónuafslætti á skatti, ókeypis skólum, stuðningi við félagslega illa  sett börn og fötluð, háum barnabótum – ótekjutengdum – stuðningi við tómstundastarf og námskeið barna svo sem listnám utan skóla.  Þó allir þessir styrkir séu ótekjutengdir þá minnka þeir bilið. Hver króna vegur miklu meira hjá þeim tekjuminni – þess vegna fær hann meira þó hann fái jafnt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband