Til hamingju Geir


Geir hefur nú verið sýknaður af öllum ákæruliðum nema þeim að vera ekki nægjanlega duglegur að kalla saman ríkisstjórnarfundi. Ég óska honum til hamingju og er innilega glaður með sýknuna. Það er margt sem leiddi til bankahruns og rætur þess ná langt aftur fyrir þann tíma sem Geir var forsætisráðherra. Hann var að vísu í ríkisstjórnum allt frá byrjun en ekki í þeirri stöðu að hann eigi einn ábyrgðina.

Ég var ekki í stöðu Landsdómara og ætla ekki að deila um niðurstöðuna í sjálfu sér. Hins vegar tel ég ljóst að kæruleysi og óformlegheit sé mikil lenska í íslenskri stjórnsýslu. Ég held að flestir sem tjáð sig hafa um málefnið og vit hafa á séu um það sammála að allar fyrri ríkisstjórnir séu undir sömu sök seldar. Ef það er rétt þá skil ég dóminn þannig að hann sé að átelja stjórnsýsluna og benda á að í þessu tilfelli þá skipti formfesta máli. Það sem bendir til þessarar ályktunar er að Geir var ekki dæmd refsing þrátt fyrir orðalag í rökstuðningi um hugsanlegar afleiðingar þessa skorts á formlegheitum.

Steingrímur ráðherra var spurður að því hvernig þessu væri nú háttað. Hann sagði það ólíku saman að jafna. Aðstæður í þjóðfélaginu væru aðrar. Sem sagt núverandi ríkisstjórn hefur sama hátt á og hún lét dæma Geir fyrir.

Stjórnarskráin segir: Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.

Á orðum Steingríms má því ráða að engin mikilvæg mál hafi komið upp hjá núverandi ríkistjórn. Það er ef til vill vegna þessa álits sem einu batamerkin í atvinnu þjóðarinna megi rekja til aukins fiskafla og kúgunar verkalýðsins í formi lágs gengis íslensku krónunnar og skertrar þjónustu.

Þór Sarii segir að dómurinn sanni að Geir hafi algjörlega brugðist sem forsætisráðherra. Ég held að allir viti bornir menn sjái hversu vitlausar slíkar fullyrðingar eru. Þá segir Þór að það atriði sem sakfellt var fyrir sé aðalatriði. Dómurinn segir beinlínis að sýknað sé fyrir alvarlegustu brotin.

Ég spyr Þór Sarii hvort hann hefði viljað fara í það mál sem nú er lokið með aðeins það eina ákæruatriði að Geir hafi ekki haldið nógu marga formlega fundi í ríkisstjórn. Hann er ekki dæmdur fyrir að hafa ekki rætt við ráðherra sína. Hann er dæmdur fyrir skort á formfestu þ.e. að hafa formlega ríkisstjórnarfundi. Landsdómur bendir á að formið skipti máli. Ef dómurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi valdið eitt sér þjóðinni miklum skaða hefði hann dæmt Geir til refsingar.

Nei Geir var sýknaður en kæruleysi stjórnsýslunnar var dæmt. Ákærendurnir vinna með sama kæruleysi og þeir saka Geir um. Sveiattan. Og nú ætlar ríkisstjórnin að breyta lögum um ráðherraábyrgð. Hún veit sem er að hennar glerhús þolir ekki steinkast.


mbl.is Nánast fullnaðarsigur Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki Ólaf sem forseta

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í fyrsta skipti fékk hann minnihluta atkvæða. Hann hafði fortíð sem útilokaði hann sem sameiningartákn þjóðarinnar. Þeir sem ekki hafa aldur til að muna svo langt aftur eða eru búnir að gleyma geta tekið hvern þann stjórnmálamann sem er sem hefur aðrar lífskoðanir en þeir og spurt sjálfan sig að því hvort hann geti orðið sameiningartákn þjóðarinnar. Ástæðan fyrir því að hann hlaut kosningu var einfaldlega sú að atkvæði andstæðinga hans dreifðust á fleiri frambjóðendur og þess galla í kosningakerfinu að ekki sé kosið um tvo efstu. Ef svo hefði verið hefði Ólafur aldrei náð kjöri.
Nokkrir af þeim sem styðja hann nú muna ekki lengra aftur en til þess tíma þegar hann bjargaði okkur frá þeirri vitleysu ríkisstjórnarinnar sem voru Icesafe samningarnir. Ég ætla þess vegna að fara yfir feril beitingar synjunarréttar.
Enginn forseti Íslands hefur beitt þessu ákvæði. Þegar ég var í lagadeildinni var því haldið fram að hugsanlega mætti beita því við mjög afbrigðilegar aðstæður. Ég lít svo á að slíkar aðstæður hafi myndast við hrunið og gagnrýni ekki synjun hans við nefndum lögum.
Þegar hann beitti fyrst þessu ákvæði voru ekki uppi slíkar aðstæður. Þá hafði þingið samþykkt lög sem áttu að minnka áhrif þeirra sem stálu bönkunum innanfrá á fjölmiðla. Með gífurlegum áróðri tókst bankaræningjunum að snúa almenningsálitinu sér í hag og fengu þeir síðan forsetann í lið með sér til að stöðvað þinglega niðurstöðu þegar engar sérstakar eða óvanlegar aðstæður voru í þjóðfélaginu. Með þessu gerði Ólafur næstum útilokað fyrir stjórnvöld að berjast gegn bankaþjófunum. Í framhaldi af þessu varð forsetinn fremstur í flokki þessara manna og talaði máli þeirra út um heiminn.
Sá forseti sem þetta gerði verður aldrei sameiningartákn fyrir Íslenska þjóð. Hvort sem þú lesandi góður styður hann eða ekki hlýtur þér að vera þetta ljóst. Því miður er hætta á því að hann komist að af sömu ástæðum og áður. Andstæðingar hans dreifa atkvæðum sínum á marga frambjóðendur. Hann sigrar ekki vegna þess að hann sé þess verður heldur vegna gallaðs kosningakerfis.
Mér finnst sorglegt að margir glæsilegir frambjóðendur bjóði sig nú gegn honum. Ég vildi sjá eina glæsilega konu í framboði, konu sem er óumdeild, vel menntuð og hefur örugga en alþýðlega framkomu og getur sameinað okkur á ný eftir erfiða tíma. Ég vildi óska að menn kæmu sér saman um eina slíka í stað þess að dreifa kröftum andstæðinga Ólafs. Við getum það með því að velja öll þegar í kjörklefan er komið þann frambjóðenda sem líklegastur er að fella Ólaf samkvæmt skoðanakönnunum.

Bannað að hjóla milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Þó mér finnist það sjálfsagt að setja reglur um rafmagnshjól eins og önnur ökutæki hugnast mér það ekki að mér verði meinað að hjóla frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Í fréttinni segir að hjól með hjálparmótór falli undir reglur um létt bifhjól og aðeins verði heimilt að aka á þeim á götum með undir 50 km. hámarkshraða.

Eins og mér hugnast ekki að mér verði meinað að nota reiðhjólið sem fararskjóta, - maður kominn á sjötugsaldur, - þá finnst mér ekki rétt að börn fái að hjóla á "hraðbrautunum" milli sveitarfélaga.

Ég sé engan mun á því hvort eldri maður noti hjálparmótór eða ungur og hraustari maður knýi sig áfram sjálfur. Hraðinn er frekar meiri hjá þeim unga. Á ef til vill að banna reiðhjólið um allt land utan innanbæjargatna?

Sagt er að reglurnar séu sniðnar að danskri fyrirmynd en þar eru hjólastígar um allt landið.

Það er trygg aðferð að koma í veg fyrir umferðarslys að banna alla umferð.


mbl.is Herða reglur um nýju fararskjótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál Snorra Óskarssonar.

Það er oft rætt um þau stjórnarskrárvörðu réttindi okkar að mega tjá skoðanir okkar frjálst og óhindrað. Sumir menn lesa þessi ákvæði þannig að allir megi segja allt hvar og hvenær sem er.
Það er grundvallarregla frelsins að það takmarkast af rétti annarra til mannréttinda. Þá má benda á það að ákveðin störf eru þess eðlis að þau takmarka tjáningarfrelsi mann. Það er til dæmis mjög óheppilegt ef ráðuneytisstjóri berjist opinberlega gegn ráðherra í sínu ráðuneyti, lögreglumaður má ekki tala fyrir anarkisma eða öðrum öfgaskoðunum gegn stjórn ríkisins.
Ofbeldi getur verið líkamlegt og það getur verið andlegt. Það getur beinst að einum einstaklingi eða hópi manna. Einstaklingar eru varðir fyrir meiðandi ummælum. Dæma má menn til skaðabóta og til að draga ummælin til baka ef þeir sýna ofbeldi í orðum.
Þegar ofbeldið beinist gegn hópi manna er aðildin erfið. Ummælin eru engu minna meiðandi fyrir einstaklinga í viðkomandi hópi. Þar tekur refsivarsla ríkisins við.
Í 233. gr. Hegningarlaga segir:
„Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.]3)“
Að mínu mati er það að ráðast á ákveðinn hóp með þeim hætti sem greinin segir að lýsa því yfir að mönnum sem hafa ákveðin ásköpuð einkenni býði dauði vegna „syndar“ þeirra.
Biblían er nú þeirrar gerðar að hægt er að finna í henni stoð fyrir hvaða öfgastefnu sem er. Eins og ég les Nýja Textamenntið þá vildi Jesú vinda af þessum ósköpum, réðist harkalega gegn öfgamönnum eins og kennaranum á Akureyri sem voru nefndir farisar. Hann réðist að mönnum sem notuðu trúna til að kúga, kvelja og svívirða. Ofbeldi er ekki betra fyrir það að það sé gert í Jesú nafni.
Yfirlýsingar kennarans um að samkynhneigðir eigi dauðan vísan aðeins fyrir að vera eins og þeir eru – eru til þess fallin að valda miklum sálarkvölum hjá þeim einstaklingum sem eru samkynhneigðir og geta leitt til sjálfsmorðs. Þau eru því graf alvarleg. Þau eru sérstaklega viðkvæm gagnvart einstaklingum á þeim aldri sem kennarinn kennir.
Eins og áður segir takmarkast tjáningarfrelsið við það að ganga ekki á rétt annarra til mannréttinda. Það eru grundvallar mannréttind að fá að vera eins og maður er meðan það raskar ekki rétti annarra. Ofbeldismenn eiga ekki að vera í kennarastöðum hvort sem ofbeldi þeirra er andlegt eða líkamlegt.
Að telja það að tjáningafrelsið leyfi slíkt ofbeldi er útúrsnúningur.


mbl.is Mál Snorra í farvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingahatur

Það er auðveldara að ala á útlendingahatri þegar að kreppir. Þannig var það í Þýskalandi á milli heimsstyrjandanna. Mér varð hugsað til þess vegna umræðunnar um að ríkur Kínverji ætlar að kaupa landskika upp á reginfjöllum og ráðherrar lýsa því yfir að þetta geti verið hluti af einhverskonar heimsráðabrölti Kínverja. 

 Jedúdamía sagði kerlingin.  Kínverjar verða ríkir án atbeina Íslendinga og ef þeir leita eftir heimsyfirráðum skiptir þessi landskiki litlu máli. Mér er nokk sama hvot einhver íslenskur bóndi byggir upp lúxushótel þarna eða kínverskur náttúruunandi. Báðir lúta íslenskum lögum. 

 Það er annað sem getur orðið til þess að íslendingar missi sjálfstæðið sitt. Ef við segjum nei við öllum fjárfestingum útlendinga á sama tíma og við rekum ríkissjóð með gífurlegum halla endar með því að kröfuhafa setja okkur stólinn fyrir dyrnar. Það er andstaða við útlendinga sem er hættuleg, andstaða við allt sem getur orðið til þess að við höfum atvinnu og höfum ráð á að reka velferðarþjóðfélag á þessu skeri. 

Við eigum gífurleg verðmæti sem eru einskis virði ef við bönnum öllum að nýta þau. 


Árið 2061

Eftir 50 ár er framtíðin sem við ræðum um þegar við segjumst vilja skila landinu ósnortnu til komandi kynslóða komin. Mín kynslóð verður komin undir græna torfu og sú kynslóð sem hefur það hlutverk að skapa tekjur fyrir umönnun okkar í ellinni farin að heimta slíkt af sínum afkomendum. Núverandi heimskreppa verður aðeins minning hjá elstu mönnum líkt og sú sem var á fjórða áratugi seinustu aldar var í minningu manna upp úr 1980.

 

Fyrir þeim sem þá lifa verður framtíð okkar þeirra nútíð og okkar nútíð gömul saga sem að hluta verður geymd í afkimum þeirra geymslumiðla sem þá verða notaðir og heita skruddur í dag.

 

Í nútímanum sveltur stór hluti mannkynsins, ekki vegna þess að fæðu skorti heldur vagna þess að þeir fátæku hafa ekki fé til að kaupa hann.

 

Þó við sjáum í fréttunum sveltandi börn með hrægamma sér við hlið bíðandi eftir næstu máltíð er það annar raunveruleiki en okkar þar sem flestir hafa eitthvað að borða og þak yfir höfuðið.  Við hugleiðum það sjaldan að við höfum verið í sömu sporum fyrir rúmri öld þar sem mörg börn sömu foreldra hétu sömu nöfnunum því flest börn dóu fyrir fermingu. Við gleymum því að fyrir 50 árum bjuggu menn enn í torfkofum og heyjuðu með svipuðum aðferðum og tíðkuðust við landnám.  Við gleymum því að það voru djarfar ákvarðanir í atvinnuuppbyggingu sem sköpuðu þau lífskjör sem við búum við þrátt fyrir kreppu.

 

Ef við færum orð manna nú til fortíðar og hugleiðum hvaða afleiðingar þau hefðu haft á okkar nútíð og þeirra framtíð ef þau hefðu verið látin ráða för. Þeir hefðu geta barist fyrir því að skila landinu ósnortnu til okkar, friðað Laugardalinn og Reyki í Mosfellsbæ fyrir hitaveituframkvæmdum, friðað Elliðaárnar, Sogið og þjórsá og aðra virkjunarkosti, ég tala nú ekki um ef þeir hefðu staðið gegn lyktarmengun frá sjávarútvegi og veiðum með nútíma veiðitækni.

 

Það er arðsemi frá þeim ákvörðunum að nýta þessar auðlindir okkar sem hafa byggt upp skóla, spítala og heilsusamlegt húsnæði. Þær ákvarðanir skilja á milli okkar og þeirra þjóða sem nú svelta. Eftir sem áður hafa þær einnig valdið gífurlegum náttúruspjöllum. Hafsbotninn hefur verið sléttaður og hægvaxta kórölum og hverastrýtum eytt. Stórum og merkilegum landsvæðum hefur verið sökkt undir miðlunarlón og fiskistofnun í sjó og ám hefur verið sköpuð mun verri lífskilyrði.

 

Þegar talað er um að taka tillit til komandi kynslóða ganga þeir sem þannig tala út frá því að það komi komandi kynslóðum best að landið breytist ekkert af mannavöldum. Engar óafturkræfar breytingar verði gerðar. Lífsskilyrði eru ekki einhver náttúrufyrirbrigði heldur efnahagsleg samkeppnisstaða landsins. Þegar kemur að baráttunni um brauðið fá þeir einir magafylli sem hafa til þess aur. Maturinn sem þá verður til skiptanna verður seldur þeim sem hæsta verðið greiðir. Verður þá ekki yndislegt að hafa ósnortna náttúru landsins.

 

Ísland er eyja í miðju hafi og við erum fá og smá. Það villir okkur stundum sýn. Margir halda að okkar ákvarðanir hafi engin áhrif út í hinum stóra heimi. Orka okkar er í samkeppni við orku frá kolum en svo miklu betri fyrir umhverfið og framtíð barna okkar.  Við höfum meiri skyldur í loftlagsmálum og sami fjöldi manna í Bandaríkjunum eða Kína einfaldlega vegna þess að tækifæri okkar eru fleiri.

 

Menn geta fundið þá veilu í rökfærslum mínum að gerðir í fortíð hafi ekki verið allar til góðs. Ef til vill hafi verið betra að hlífa sjávarbotninum. Þá dæmum við fortíðina eftir vitneskju og tækni nútíðar. Afraksturinn hefði orðið miklum mun minni. Það hefðu ekki aðeins verið fluttir inn færri lúxusjeppar og húsin hefðu orðið minni heldur hefðu skólar búið við þrengri kost og jafnrétti til náms ekki orðið að veruleika. Sú aukna fjölbreytni sem hægt og bítandi er að verða í Íslensku samfélagi er til kominn vegna góðrar menntunar sem er fyrst og fremst kominn til í upphafi vegna tekna af sjávarútvegi. Við færðum okkur af fátæktarstigi til velferðar með tekjum frá honum. Ef ég ætti að kjósa á milli þess velferðarþjóðfélags sem byggðist hér á seinustu öld og þess að hafa ósnortinn sjávarbotn umhverfis landið og efnahagslega stöðu 19 aldar þá kýs ég velferðina. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað að menn hlífðu geirfuglinum af því að útrýming hans skapaði lítinn auð til framtíðar.

 

 

Á þessum grunni tel ég að við eigum að marka stefnu til framtíðar. Hugsunarlaus eyðing náttúruauðlinda er jafn röng og öfgafull náttúruvernd. Með efnahagslegri uppbyggingu landsins skilum við samkeppnishæfara þjóðfélagi til framtíðar og tryggjum þannig brauð og betri heim fyrir afkomendurna.

  

 

 

 

 

 


Ekki rugga bátnum í ólgusjó.

 

Þó nokkuð sé um liðið frá hruni efnahagslífs á Íslandi hefur ekki komið neitt sem sprautað hefur vítamíni í það að nýju. Nokkur fyrirtæki hafa notið góðs af lágum launum vegna gengisfallsins og eru að plumma sig, örfá lítil sprotafyrirtæki hafa litið dagsins ljós en þau hafa litlu breytt fyrir heildina. Enn ganga þúsundir Íslendinga atvinnulausir og næstum því annað eins hefur flúið land.  Mörg tækifæri hafa birst sem gætu hleypt hingað lífi að nýju en það er sama hvað er það er eins og barið sé á puttana á þeim sem hingað vilja koma. Útlendingar mega hér ekkert eiga þó við eigum alla skapað hlutu í útlöndum.  Ekki má hrófla við náttúrunni, virkja eða reisa stóriðju. Erlendir aðilar mega ekki æfa flug á vopnlausum vélum af því vélarnar líkjast stríðsvélum. Svo mætti lengi telja upp möguleika sem auka innstreymi fjár til landsins án þess að skuldsetja þjóðina upp í rjáfur.

 

Ég dreg þá ályktun að ráðandi öfl innan vinstri grænna séu veruleikafirrtar draumverur sem hafa ekki skilning á því að velferð er knúin áfram af peningum, raunverulegum peningum enn ekki lánum.  Þessir einstaklingar virðast stöðva allt þó á stundum tali forystan öðrum rómi. Talsmaður þessa hóps innan ríkisstjórnarinnar er m.a. Svandís Svavarsdóttir sem virðist ætla að klára það verk sem föður hennar tókst ekki að ljúka þ.e. að setja okkur endanlega á höfuðið. Ef til vill eru þau með sömu grillur og Svavar fékk í austur þýskalandi á námsárunum þe. Sovét ísland þó Sovét sé ekki til.

 

Læknar hverfa úr landi, gamla fólkið getur ekki keypt lyfin sín, þjóðin hefur ekki ráð á opinberum framkvæmdum og atvinnuleysið hræðilegt. Á þessum tíma ætla vinstri grænir að rugga bátnum. Þeir ætla að kollvarpa þeirri sjávarútvegsstefnu sem hefur verið til fyrirmyndar í heiminum og tveir hlutlausir erlendir aðilar hafa sagt að stór skaði okkur efnahagslega. Í sama streng hafa flestir hagfræðingar sem tjáð sig hafa um málið tekið.

 

Nú rökstyðja þeir þessa samfélags tilraun með því að það efli byggðirnar. Nú gengur sá frasi að þjóðin eigi að njóta afraksturs auðlindarinnar eins og stór hluti af þeim tekjum okkar sem ekki koma frá álveru sé ekki frá sjávarútvegi. Þó hlutur sjávarútvegs af heildar innkomu íslendinga hafi minnkað þá getum við enn sagt að við lifum af sjávarútvegi. Hvernig geta menn þá sagt að við njótum ekki arðs af auðlindinni.

 

Menn sjá ofsjónum yfir því að sjávarútvegsfyrirtæki hafa stækkað. Það er hluti af hagræðingu. Af 500 manns sem fengu gjafakvóta samkvæmt nýjum reglum höfðu á annað hundrað selt kvóta áður og fengu úthlutun af því sem tekið hafði verið af þeim sem keyptu. Þetta er réttlæti Sovét Íslands. Allt á að setja í höft og úthlutanir hins opinberra með því svindli og svínaríi sem því fylgir.

 

Ef við ruggum bátnum núna þá getur það valdið þjóðar gjaldþroti. Þá lognast af atvinnuvegirnir og við flytjum brott. Þá er hægt að friða allt ísland fyrir komandi kynslóðir.  


Takið frá 25. júní milli kl. 11 og 16

Klúbburinn Geysir hefur umsjón með uppákomu í vestari enda Skipholtsins í Reykjavík 25. júní nk. milli kl. 11 og 16.

 Hljómsveit hússins spilar. Þá verður flóamerkaður og örþon sem er 180 metra maraþon í frjálsum búningum og með frjálsum aðferðum. Ekki er endilega sá sigurvegari sem kemur fyrstur í mark heldur er ekki síður metið framlagið eftir skemmtanagildi. 

Klúbburinn Geysir er endurhæfingarstaður þeirra sem hafa átt eða eiga við geðræn veikindi að stríða. Með þátttöku í öllu starfi klúbbsins allt frá smæstu verkum í flóknustu stjórnunarstarfa byggja félagar upp sjálfstraust sitt. Klúbburinn veitir síðan félögum margvíslegan stuðning bæði til náms og vinnu. 

 Klúbburinn er viðurkenndur hluti af Fountain House hreyfingunni og starfar samkvæmt stöðlum hennar. Rannsóknir hafa sýnnt fram á mjög góðan árangur hreyfingarinnar og er Klúbburinn þar enginn eftirbátur. 

 Sá sem þetta ritar er félagi og stjórnarmaður í Klúbbnum. Þá er hann hluti alþjóðaráðs Fountain Húsa sem m.a. tekur út húsin og metur hvort þau standist þær kröfur sem til slíkra húsa eru gerðar. 

 


Steinkastið í Geir Haarde

Formaður Lögmannafélagsins er vel inn í refsiréttarfari og hefur tjáð sig um ákæru gegn Geir Haarde. Hann segir að ásakanirnar séu órökstuddar og það sem meira er líklega er nánast útilokað að rökstyðja þær.

 

Þær eru nánast fólgnar í því að hann hefði átt að gera eitthvað án þess að tilgreina hvað það var.

 

Til að sanna að hann hafi vanrækt starf sitt verður að segja hvað hann átti að gera og skoða hvaða afleiðingar það hefði haft í för með sér. Ekki er nægjanlegt í þeim efnum að líta í baksýnisspegilinn heldur verður að meta slíkar ákvarðanir á grundvelli þeirrar vitneskju sem hann hafði á sýnum tíma. Það er ljóst að aðgerðir gegn bönkunum gátu haft skelfilegar afleiðingar þ.e. komið að stað því hruni sem síðar varð. Bankar lifa á trú manna á þeim.

 

Þá verður að líta til þess hvert var ástandið þegar Geir tók við forsætisráðherraembætti og meta hvort það hafi ekki þegar á þeim tímapunkti verið orðið þannig að útilokað hafi verið koma í veg fyrir hrunið.

 

Þó forsetinn hafi bjargað núverandi ráðamönnum úr snörunni er hægt að sanna hverjar afleiðingar þeirra kæruleysi hefði orðið í Icesave málinu ef þeirra gerðir hefðu náð fram að ganga. Kæruleysi þeirra að ráða lítið menntaðan skoðanabróður til að stjórna samningum við Breta og Hollendinga er glæpur. Þessir sömu ráðherrar gagnrýna forsetan fyrir að bjarga þjóðinni jafnvel eftir að ljóst er hverjar afleiðingar það hefði haft ef hann hefði ekki gert það.

 

Þá er skelfilegt hvernig ríkisstjórnin hefur lagt stein í götu allra þeirra sem hafa viljað spýta inn í hagkerfið, hvort sem það eru æfingaflugvélar, álver, virkjanir, gagnaver eða hvað það nú heitir allt saman. Eina sem ríkisstjórninni dettur í hug er að fara í ríkisframkvæmdir sem engu skila nema önnur uppbygging fylgi. Umhverfisvernd er góð en umhverfisofstæki er það ekki.

 

Þetta er fólkið sem kastar steinum í Geir.


Mat kastað á Flóruna

Nokkur styr hefur staðið um svokallað verk sem birt var í Nýlistarsafninu og fólgið var í því að ata út eintak af listaverki annars mans Flóru Íslands.

 

Það kastaði fyrst tólfunum þegar hinn svokallaði listamaður tjáði sig um verknaðinn. Hann lýsti algjörri fyrirlitningu á höfundi þess verk sem hann ataði út. Hann væri ekki listamaður af því fyrirmyndir hans væru raunverulegar þe. grasafræðileg fyrirbrigði, í því væri engin sköpun. Samkvæmt sama mælikvarða er hægt að dæma flest verk úr leik, endurrita þarf alla listasöguna þar sem flestir málarar hafa notað fyrirmyndir, menn eins og Leonardo Da Vinci er ómerkilegur miðað við þennan stórkostlega listamann sem getur sett matarleifar á bók að vísu bara að hans eigin álit.

 

Andlegt ofbeldi er framið af mönnum með minnimáttarkennd sem upphefja sjálfa sig með því að niðurlægja aðra og sér meiri. Maðurinn sem ataði bæði bók og æru listamannsins sem gerði Flóru Íslands er ekkert nema ofbeldismaður sem slær ryki í augum manna með listamannatali. Það listamannatal ættu allir sem lesið hafa nýju fötin keisarans að sjá í gegnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband