Málfrelsi forseta

Menn apa þá villu hverjir eftir öðrum að allir megi segja það sem þeir vilja af því málfrelsi sé stjórnarskrár varið. Í málfrelsi felst að mönnum sé heimilt að tjá skoðanir sínar hverjar sem þær eru en á því eru takmarkanir eins og öllu öðru frelsi.

Aðal takmarkanir eru annars vegar vegna réttinda annarra þ.e. meiðyrðalöggjöf og hins vegar takmarkanir vegna stöðu sem menn skipa.

Tilefni þessara skrifa eru fullyrðingar utanríkisráðherra um að forsetanum sé heimilt að tjá sig að vild sinni. Þetta tel ég vera mikinn misskilning. Embætti forseta Íslands fylgja ákveðnar takmarkanir á réttindum. Þetta á við um mörg önnur embætti. Lögreglumönnum væri ekki sætt í starfi ef yfirlýsingar þeirra gerðu þá ekki trúverðuga í löggæslunni. Dómarar - sérstaklega við Hæstarétt- geta ekki tekið þátt í stjórnmálum og þá væntanlega stjórnmálaumræðu, þeir eiga ekki að tjá sig um sakarefni einstakra mála umfram það sem þeir rita sem rökstuðning dóma. Tjáning þeirra er takmörkuð við dómana og hugsanlega fræðigreinar almenn eðlis. Einn hæstaréttardómari ákvað að bjóða sig fram til forseta en sagði jafnframt embætti sínu lausu sem dæmi.

Forseti Íslands getur ekki klætt sig úr embættinu. Þar sem hann kemur fram, tjáir hann sig fyrir Íslensku þjóðina en ekki sig persónulega. þess vegna er málfrelsi hans takmarkað.

Reglur um embætti forseta Íslands eru ekki skráðar nema að litlu leyti. Stjórnskipunarvenjur eru gild lög. Þannig er stjórnarskipun Bretlands lítt skráð en byggð á ákveðnum venjum sem mótast hafa fyrir margra alda baráttu við konungsveldið. Þeirri baráttu lauk með þingræðisreglunni sem jafnframt er undirstaða íslenskrar stjórnskipunar.

Baráttan á Bretlandi hafði áhrif á önnur konungsveldi m.a. það íslenska, en Ísland var konungsveldi á fyrri hluta 20. aldar. Í seinni heimstyrjöldinni var konungur okkar fastur í hernumdu landi og gat ekki sinnt skyldum sínum. Var þá skipaður ríkisstjóri og var það upphafið að embætti forseta. Við gerð stjórnarskrár vafðist fyrir mönnum neitunarvald konungsins sem var aðeins táknrænt. Ekki vildu menn alveg losa sig við það og varð þá til það sérstaka ákvæði íslenskrar stjórnarskrár að forsetinn hefur takmarkað neitunarvald.

Að öllu öðru leyti er embætti forseta sama og konungs að því undanskyldu að forseti er kosinn í almennum kosningum.

Núverandi forseti Íslands hefur talið sig hafa meiri völd en fyrirrennara hans í embætti töldu sig hafa   og fræðimanna í lögfræði álitu.

Ýmislegt er sagt óbeint í stjórnarskránni um forseta svo sem: Hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta þýðir á mannamáli að forsetinn hefur engin sjálfstæð völd. Völd hans eru nákvæmlega eins og konungsins áður - táknræn. Þegar sagt er að forseti skipi, þá er átt við að ráðherra geri það. Þetta hefur þá sögulegu skýringu að upphaflega réðu konungar skipunum en við aukið lýðræði færðust þessi völd til ráðherra en heldust að nafninu til hjá konungi.

Þetta orðalag stjórnarskrárinnar sýnir þá samfellu sem ég hef haldið fram milli valda konungs áður og forseta nú og að leita verði lögskýringa á stjórnarskránni með það í huga.

Konungum hefur orðið á að tjá sig um atriði sem þóttu ekki sæmandi stöðu þeirra. Ég man það fyrir nokkrum áratugum þá tjáði Bretaprins sig um arkitektúr í London og það lá við stjórnarkreppu. Sömu takmarkanir eru á tjáningarfrelsi forseta Íslands. Af þessum ástæðum tel ég það stjórnarskrárbrot að forsetinn reki sjálfstæða utanríkisstefnu og komi fram erlendis eins og æðsti maður þjóðarinnar með raunveruleg völd.

Önnur skýring en þessi er ótæk. Það geta ekki verið tvær ríkisstjórnir út á við. Engu skiptir að forsetinn er þjóðkjörinn. Hann er ekki þjóðin. Hann var kosinn í embættið með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Hann var ekki kosinn til að fara út fyrir rammann.

Ólafur Ragnar hefur mikið persónufylgi ekki síst eftir Icesafe. Margir telja að hann hafi bjargað Íslensku þjóðinni. Þó ég gagnrýni ekki Ólaf fyrir þá synjun tel ég að meiri vafa leika á fyrri synjun hans við setningu fjölmiðlalaga. Ég tel að á þeim tímapunkti hafi ekki verið sú krísa í þjóðfélaginu að beita mætti þessu neyðarráði sem forsetanum er gefið. Þvert á móti er hugsanlegt að skortur á fjölmiðlalögum hafi beinlínis aukið möguleika þeirra sem töldu íslensku þjóðinni trú um að allt væri í lagi fyrir hrun og þannig hafi Ólafur stór skaðað íslenska þjóð.

Eðlilegast væri fyrir utanríkisráðherra sem hefur jú málfrelsi að senda fundargestum sem Ólafur messaði yfir upplýsingar um Íslenska stjórnskipun og að gaspur Ólafs væri marklaust.

 

 

 


mbl.is Stundum hissa á ummælum forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband