Til hamingju Geir


Geir hefur nú verið sýknaður af öllum ákæruliðum nema þeim að vera ekki nægjanlega duglegur að kalla saman ríkisstjórnarfundi. Ég óska honum til hamingju og er innilega glaður með sýknuna. Það er margt sem leiddi til bankahruns og rætur þess ná langt aftur fyrir þann tíma sem Geir var forsætisráðherra. Hann var að vísu í ríkisstjórnum allt frá byrjun en ekki í þeirri stöðu að hann eigi einn ábyrgðina.

Ég var ekki í stöðu Landsdómara og ætla ekki að deila um niðurstöðuna í sjálfu sér. Hins vegar tel ég ljóst að kæruleysi og óformlegheit sé mikil lenska í íslenskri stjórnsýslu. Ég held að flestir sem tjáð sig hafa um málefnið og vit hafa á séu um það sammála að allar fyrri ríkisstjórnir séu undir sömu sök seldar. Ef það er rétt þá skil ég dóminn þannig að hann sé að átelja stjórnsýsluna og benda á að í þessu tilfelli þá skipti formfesta máli. Það sem bendir til þessarar ályktunar er að Geir var ekki dæmd refsing þrátt fyrir orðalag í rökstuðningi um hugsanlegar afleiðingar þessa skorts á formlegheitum.

Steingrímur ráðherra var spurður að því hvernig þessu væri nú háttað. Hann sagði það ólíku saman að jafna. Aðstæður í þjóðfélaginu væru aðrar. Sem sagt núverandi ríkisstjórn hefur sama hátt á og hún lét dæma Geir fyrir.

Stjórnarskráin segir: Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.

Á orðum Steingríms má því ráða að engin mikilvæg mál hafi komið upp hjá núverandi ríkistjórn. Það er ef til vill vegna þessa álits sem einu batamerkin í atvinnu þjóðarinna megi rekja til aukins fiskafla og kúgunar verkalýðsins í formi lágs gengis íslensku krónunnar og skertrar þjónustu.

Þór Sarii segir að dómurinn sanni að Geir hafi algjörlega brugðist sem forsætisráðherra. Ég held að allir viti bornir menn sjái hversu vitlausar slíkar fullyrðingar eru. Þá segir Þór að það atriði sem sakfellt var fyrir sé aðalatriði. Dómurinn segir beinlínis að sýknað sé fyrir alvarlegustu brotin.

Ég spyr Þór Sarii hvort hann hefði viljað fara í það mál sem nú er lokið með aðeins það eina ákæruatriði að Geir hafi ekki haldið nógu marga formlega fundi í ríkisstjórn. Hann er ekki dæmdur fyrir að hafa ekki rætt við ráðherra sína. Hann er dæmdur fyrir skort á formfestu þ.e. að hafa formlega ríkisstjórnarfundi. Landsdómur bendir á að formið skipti máli. Ef dómurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi valdið eitt sér þjóðinni miklum skaða hefði hann dæmt Geir til refsingar.

Nei Geir var sýknaður en kæruleysi stjórnsýslunnar var dæmt. Ákærendurnir vinna með sama kæruleysi og þeir saka Geir um. Sveiattan. Og nú ætlar ríkisstjórnin að breyta lögum um ráðherraábyrgð. Hún veit sem er að hennar glerhús þolir ekki steinkast.


mbl.is Nánast fullnaðarsigur Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband